Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta örfáum orðum við þessa umræðu sem er orðin nokkuð löng um það mál, sem hér er á dagskrá, sem er að vísu þess vert að ræða það nokkuð ítarlega.
    Ég vil fyrst taka það fram að ég er eindregið þeirrar skoðunar að þingið eigi að vera hér í gamla miðbænum til frambúðar og að það eigi að vinna að þeim lausnum. Í öðru lagi er ég þeirrar skoðunar að starfsaðstaða þingsins sé slík núna að það verði ekki komist hjá því að bæta úr henni sem allra fyrst og það þoli ekki bið. Þingið er, eins og komið hefur fram, dreift hér um Kvosina í fjölmörgum húsum, líklega yfir níu, og það er ógerlegt að koma við nokkurri hagkvæmni í störfum þar sem stofnunin er svo víða dreifð eins og hún er í dag. Þess vegna held ég að úrbætur í starfsaðstöðu þingsins geti ekki beðið byggingar nýs þinghúss. Hér hefur verið gerð frumhönnun og samkeppni um þinghús, sem er glæsilegt og dýrt hús sem ekki eru áform um að byggja að sinni. Þess vegna held ég að kaupin á Hótel Borg séu réttur millileikur og að hjá því verði ekki komist að bæta aðstöðu þingsins með þeim hætti. Þess vegna er ég eindregið fylgjandi því að Hótel Borg verði keypt ef möguleikar eru á því. Ég verð að segja það að ég get ekki tekið undir að það skipti sköpum um líf eða dauða hér í miðbænum hvort hótel verður rekið þar áfram eða ekki. Það eru á því miklir annmarkar. Eigendur hótelsins treysta sér ekki til að reka það áfram og það er vandséð hvort aðrir treysta sér til þess frekar.
    Hér nálægt miðbænum er reyndar glæsilegt hótel og virðulegt, sem er Hótel Holt, þannig að hótel er hér í grenndinni. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þær umræður. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum að vegna sögu þessa hótels þurfi að varðveita það sem slíkt og ég ætla ekki að niðra þeim sjónarmiðum á neinn hátt. Síður en svo. Ég held bara að við eigum ekki þennan kost í dag. Ég held að húsinu sé ekki sýndur meiri sómi, eins og nú er, heldur en að starfsaðstaða þingsins flytjist þangað. Ég tel að þessu gamla og virðulega og sögulega húsi sé sýndur fullur sómi þannig. Það væri þá hugsanlega hægt að taka það til hótelrekstrar síðar, því ég lít á þetta sem millileik og ég lít svo á að það þurfi að vinna að húsnæðismálum Alþingis áfram. En áform um byggingu nýs þinghúss eru af þeirri stærðargráðu að það verður ekki ráðist í það næstu árin. Það er mjög fallegt hús og fer vel finnst mér hér á þessari torfu, en það er seinnitímamál.
    Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en ég styð eindregið þessa tillögu án þess að það dragi á neinn hátt úr framtíðaráformum um aðstöðu fyrir þinghald hér í gamla miðbænum.