Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég kem að sjálfsögðu hér í ræðustólinn til að andmæla þessari till. til þál. Þegar mér varð það ljóst í fyrrakvöld á þingflokksfundi að það mundi eiga að þrýsta á að þessi tillaga eða tillaga eitthvað í þessa áttina yrði flutt brá mér satt að segja. Ég átti ekki von á því að svo yrði gert. Og það brá fleirum. Þegar till. síðan sá dagsins ljós brugðust borgaryfirvöld að sjálfsögðu hart við en þó kurteislega og af fullri sæmd og virðingu. Borgarráð samþykkti einróma í gær, eins og menn vita, að lýsa áhyggjum sínum af þessum fyrirhuguðu kaupum og á því að Hótel Borg og veitinga- og hótelrekstur þar yrði af lagður. Borgarráð óskaði þess enn fremur að fá að ræða málið við Alþingi og hvort ekki væri hægt að finna einhverja aðra lausn en þessa á húsnæðisvanda Alþingis.
    Mér brá satt að segja líka þegar ég opnaði Moggann minn í morgun og sá að hæstv. forseti sameinaðs þings sagðist þar ekkert hafa við borgarstjóra að tala og þá væntanlega ekki borgaryfirvöld. Þetta gat nú ekki gengið upp því að borgaryfirvöld fara nú einu sinni með skipulagsmál lögum samkvæmt, samkvæmt lögum sem samþykkt hafa verið á Alþingi auðvitað, og þar á meðal um nýtingu húsnæðis. Það þurfti þess vegna samþykki borgarinnar og þarf, ef á að leggja niður hótelrekstur á Hótel Borg og breyta húsnæðinu í kontóristastofnun. Þess vegna létti mér þegar ég hlustaði nú á hæstv. forseta sameinaðs þings því að mér fannst vera allt annað og vinsamlegra hljóð í okkar ágæta forseta. Hún gat þess t.d. að hér væri eingöngu um að ræða samningaumleitanir, en í till. er talað um samninga um kaup á Hótel Borg. Hún var sem sagt ekki að fara þess á leit að það væri hægt ef semdist um verð og skilmála að ganga frá málinu án þess að bera það á ný undir Alþingi því að samningaumleitanir eru í flestra huga held ég allt annað en samningar. Heimild til samninga er að undirrita samninga býst ég við, en samningaumleitanir eru rabb um það hvað í boði kynni að vera. Síðan gerir hún tillögu um að vísa málinu til fjvn. og þar verður málið auðvitað rætt og kemur þar af leiðandi til okkar ef það þá ekki sofnar í fjvn. sem væri auðvitað eðlilegast og langhagkvæmast að þurfa ekki að fara að deila meira um þetta mál jafnvitlaust og það er. En alla vega sagði líka hæstv. forseti að það kæmi til þingflokka.
    Um viðgerðir á þessu húsi, hvort kostar meira eða minna en 60 milljónir að gera við þetta hús skal ég ekki dæma um, en ég hygg að ef opinber aðili eins og Alþingi fer að byrja að gera við svona gamalt hús muni það ekki kosta neitt minna en það mundi kosta fyrir einhvern einkaaðila að gera það að nútímalegu hóteli án þess þó að breyta andrúmsloftinu þar. Sannleikurinn er sá, og það þekkjum við sem þurfum stundum að ferðast og fylgjumst með í gömlum borgum, að það eru kannski vinsælustu hótelin einmitt núna þau sem eru miklu, miklu eldri en Hótel Borg. Þar er búið að koma fyrir öllum nútímalegum þægindum alveg eins og hægt er að gera á Hótel

Borg. Það eru hin eftirsóknarverðustu hótel og dýrari en svo að við höfum yfirleitt efni á að búa á þeim. Það eru svo sem engin rök að Hótel Borg sé ekki nútímalegt hótel. Það kostar áreiðanlega ekkert meira að breyta því í það, koma fyrir þar því sem þarf, en að koma þarna fyrir skrifstofum sem ég hef enga trú á að verði neitt lítið veglegri en góð hótelherbergi þegar upp yrði staðið og kostnaðurinn yrði sjálfsagt meiri en menn eru að tala um nú.
    En í grg. segir, með leyfi forseta: ,,Meðan nýbyggingarmál Alþingis eru í biðstöðu vegna efnahagslegra aðstæðna í þjóðfélaginu hefur athyglin beinst að öðrum úrræðum ...`` Það er alveg rétt hjá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni að skilja þetta svo að það eigi áfram að halda með stóra þinghúsbyggingu. Henni er ég enn þá meira andvígur en nokkurn tíma þessum hugmyndum um Hótel Borgina, þetta gífurlega bákn, að króa hér Alþingi inni og loka Austurvöll af með þessum hætti og ráðhúsið raunverulega líka. Þetta hús rúmast alls ekki á þessum fleti.
    Ég hef sett fram tillögur um það, bæði í fyrrasumar og aftur nú í gær í blaðagrein í Morgunblaðinu sem vafalaust einhverjir hafa kíkt á, hvað eigi að gera. Það á að fara sér hægt. Það á að byggja eitt lítið hús, eða kannski bara helminginn af því hér úti á horninu á Skjaldbreiðarlóðinni, fyrir þingmenn. Það vantar ekki mjög mörg herbergi fyrir þingmenn, meira að segja hefur mér núna verið boðið herbergi sem þingmanni sem ég hef ekki haft áður. Það var til og ég flyst kannski í það. Og síðan auðvitað eigum við hér allar lóðirnar eins og fram hefur komið, gætum byggt huggulega fyrir skrifstofuna hér á Þórshamarslóðinni eða einhverri annarri lóð hér í nágrenninu. Síðan yrði þetta allt saman opið svæði þegar Oddfellow fer. Oddfellowar eru að byrja að byggja nýtt hús. Þetta hús hentar þeim sjálfsagt ekki lengur úr því að þeir vilja byggja annað, og ég held að þetta sé fremur óhagkvæmt hús en það væri þó hægt að nota það eitthvað fyrir Alþingi í bili ef menn vildu svo gera. En alla vega eigum við auðvitað, og ber lagaleg skylda til þess, að ræða málið við borgaryfirvöld og reyna að ná sáttum í þessum málum. Auðvitað vakir eitt og það sama fyrir okkur öllum, að hér verði manneskjulegt umhverfi, en við skulum bara fara okkur hægt í að vera að yfirbyggja þennan reit og þetta svæði. Við
eigum líka að spara fé. Þegar það er nú orðið svo að það kostar kannski á þriðja milljarð að byggja þetta nýja þinghús, þá er það auðvitað eitt sér hneyksli eins og fjárhag þjóðarinnar er komið, og hvernig sem honum væri komið.
    Og að Alþingi hafi forustu um slíkt sukk og óþarfa er auðvitað algjörlega út í bláinn, alveg eins og það er út í bláinn að kaupa Hótel Borg. En af því að ég sé nú að hæstv. forseti sameinaðs þings er kominn hér í salinn ... ( Forseti: Ég hef hlustað á alla umræðuna.) Já. Ég vildi að forseti misskildi mig ekki. Ég fagnaði hennar ummælum hér áðan og ég veit að við getum í bróðerni nú á næstu dögum og vikum öll reynt að komast að einhverri hóflegri niðurstöðu um málin og

þurfum þess vegna ekki að deila mikið. Ég sé að tími minn er nákvæmlega út runninn svo að ég læt lokið máli mínu.