Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég held að hér sé verið að ræða um málefni landsbyggðarinnar að nokkru leyti. Ég var gistivinur Borgarinnar til margra ára og mikið þótti mér vont þegar ég var að koma til Reykjavíkur og ekki var hægt að fá gistingu á Borginni. Þannig held ég að sé enn þó það hafi kannski minnkað svolítið á síðustu árum að landsbyggðarmenn hafi valið sér Borgina til gististaðar, en það er kannski frekar af öðrum ástæðum en þeim að Borgin sé ekki enn þá staðsett í hjarta borgarinnar að það sé æskilegt fyrir hvern landsbyggðarmann sem kemur hingað til borgarinnar til að reka erindi sín að hafa þar aðstöðu. Ég tel því að það væri mjög miður farið ef þyrfti að leggja niður hótelrekstur á Hótel Borg.
    Ég er ekki alveg viss um að þessi kostur að fá húsnæði fyrir Alþingi í nágrenni Alþingishússins hafi verið skoðaður sem skyldi. Ég veit t.d. að ríkissjóður eða stofnun ríkisins á húsnæði í næsta nágrenni sem ekki væri mjög erfitt að rýma. Þar á ég við póst- og símahúsið. Ég hef jafnvel heyrt að þar séu uppi hugmyndir um að flytja aðalskrifstofustarfsemi þeirrar stofnunar úr þessu húsi. Póst- og símahúsið býður líka upp á þann möguleika að byggja við það, bæði líkast til yfir gamla sjálfstæðishúsinu eða á grunni þess og svo hér fram að Kirkjustræti. Póst- og símahúsið er einnig svo stórt að það væri hægt að koma fyrir aðstöðu fyrir mikinn hluta af starfsemi þingsins þar jafnvel þó að áfram væru í húsinu þær afgreiðslustofnanir sem sjálfsagt er að séu áfram staðsettar í miðbænum og þau tæki sem þar eru að einhverju leyti í sambandi við símaþjónustuna.
    Ég vil sem sagt undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að ég teldi það mjög mikið miður fyrir landsbyggðarfólk ef Hótel Borg yrði lögð niður og það yrði ekki lengur sinnt hótelþjónustu í miðborginni. Það er eitt af því sem gerir höfuðborgina okkar mikið notalegri fyrir landsbyggðarmenn að finna fyrir því og vita um það að þessi þjónusta er og hefur verið til staðar.
    Sagan bak við Hótel Borg, uppbygging þess í tengslum við alþingishátíðina og margt fleira sem hægt er að rifja upp í sambandi við rekstur þess góða fyrirtækis er á þann veg að það eru þó nokkuð þung rök fyrir því að það verði reynt svo sem kostur er að halda þar áfram hótelstarfsemi. Ég viðurkenni það eins og sjálfsagt allir þingmenn gera að aðstaða þingmanna er frekar bágborin, en að mörgu leyti hefur þó á undanförnum árum átt sér stað mikil breyting til batnaðar í sambandi við aðstöðu þingmanna. Þar væri hægt að laga mikið þó við fengjum ekki nýtt húsnæði, bara með því að veita þingmönnum aukna og bætta þjónustu á ýmsa vegu í þeim húsakynnum sem við búum við. Þrátt fyrir það er sjálfsagt að huga að því að bæta húsaaðstöðuna, en ég held að það sé betri sá kostur, sem ég hef nefnt hér, að huga að þessum ríkishúsakynnum en leggja Hótel Borg undir starfsemi þingsins.