Frv. til laga um breytingar á umferðarlögum
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það liggur fyrir beiðni um að ljúka þeim málum sem áður hafa verið til 1. umr. Ég ítreka aftur að það féllu mjög þung orð í minn garð í sambandi við frv. til laga um breytingar á umferðarlögum sl. þriðjudag. Ég óska eftir því að forseti deildarinnar sýni í dag með stjórn deildarinnar að hann hafi meint það sem hann sagði þá. Það er ekki hægt að koma einn daginn og áfellast þingmenn fyrir að þeir óski eftir því að kynna sér frv., síðan kemur nýr dagur og nýr fundur í deildinni og þá eru þau frv. sem liggur svo mjög á ekki tekin til umræðu og svo virðist enn í dag sem hæstv. forseti ætli ekki að afgreiða þetta frv. Ég sé ekki að það hafi verið ástæða þá til að leggja svo hart að mér sl. þriðjudag af forseta ef algerlega á að hundsa þetta núna.
    Ég vil líka minna á að þess hefur verið óskað af mér að frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt verði tekið fyrir í deildinni. Mér var sagt af forseta að þess væri beðið að hæstv. forsrh. kæmi til landsins þannig að hann gæti verið viðstaddur framhaldsumræður um söluskattsfrv. og formaður Borgfl., Júlíus Sólnes, hefur sagt mér að hann vænti þess að forsrh. verði hér í deildinni til þess að hægt verði að fylgja eftir þeim fsp. sem nauðsynlegt var að bera fram í kjölfar ræðu hans hér fyrir viku. Þess vegna vil ég spyrja forseta að því hvort það standi ekki að hæstv. forsrh. komi hingað í deildina og verði fyrir svörum varðandi söluskattsfrv. þannig að við getum rætt þau atriði sem búið var að impra á hér fyrir viku og hann veiti þau svör sem ég skildi forseta svo að hann hefði lofað að veita þegar hann kæmi til landsins á nýjan leik og fundur yrði haldinn í deildinni.