Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki út af fyrir sig miklu að bæta við það sem fram hefur komið í skýrslu hæstv. utanrrh. um mál þetta og atburði, en vil þó segja vegna þess sem fram kom hjá honum að Geislavörnum ríkisins hafa í dag borist upplýsingar um rannsóknir á vegum hliðstæðrar stofnunar í Noregi.
    Eins og fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. bentu fyrstu niðurstöður mælinga Norðmanna ekki til þess að geislavirk efni hafi borist í hafið frá kafbátnum og samkvæmt skeyti sem barst í dag, dagsett 13. apríl kl. 9 í morgun, þá segir þar að þessi norska stofnun hafi móttekið átta sýni sem tekin hafi verið á 1600 metra dýpi. Þá þegar höfðu fjögur þessara sýna verið rannsökuð ítarlega og sýndu þau ekki nein merki þess að geislavirk efni gætu skrifast á þetta slys. Í skeytinu segir einnig að hinar prufurnar verði rannsakaðar frekar í dag og megi vænta endanlegrar niðurstöðu á morgun, en þó þurfi lengri tíma og frekari rannsóknir til þess að heildarniðurstöður liggi fyrir. En allt bendir sem sagt til þess að ekki sé um að ræða neina geislavirkni enn sem komið er sem rekja megi til slyssins.
    Að öðru leyti langar mig aðeins að nefna það í sambandi við afskipti Geislavarna ríkisins af þessu máli, þ.e. möguleika Geislavarnanna til að fylgjast með því sem kann að gerast og þeirri þróun sem nauðsynlegt er að fylgjast vel með, ekki síst fyrir okkur Íslendinga, að þá hafa rannsóknarstofur Geislavarna ríkisins því miður ekki enn verið teknar í notkun. Geislavarnirnar hafa nýlega flutt í nýtt húsnæði og það tókst því miður ekki að ljúka við það að fullu á seinasta ári, en nú er unnið við það að fullbúa þessar rannsóknarstofur og þá á að vera hægt að taka í notkun þann fullkomna búnað sem við höfum þar til afnota. Vonandi verður því verki lokið á miðju þessu ári eða um mánaðamót júní/júlí. Það má einnig nefna það að fyrir þessum framkvæmdum eru fjárveitingar í ár þannig að það er séð fyrir endann á því verki og verður auðvitað reynt að hraða því eins og kostur er. En við höfum ekki nægjanlegar bakgrunnsupplýsingar um geislavirkni á hafsvæðum umhverfis Ísland eins og við hefðum þurft að hafa í dag. Það hefur verið að störfum starfshópur á vegum samgrh. þar sem fulltrúar frá Siglingamálastofnun og Geislavörnum ríkisins hafa átt samstarf og hafa undirbúið tillögur um það, hvernig hægt sé að standa að slíkri upplýsingaöflun og rannsóknum á hafsvæðinu hér umhverfis Ísland. Til þess að geta nú þegar búið okkur betur hvað þetta varðar þarf að veita fjárveitingu til tækjabúnaðar hjá Geislavörnunum sem er svo sem ekki stór upphæð en þó 1100--1200 þús. kr., rúm milljón, og auk þess þarf að útbúa skip Hafrannsóknastofnunarinnar til þess að þau geti auðveldlega tekið sýni á hafsvæðinu hér í kring. Þá ættum við að geta aflað okkur miklu betri grunnupplýsinga og síðan auðvitað fylgst með þeirri þróun sem hér kann að verða.

    Eins og fram kom hjá hæstv. utanrrh. hefur það þegar gerst að komið hafa aðvaranir um það að hertar kröfur kunni að verða gerðar til þeirra vottorða sem krafist er af Geislavörnum ríkisins varðandi okkar sjávarafurðir. Það er auðvitað mjög mikilvægt að við getum gefið slík vottorð vegna þess að þær fáu mælingar sem fram hafa farið gefa til kynna að geislavirkni hér sé með því lægsta sem gerist og mun minni en hjá flestum þeim þjóðum sem við eigum í samkeppni við um markað fyrir sjávarafurðir og það er mikilvægt að við getum gefið slík vottorð sem treysta má og auðvitað er vonandi að svo verði áfram eins og hingað til hefur verið, að þetta slys hafi ekki í för með sér alvarlegar afleiðingar.
    Þá langar mig einnig að nefna að það er nauðsynlegt að gera samninga við nágrannaþjóðirnar um að Íslandi verði tafarlaust tilkynnt um slys sem þessi. Það mun ekki vera í gildi slíkur samningur milli Íslands og nágrannaþjóðanna, en um það hefur verið rætt áður og það þarf að hrinda því í framkvæmd að gengið sé endanlega og formlega frá slíkum samningi á milli Íslands og nágrannaþjóða.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég aðeins segja það að hvað lýtur að Geislavörnum ríkisins er ljóst að ef okkur tekst nú á næstu vikum að búa þá stofnun betur en er í dag, og hvort heldur er mun stofnunin að sjálfsögðu halda áfram að fylgjast með málinu að því er lýtur að hennar verksviði og gefa stjórnvöldum upplýsingar um framvindu mála, fylgjast með því sem er að gerast hjá Norðmönnum og að sjálfsögðu reyna að koma þeim upplýsingum hið fyrsta á framfæri.