Frv. til laga um breytingar á umferðarlögum
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það kom fram í umræðum um þingsköp sl. miðvikudag að formaður þingflokks Alþfl. hafði uppi mjög ég vil segja harðorð ummæli í minn garð vegna þess að ég hefði að tilefnislausu, sem var innihald hans orða en ekki orðrétt, tafið fyrir því að frv. til umferðarlaga kæmist til nefndar á fundi sl. þriðjudag. Það kom jafnframt fram á þeim fundi að forseti deildarinnar lagði mjög hart að mér að falla frá því að taka þátt í umræðunum og óskaði þess ásamt formanni þingflokks Alþfl. að ég léti það athugasemdalaust að umræður gætu haldið áfram þótt ég gæti ekki verið við þær til þess að þetta frv. gæti sem fyrst komið til nefndar og hægt væri að afgreiða það úr allshn., en þar væri fyrir frv. til breytinga á umferðarlögum. Mér fannst sem það væri mjög mikill áhugi á bak við þessi ummæli, bæði formanns þingflokks Alþfl. og hjá forseta deildarinnar, þannig að ég skildi það svo að það lægi á að koma frv. til breytinga á umferðarlögum til nefndar. Það kemur mér því mjög á óvart hversu neðarlega á dagskránni þetta frv. er og ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að flýta því að málið sé tekið til umræðu þannig að hægt sé að taka það fyrir helst um leið og lokið er afgreiðslu þeirra mála sem hér bíða 2. umr. áður en önnur frv. sem eru hér til 1. umr. eru tekin fyrir.
    Það er öldungis rétt hjá formanni þingflokks Alþfl. að umferðarlögin þurfa lagfæringar við. Mér finnst sanngjarnt að forseti deildarinnar reyni með þessum hætti að greiða fyrir frv. formanns þingflokks Alþfl. til þess að hann verði kyrrari í sæti sínu og ánægðari í daglegum störfum hér í þinginu.