Áfengislög
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um frv. til breytinga á áfengislögum nr. 82 1969, með síðari breytingum.
    Nefndin fjallaði um þetta mál á fundi sínum. Á fund nefndarinnar komu Ólafur Haukur Árnason áfengisvarnaráðunautur, Höskuldur Jónsson forstjóri ÁTVR og Ólafur Ólafsson landlæknir.
    Frv. þetta fjallar fyrst og fremst um breytingar sem stafa af breytingum á skipan sveitarstjórnarmála, að niður falla sýslunefndir og einnig vegna fleiri minni háttar breytinga, m.a. þess að bjór er kominn til sölu. Enn fremur um að eftirlit með vínveitingahúsum og leyfisveitingar fyrir vínveitingum færast frá dómsmrn. til lögreglustjóra.
    Í umræðu kom fram frá Höskuldi Jónssyni, forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að Áfengisverslunin er nú að hefja herferð um auglýsingar á útsölustöðum með varnaðarorðum vegna ölvunar við akstur og fleira. Einnig kom fram í viðræðum nefndarinnar ábending eða upplýsingar frá landlækni um að Bandaríkjamenn væru nú búnir að setja í lög skyldu til viðvörunar á öllum áfengisumbúðum, vegna neyslu þeirra fyrir þungaðar konur, þar sem jafnvel lítil neysla áfengis er talin valda skaða á fóstrum, þ.e. á andlegu atgjörvi þeirra.
    En þetta frv. fjallar í sjálfu sér ekki um þau atriði og ræði ég það því ekki frekar.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það var afgreitt frá hv. Nd.