Kafbátsslys við Bjarnarey
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Um leið og ég þakka fyrir skýrslugjöf hæstv. ráðherra langar mig til að draga fram tvö atriði sem ég vil sérstaklega styðja og hvetja til að unninn verði bráður bugur að.
    Það er orðið alllangt síðan ríkisstjórnin samþykkti að hefja reglubundnar geislamælingar hér á landi og í umhverfi landsins, nánar tiltekið í maí 1986. Þá lá það fyrir að við áttum kost á mjög mikilsverðum stuðningi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og þá var Geislavörnum ríkisins falið að hefja undirbúning að þessu, en sú stofnun átti kost á samvinnu við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina. Það hefur svo legið fyrir, eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbrmrh., að í desember 1987 höfðum við þegið tækniaðstoð frá þessari umræddu stofnun, Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, tækjabúnað að upphæð um 25.000 bandaríkjadala. Þá var áætlað að sá stuðningur við þessar mælingar gæti numið 11 millj. ísl. kr. Það var líka ljóst að við þurftum ekki að leggja til þessarar starfsemi nema brot af þessari upphæð. Eitt af þeim skilyrðum sem þurftu að vera fyrir hendi til þess að unnt væri að nýta verðmæt tæki sem Alþjóðakjarnorkumálastofnunin lét Íslendingum í té var húsnæðisaðstaða og nokkur vinnukraftur með fagþekkingu á þessu sviði. Í því tvennu var aðalkostnaður okkar fólginn. Mönnum þótti þetta einsýnt eftir að menn urðu reynslunni ríkari eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl. En svo hefur brugðið við, eftir því sem fram kom í máli hæstv. heilbrmrh. hér áðan, að rannsóknarstofan hefur ekki enn komist í gagnið. Með öðrum orðum, við höfum ekki verið manneskjur til þess að taka við þessari aðstoð sem við höfðum þegið frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni, mikilsverðri tækniaðstoð og framlagi í tækjabúnaði, því að við höfum ekki gengið frá þeim viðbúnaði sem við annars höfum. Í framhaldi af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar 1986 var unnið að því að útvega húsnæði sem Geislavarnir ríkisins hafa flutt í, en mig undrar það stórlega sem hæstv. heilbrmrh. upplýsti, að þetta væri ekki enn komið í gagnið. Ég hrökk við því ég hafði ekki spurst fyrir um þetta nýlega. Annað heyrðist mér í umræðum um þáltill. á Alþingi í desember 1987 en þá taldi ráðherra að húsnæðið yrði tilbúið á næstu mánuðum. Ég sé ekki betur en að hæstv. núv. utanrrh. sé nú þeirri reynslu ríkari eftir að hafa fengið upplýsingar um þetta hörmulega slys, þetta kafbátsslys, að hann hljóti að styðja það nú að frá þessum búnaði húsnæðisins verði gengið, en mér sýnist allt benda til að eitthvað hafi skort á stuðning fjmrh. þegar þetta var á döfinni á Alþingi og í ríkisstjórninni þá.
    Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á því þarna er um að ræða starfsemi sem við þurfum ekki að leggja í nema brot af kostnaðinum. Við lyftum ekki litla fingri til að nota þá fagþekkingu sem við höfum í landinu til þess arna. Þeir hagsmunir sem við höfum vegna útflutningsverðmæta sem við framleiðum eru ekki svo litlir fyrir utan heilsufarshagsmuni landsmanna allra og nágranna okkar. Það þarf ekki

frekari orðum um þetta að fara. Þetta er annað af þeim atriðum sem ég vildi sérstaklega draga fram. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þingmenn eru tilbúnir til að styðja þetta af því afli sem þeir geta. Hitt atriðið sem ég vildi minnast á er að mér þykir það mjög mikilsvert sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. að það þurfi að koma á miklu greiðara skipulagi um upplýsingagjöf milli innlendra aðila. Það sýnist vera alveg ljóst og ég hef ekki trú á öðru en að Almannavarnir ríkisins og aðrar þær stofnanir sem mengunarslys gætu heyrt undir hafi þegar einhvers konar viðbúnaðarnet á pappírnum hjá sér. En það er einhver möskvi í því neti sem ekki er heill eða einhver hlekkur í keðjunni sem þarf að splæsa saman með einhverjum hætti. Það er ljóst því að Almannavarnir ríkisins fengu ekki upplýsingar um þessi mál fyrr en eftir dúk og disk og þá var alveg ljóst að mælingar lágu ekki nægilega glöggar fyrir. Þetta vekur auðvitað fjöldamargar aðrar hugleiðingar en ég ætla ekki að fara út í þá sálma, það hafa aðrir þingmenn gert. En þessi tvö atriði eru algjörlega ljós og eiga að vera tiltölulega auðveld fyrir Íslendinga sjálfa að leysa.