Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Hæstv. forseti. Ég stend hér upp til þess að lýsa andstöðu minni við þessa till. Till. gengur út á að fela forsetum Alþingis fullt umboð til að ganga frá samningum um kaup á Hótel Borg og láta gera nauðsynlegar lagfæringar á húseigninni, þannig að ef till. verður hér samþykkt verður auðvitað ekkert aftur snúið þó að endanlegir samningar kæmu hér til staðfestingar. Þess vegna vil ég lýsa andstöðu minni strax því að á skal að ósi stemma.
    Ég er fyllilega sammála því og er í þeim hópi þingmanna sem telja að húsnæðismál Alþingis hafi verið í ólestri og þarfnist endurbóta. Alþingi og starfsemi þess er dreift um miðbæinn eins og fram hefur komið. Ég hef þess vegna stutt hugmyndir um byggingu á þeim lóðum sem Alþingi á. Ég hef að vísu ekki fylgst rækilega með undirbúningnum og það kann vel að vera að þessi undirbúningur hafi að einhverju leyti farið úr böndunum nú og byggingin sé orðin of stór, það þurfi frekar að huga að þessum teikningum og þá jafnvel hvort ekki geti verið um einhverjar áfangaskiptingar að ræða og byggingin gæti orðið einfaldari.
    En ég er algerlega andvígur hugmyndinni um kaup á Hótel Borg og hef ávallt verið andvígur því, m.a. þegar ég átti sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, að breytt yrði um rekstur á þessum stað. Það gengur ekki upp frá sjónarmiði öflugs og líflegs miðbæjar að leggja niður Hótel Borg. Þetta var glæsihótel þegar það var byggt á sínum tíma. Árið 1930 var það byggt af Jóhanni Jósefssyni og það hefur alla tíð verið rekið sem hótel, veitingahús og vinsæll fundastaður. Ég er þeirrar skoðunar að það yrði mikil blóðtaka í miðbænum ef þarna hyrfi hótel og veitingahús en skrifstofur kæmu í staðinn þótt það væru skrifstofur okkar alþingismanna. Miðbærinn á í vök að verjast og miðbærinn þarf á því lífi að halda sem þessi starfsemi hefur í för með sér.
    Mér er ljóst að við alþingismenn stjórnum því ekki fyrir eigendur þessa húss eða hótelsins hvort þarna verður rekið hótel í framtíðinni, en ég held að það sé hins vegar ljóst að á meðan jafnöflugur kaupandi og Alþingi eða ríkissjóður er á höttunum eftir slíku húsi dettur mönnum ekki neitt annað í hug. Það hefur reyndar verið gerð ein tilraun til að selja Hótel Borg og gekk eins og menn vita. Þau kaup þurftu að ganga til baka. Ég tel að við eigum að láta Hótel Borg í friði, Alþingi Íslendinga.
    Það eru fleiri en við þingmenn sem höfum verið að fjalla um þetta. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson vakti athygli á samþykkt borgarráðs sem gerð var nú á þriðjudaginn þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Borgarráð Reykjavíkur lýsir áhyggjum sínum yfir hugmyndum um að leggja niður hótelrekstur í miðbæ Reykjavíkur með hugsanlegri yfirtöku Alþingis á Hótel Borg. Óskar Reykjavíkurborg eftir viðræðum við Alþingi um hvort ekki megi finna leiðir til að leysa húsnæðisvanda Alþingis með öðrum hætti en þeim að taka úr rekstri elsta hótel borgarinnar sem jafnframt er mikilvægur þáttur í lífi og starfi í hjarta borgarinnar.``

Þessi ályktun var samhljóða samþykkt í borgarráði. Það voru allir flokkar sem að henni stóðu, ekki síður borgarfulltrúi Alþb. en borgarfulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. Borgarfulltrúi Kvennalistans sat enn fremur þennan fund og gerði engar athugasemdir við þessa bókun þannig að líta verður svo á að hún hafi verið henni samþykk.
    Ég varð hins vegar fyrir óskaplegum vonbrigðum og ég veit satt að segja ekki hvað maður á að nota stór orð þegar ég las Morgunblaðið í morgun og sá ummæli hæstv. forseta Alþingis. Þau voru ekki sæmandi fyrir forseta Alþingis sem vill tala í nafni okkar allra. Forseti Alþingis er ekki forseti Alþb. eða forseti ríkisstjórnarinnar. Forseti Alþingis er forseti okkar allra og verður að gæta virðingar sinnar og virðingar Alþingis þegar hann talar til stofnana eins og borgarstofnana. ,,Hef ekkert við borgarstjórann að ræða``, segir forseti Alþingis. Þannig má hæstv. forseti ekki koma fram og ég harma það. Mér finnst felast í þessu óviðeigandi hroki sem við þingmenn getum ekki liðið.
    Ég krefst þess sem þingmaður Reykvíkinga, og það vil ég að hæstv. forseti Sþ. viti, að það verði teknar upp þær viðræður í þessum málum við borgaryfirvöld sem þau óska eftir. Borgaryfirvöld bjóðast til, án þess að það sé nánar tilgreint, að aðstoða Alþingi við að finna lausn á húsnæðismálum Alþingis og það er ekki sæmandi fyrir Alþingi að koma á þennan hátt fram við borgarstjórn Reykjavíkur. Það er ekki við borgarstjórann einan að tala þarna. Það þarf að tala þarna við borgarstjórn og borgaryfirvöld. Og þó að hæstv. forseti Sþ. vilji ekki ræða við borgaryfirvöld mun ég eindregið óska þess að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar annist þessar viðræður úr því að forseti þingsins vill ekki eiga þar hlut að máli.
    Okkur hefur líka borist, þingmönnum, nú bréf frá miðbæjarsamtökunum, það barst okkur dag, þar sem miðbæjarsamtökin láta í ljós áhyggjur sínar yfir þessu máli. Ég leyfi mér að lesa úr þessu bréfi, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í fréttum hefur komið fram áhugi þingmanna á að kaupa eignina Hótel Borg við Pósthússtræti undir starfsemi Alþingis, en leggja niður bæði hótelhald og greiðasölu í húsinu. Stjórn GM harmar að þessi hugmynd hefur skotið upp
kollinum aftur. Miðbærinn í Reykjavík á sér bæði eldri og merkilegri sögu en önnur ból á Íslandi. Þar er sjálft landnám Ingólfs Arnarsonar og innréttingar Skúla Magnússonar, einnig fjölmörg eldri hús sem sett hafa svip á Íslandssöguna. Svæðið geymir því fleiri þjóðminjar en aðrir staðir á landinu.``
    Síðan er í bréfinu rakið hvaða starfsemi fer fram innan miðbæjarins og ,,stjórn miðbæjarsamtakanna leyfir sér að hvetja yður og hv. Alþingi til þess að leita annarra leiða til þess að leysa úr húsnæðisvanda Alþingis``. Ég tel að þetta mál hafi mikla andspyrnu í borginni og Alþingi verði að taka tillit til þess.
    Ég vil líka minna á það, og vík þá aftur að því sem ég gat um áðan, þ.e. viðbrögðum forseta Alþingis við tilmælum borgarráðs, og undirstrika það, sem hv.

8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan, að breyting á starfsemi á Hótel Borg fer ekkert fram nema borgaryfirvöld samþykki. Byggingarnefnd Reykjavíkur þarf að samþykkja ef breytt er um starfsemi í byggingum af þessu tagi. Skipulagsyfirvöld borgarinnar þurfa að samþykkja þannig að ef Reykjavíkurborg snýst alfarið gegn þessu máli nær það ekkert fram að ganga. Þessi fyrstu viðbrögð voru því afar óviturleg að mínu mati.
    Ég tel að það séu ýmsar aðrar leiðir ef menn vilja ekki sameinast um nýbyggingu en að leggja niður hótelrekstur á Hótel Borg. Þessi hús hér allt í kringum okkur eru meira og minna til sölu eða leigu, hægt að losa þau með stuttum fyrirvara. Ég nefni t.d. borgarskrifstofurnar sjálfar. Mér er kunnugt um að það hús er til sölu því að það er stutt í að Reykjavíkurborg flytji í ráðhúsið. Þannig tel ég að það séu ýmsar aðrar leiðir til en ráðast á þann rekstur sem þarna fer nú fram.
    Ég vil aðeins geta þess að lokum, vegna þess að forseti Sþ. gat þess í þessu fræga Morgunblaðsviðtali sem ég vitna í, að ekki hefði verið haft samráð við borgaryfirvöld eða við Alþingi varðandi byggingu ráðhúss. Það er ekki rétt. Ég hef í höndum bréfaskipti Reykjavíkurborgar og Alþingis um ráðhúsið þar sem forsetar Alþingis lýsa því yfir að þeir hafi engar athugasemdir að gera við byggingu ráðhússins og styðjast þar við faglegar umsagnir sem þeir fengu, bæði frá húsameistara ríkisins, sem er umsjónarmaður eigna Alþingis, og frá hönnuðum alþingisbyggingarinnar. Það er ekki rétt sem kom fram í blaðaviðtalinu og ég vildi þess vegna leiðrétta það.
    Ég ítreka síðan andstöðu mína við þessa tillögu.