Jón Helgason:
    Hæstv. forseti. Það er eðlilegt, þegar þessi tillaga kemur hér til umræðu, að þá komi fram nokkuð skiptar skoðanir. En hæstv. forseti Sþ. hefur gert grein fyrir þeim ástæðum sem liggja að baki þessari tillögu og ég skal ekki endurtaka margt af því. Ég vildi aðeins benda á örfá atriði sem þarna eru ofarlega í mínum huga.
    Það hefur komið fram að á undanförnum árum hefur verið bætt úr húsnæðisleysi Alþingis með því að leita í allmörg hús í nágrenninu og að sjálfsögðu hefur það leyst bráðan vanda. Hins vegar er enn verið að kvarta yfir starfsaðstöðu og við vitum það t.d. með skrifstofuaðstöðuna að hún er fyrir neðan allar hellur. Sömuleiðis stendur fyrir dyrum að reyna að skipuleggja starfsemina á annan hátt með tilliti til þeirrar þróunar sem hefur orðið í öllu skrifstofuhaldi og vinnubrögðum. En þá reka forsetar sig á að ákaflega erfitt er að gera það með starfsemina dreifða í svo margar og smáar einingar.
    Ég er að sjálfsögðu í þeim hópi sem er fylgjandi því að hér sé byggt þannig við í nágrenni Alþingishússins að það geti þjónað þeirri starfsemi sem hér fer fram. En eins og kom fram hjá hæstv. fyrrv. forseta Sþ., hv. 4. þm. Vestf., er gert ráð fyrir að aðeins framhald á hönnunarvinnu við þá byggingu sem teiknuð hefur verið taki tvö ár og framkvæmdir hljóta því að taka alllangan tíma þannig að á alveg næstu árum er ekki sú lausn fyrir hendi fyrir utan að ég verð að viðurkenna að mér brá mjög í brún með kostnaðinn sem kom fram þegar sú áætlun lá fyrir hendi og tel nauðsynlegt að endurskoða framkvæmdina.
    Hugmynd og tillaga forseta Alþingis um að kaupa nú húsnæði Hótel Borgar byggist að sjálfsögðu ekki á vilja til að leggja niður einhverja menningarstarfsemi eða þá starfsemi sem þar hefur farið fram. Sú staðreynd blasir við að sá rekstur er kominn í strand og ég er í miklum vafa um að hann verði þar áfram þó að Alþingi þyrfti ekki þetta hús. Til þess að hann geti farið fram, a.m.k. á vegum einstaklinga, verður hann að bera sig. Það hefur því miður ekki tekist á síðustu árum að haga honum þannig.
    Hér er um að ræða tillögu um heimild til forseta að ganga til samninga um þetta húsnæði og þessari tillögu verður vísað til fjvn. Að sjálfsögðu hlýtur sú nefnd að skoða málið rækilega. A.m.k. í mínum huga er það ekki trúaratriði að kaupa þetta húsnæði. Það sem ég tel vera skyldu mína og annarra forseta þingsins er að gera það sem hægt er til að hagræða og bæta úr fyrir starfsemi Alþingis innan skynsamlegra marka kostnaðar hvort sem það verður gert á þennan hátt eða það er hægt að finna einhverja hagkvæmari leið að ná því marki. Þetta hlýtur fjvn. að skoða rækilega. En ég tel að það sé sjálfsagt að leggja málið fyrir Alþingi og fjvn. til skoðunar áður en lengra er haldið. Áður en forsetar ganga lengra og binda þingið neitt, til þess að þar gefist kostur á að skoða málið frá öllum hliðum og leita að hagkvæmustu lausn. Þannig hefur verið reynt að halda

á þessum málum, fyrst reyndar að kanna viðhorf hjá þingflokkum og svo með þessum tillöguflutningi sem fær mjög ítarlega skoðun hjá fjvn.
    Ég vil aðeins geta þess að þegar kom til umræðu árið 1981 hér að kaupa Hótel Borg var ég einnig í forsetastarfi og þá leituðum við eftir viðhorfum þingflokkanna. Það var neikvætt og þar með var ekkert farið lengra í því máli. En ég er sannfærður um að fjárhagslega hefði þá verið hagkvæmara fyrir Alþingi að ráðast í þau kaup og losna við þann kostnað sem það hefur haft í för með sér að færa starfsemina til svo margra húsa með þeim endurbótum og síðan rekstrarkostnaði og rekstrarerfiðleikum út frá hagkvæmnissjónarmiði við þessar aðstæður. En ég og þeir aðrir sem hér hafa talað eru að sjálfsögðu, þrátt fyrir að viðhorf séu misjöfn til endanlegrar niðurstöðu, sammála um að fjvn. taki málið til ítarlegrar skoðunar og þannig vona ég að málið verði afgreitt hér í dag.