Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Ég vil einungis þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið sem ég tel mjög nauðsynlegt að einmitt sé gefin á þessum stað og raunar þakka ráðherrunum öllum fyrir þær upplýsingar sem þeir hafa veitt okkur.
    Ég og við hér getum sjálfsagt ekki annað en treyst því að allt það sem upplýst hefur verið sé rétt, og það veit ég, og að aflað hafi verið þeirra upplýsinga sem unnt var að fá og að ráðuneytið og ekki síst varnarmáladeild hafi þar unnið vel að málum. Auðvitað er eitthvað kannski dulið fyrir okkur og það er þá jafnframt dulið fyrir ráðherranum, býst ég við, og varnarmálaskrifstofu.
    Ég fagna því líka að það er upplýst að það er náið samstarf með varnarmálaskrifstofunni, auðvitað, og ráðuneytinu við varnarliðið og eins koma þar til Almannavarnir, Landhelgisgæsla og Geislavarnir ríkisins og svo framvegis. Að sjálfsögðu eiga allir þessir aðilar að starfa náið saman. Og auðvitað fáum við hvergi áreiðanlegri upplýsingar en einmitt frá okkar bandalagi, merkasta bandalagi og mikilvægasta í sögu landsins, Atlantshafsbandalaginu. Þaðan fáum við auðvitað fyrst og fremst upplýsingar. Og við fáum auðvitað, Íslendingar, engar upplýsingar sem þeir ekki geta aflað. Við erum nú ekki meiri menn en það og við skulum ekki halda að við stjórnum alheiminum og fáum einhverjar upplýsingar til dæmis frá Ráðstjórnarríkjunum sem aðrar Atlantshafsbandalagsþjóðir ekki fá og við getum lagt réttara og mikilvægara mat á það en þeir sem kunnáttumenn eru. En ég endurtek þakkir fyrir það sem upplýst hefur verið.
    Að því er varðar ummæli hæstv. samgrh. um það að við ættum að einbeita okkur að því að berjast gegn mengun hafsins og hafa að því frumkvæði, eins og hann orðaði það, og það ætti að vera okkar landhelgisbarátta, við höfum haft það frumkvæði og ekki í litlu. Að vísu er alþjóðaréttur ekki enn svo ríkulegur að hægt sé að fylgja fram fullkomnu eftirliti og fullkomnu banni, t.d. við mengun hafsins. Þó eru viðamikil réttindi þegar komin til framkvæmda. Þannig er það t.d. að við höfum fullveldisrétt, ekki bara yfir 200 mílna efnahagslögsögu. Við höfum fullveldisrétt yfir 350 mílum t.d. á Reykjaneshrygg, yfir botninum. Við eigum botninn. Í bókstaflegri merkingu má enginn henda þar neinu í hafið sem sekkur til botns og það má enginn snerta botninn nema með okkar leyfi, t.d. má ekki stunda þar botnvörpuveiðar eins og gert hefur verið í stórum stíl. Við getum, ef rétt væri á málum haldið og vel fylgt eftir, náð slíkum réttindum í samvinnu við Breta, væntanlega Íra og Færeyinga og Dani, á öllu Rockall-svæðinu. Það liggur fyrir nú og hefur gert í meira en eitt ár. Og bæði hæstv. núv. utanrrh. og fyrirrennari hans vita að Norðmenn a.m.k. eru reiðubúnir til þess í samvinnu við okkur og Dani að loka svo til öllu svæðinu frá Svalbarða suður til Færeyja sem enn er opið milli Jan Mayen og Noregs og Íslands, Jan Mayen og Íslands annars vegar og

Noregs hins vegar og svo Dana við Grænland. Það liggur fyrir og ég held að það sé ekkert launungarmál að Stoltenberg, utanríkisráðherra Noregs, hafi fyrir meira en ári síðan greint frá því að Norðmenn væru sammála okkar röksemdafærslu og okkar sérfræðinga um það að hafsbotnsréttindin á þessu svæði að réttum lögum, eftir reglum Hafréttarsáttmálans, tilheyrðu Norðmönnum, Íslendingum og Dönum. Það er meira en ár síðan að bæði Stoltenberg og Kare Willoch, formaður utanríkismálanefndar Noregs, upplýstu þetta. Það hafa tveir fundir embættismanna verið haldnir og það var gert ráð fyrir að sá þriðji yrði haldinn nú í marsmánuði sl. Hann hefur ekki enn verið haldinn.
    Það eru þessi mál sem auðvitað ber fyrst og fremst að leggja áherslu á, að knýja fram okkar réttindi, því að strandþjóðirnar ráða þróun hafréttarins og þær eru allar á fleygiferð að helga sér hafsbotnsréttindin. Sá sem gerir það fyrst tryggir auðvitað sinn rétt betur en sá sem dokar við vegna þess að það er alþjóðastofnun á ferðinni sem eftir Hafréttarsáttmálanum getur helgað sér þessi réttindi ef aðrir hafa ekki unnið sér þann þegnrétt og notað sína lagalegu heimild.
    Þetta er okkar landhelgisbarátta. Ég er alveg innilega sammála hæstv. samgrh. um það, þetta á að vera okkar landhelgisbarátta. Hún er alls ekki búin, það er fjarri því og það eru auðvitað norðurslóðirnar sem við eigum fyrst og fremst að hugsa um. Við vorum svo gæfusöm að samþykkja einróma á Alþingi hina merku tillögu frá 23. maí 1985 sem enn er í fullu gildi. Hún tekur til hafsins frá Grænlandsströndum og alls svæðisins frá Grænlandsströndum og landsvæðanna til Úralfjalla. Nú nota bæði Atlantshafsbandalagsþjóðirnar og Varsjárbandalagsþjóðirnar þetta sama hugtak, það á að afvopnast frá Atlantshafi til Úralfjalla. Þetta er stefna sem við erum búin að hafa í fjögur ár og við eigum að halda þessari ályktun mjög á lofti hvar og hvenær sem við getum. Við eigum einmitt að beina okkar kröftum að því að friða þetta svæði sem mest eða eins og alþjóðalög frekast leyfa. Siglingar eru að vísu enn þá frjálsar utan 12 mílna, hver sem þróunin svo verður. Því er friðlýst Ísland og friðlýstar 200 mílur náttúrlega ekkert nema
orðið eitt þó við gengjum til slíks. Friðlýsing og einhvers konar hlutleysi er nokkuð sem ég held að ansi fáir Íslendingar treysti á. Ég held að við verðum að treysta á sameiningarmátt okkar bandamanna ef við eigum að ná einhverjum árangri. Það veit ég að hæstv. utanrrh. skilur enda hefur hann margsinnis í þessum ræðustól og víðar haldið dyggilega uppi hinum íslenska málstað með ötulu samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins og stuðningi við þetta merkasta bandalag Íslandssögunnar.