Umferðarlög
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Hér í þessu frv. er hreyft ýmsum þáttum sem varða umferðarlögin og eru sumar greinar frv. skýlaus bót á umferðarlögunum eins og þau liggja nú fyrir. Um aðrar greinar er það að segja að þær þarfnast frekari útskýringa hv. flm. sem ég veit að hann mun greiðlega gefa á eftir og enn vil ég vekja athygli á því að þetta frv. kemur ekki inn á ýmis atriði umferðarlaga sem kannski hefði verið rétt að breyta eða a.m.k. tel ég nauðsynlegt að séu rædd þannig að á hverjum tíma sé til umræðu hvað gera megi til að draga úr slysum og greiða fyrir öryggi í umferðinni.
    Ég vek athygli á því að meðaltjón í umferðarslysum er um 30--40 þús. kr. á hvert heimili í landinu þannig að það er mjög mikilvægt að þjóðfélagið sem heild reyni að stuðla að því með öllum hætti að greiða fyrir því að umferðin sé örugg og dragi úr slysatíðni. Ég vil sérstaklega leyfa mér að lýsa því yfir að ég telji að sú ákvörðun hafi verið vafasöm að hverfa frá þeirri reglu að lögregla skuli gefa skýrslu um árekstra og umferðarslys og tel raunar nauðsynlegt að fyrri háttur sé upp tekinn í þeim efnum. Ég vil í því sambandi vekja athygli á að hv. 6. þm. Reykn. hefur í sérstöku frv. sem liggur fyrir deildinni og er nú til athugunar í allshn. lagt til sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa. Með því að þessi rannsóknarskylda er tekin af lögreglunni er um leið verið að kippa grundvellinum undan því að slysarannsóknir geti farið fram í landinu og þá fæ ég um leið ekki séð að sú ágæta nefnd sem hv. þm. leggur til að skipuð verði hafi nægileg gögn til að vinna úr þar sem þær upplýsingar sem hún hefur muni verða mjög fátæklegar. Á þetta hefur verið bent utan þings og ég veit að hv. 6. þm. Reykn. og hv. 3. þm. Vesturl. eru kunnugir þeim málum og kunnugri þeim málum en ég.
    Sjálfur þekki ég dæmi um að vegfarendur hafa kallað lögregluþjón til og staðið í þeirri meiningu að það muni tryggja eðlilegar upplýsingar og eðlilega skýrslugerð um viðkomandi umferðarslys, en síðan hefur komið í ljós að þær bókanir sem lögreglan hefur haft hjá sér hafa reynst haldlitlar og raunar gagnslausar við upplýsingar um orsakir slyss. Ég hygg því að nauðsynlegt sé að rannsóknarskylda lögreglunnar sé tekin upp á nýjan leik. Það mun gera hvort tveggja í senn, tryggja réttlátari meðferð umferðarmála en nú er og það verður nauðsynleg forsenda fyrir rannsóknum á orsökum umferðarslysa að slíkar rannsóknir geti farið fram með öruggum hætti.
    Ég vek í öðru lagi, herra forseti, athygli á því að í 7. gr. frv., sem er breyting á 92. gr. umferðarlaga, er gert ráð fyrir að orðin ,,við starfa sinn`` falli brott í þessu samhengi, en 92. gr. umferðarlaganna hljómar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Auk slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum um almannatryggingar skal eigandi skráningarskylds vélknúins ökutækis tryggja ökumann þess og gildir sú vátrygging fyrir hvern ökumann sem tækinu stjórnar. Vátryggingin skal

tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn allt að 10 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar. Vátryggt skal hjá sama vátryggingarfélagi og ábyrgðartryggir ökutækið.`` Svo hljóðar 1. mgr. lagagreinarinnar, en í frv. er gert ráð fyrir að niður falli orðin ,,við starfa sinn`` og er það skýrt svo í greinargerð:
    ,,Í lagagreininni er eiganda skráningarskylds vélknúins ökutækis ætlað að tryggja ökumann þess. Skal vátryggingin tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Þessi orð ,,við starfa sinn`` hafa valdið tryggingamönnum erfiðleikum við túlkun ákvæðisins. Lagt er til að þau falli niður, enda vandséð hvaða tilgangi þau áttu upphaflega að þjóna.``
    Þessi skýring við 7. gr. frv. kann við fyrsta yfirlestur að sýnast fullnægjandi. Það er þó ekki svo í mínum huga.
    Það er svo um óvenjulegar bifreiðar eða bifreiðar sem búnar eru margvíslegum tækjum að hvert eitt nýtt tæki getur boðið upp á meiri slysahættu en ella mundi. Við getum tekið sem dæmi þegar við aflvél bifreiðarinnar eru tengd margvísleg tæki sem eru látin vinna, t.d. til að lyfta tækjum upp á vörubílspall eða þegar vagnar eru tengdir við bifreiðar. Það er hægt að minna á að oft geta slys orðið við viðgerðir. T.d. eru mörg dæmi þess þegar menn eru að huga að ýmsu sem varðar t.d. vörubifreiðapalla. Banaslys hafa hlotist af því að pallar hafa dottið niður og þar fram eftir götunum. Það er hægt að ímynda sér að bílstjórar verði fyrir slysum við hleðslu eða afhleðslu ökutækja sinna. Svo er líka hægt að hugsa sér að starf bifreiðastjórans sé mjög þröngt, að sú trygging sem kveðið er á um í 92. gr. eigi einungis að tryggja ökumanninn þegar hann situr við stýrið og bíllinn er á hreyfingu. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þm. geri gleggri grein fyrir því en hann hefur gert hvað hann eigi við og hver hugsun hans sé þegar hann leggur til að orðin ,,við starfa sinn`` falli brott. Ég tek að vísu undir það að ef hugsun hv. þm. er sú að rétt sé að tryggja atvinnubílstjóra sérstaklega fyrir slysahættu sem skapast af margvíslegum störfum utan við sæti ökumanns, þá er auðvitað sú hugsun á bak við það að það gæti orðið til þess að lækka iðgjöld á almenningi almennt. Það er tilhneiging vátryggingarfélaga til að koma til móts við atvinnubílstjóra og þau fyrirtæki sem hafa margvíslegan rekstur með höndum og
þess vegna er sú hætta alltaf fyrir hendi að einhver hluti af þeim þunga sem kemur af því að vátryggja hættulegan atvinnurekstur lendi á hinum almenna borgara. Auðvitað er sú hætta fyrir hendi.
    Nú sé ég ekki, hæstv. forseti, mikinn tilgang í því að reyna að spyrja hv. flm. út úr og má kannski einu gilda þegar hann er ekki við, en hér er verið að tala um mjög þýðingarmikið ákvæði umferðarlaganna þar sem er ákvæði um slysatrygginguna og ég ítreka það til að það komi alveg skýrt fram að ég óska eftir því við flm. þessa frv. að hann geri rækilega grein fyrir því hvaða hugsun er á bak við að niður falli orðin

,,við starfa sinn``, hvort hann sé með þessu að þrengja þann tryggingarrétt sem atvinnubílstjórar hafi nú eins og ég skil að hann sé að gera og ég spyr að því hvort hans hugsun sé sú að tryggingin eigi einungis að taka til bílstjóranna þegar þeir eru í sínu sæti sem ökumenn en ekki þegar þeir gegna öðrum þeim störfum sem bifreiðastjórar hljóta að gegna sem ráðnir eru til þjónustu hjá fyrirtækjum og hafa atvinnu af því að aka annarra manna bifreiðum. Skiptir þá litlu máli hvort við erum að tala um sendibíla, vörubíla, hvort við erum að tala um sendibílastöðvar, hvort viðkomandi vinnur hjá ríki eða bæ eða úti á hinum almenna vinnumarkaði. Það er auðvitað mikið öryggisatriði hvernig frá þessum málum er gengið og nauðsynlegt að sú nefnd sem tekur málið til meðferðar afli sér nákvæmrar vitneskju um hvaða afleiðingar þessi breyting hefur fyrir öryggi ökumannsins.
    Ég get fallist á að það eru viss rök fyrir því að ekki skuli blandað saman uppgjöri vegna t.d. torfærubíla, strætisvagna, vörubíla og svo venjulegra fólksbifreiða sem einstaklingar eiga, einkabifreiða, að áhættuflokkarnir eigi að skiptast í grófum dráttum eftir því til hvers bílarnir eru notaðir sem ég hygg að muni valda því að almenn bifreiðaiðgjöld muni lækka á borgurunum.
    Ég hafði satt að segja búist við því að hæstv. dómsmrh. mundi hreyfa þessum málum á þessu þingi, umferðarlögunum. Sumar af þeim greinum sem hv. þm. leggur til að breyta hér eru þess eðlis að eðlilegast hefði verið að það hefði komið fram í frv. frá hæstv. dómsmrh. og hefði verið unnið að endurskoðun umferðarlaganna og að frv. af nefnd sem hann skipaði. Ég er þakklátur hv. þm. fyrir að taka þetta frumkvæði. Það er t.d. alveg ljóst að brtt. úr aðrein í frárein sem felst í 1. gr. frv. er til mikilla bóta. Ég er sammála hv. þm. um að menn séu ekkert of góðir til að endurnýja ökuskírteini sitt innan tíu ára. Ég hygg að það kunni líka að vera til bóta, sem felst í 3. gr. frv., að lækka þann farm sem gert er ráð fyrir í 50. gr. úr 5 tonnum í 3,5 tonn og er sammála því. Ég er líka þakklátur hv. þm. fyrir 8. gr., en það var nauðsynlegt að fylgja eftir þeim hæstaréttardómi sem fallið hefur varðandi ölvun við akstur með þeim hætti sem hér er gert.
    Á hinn bóginn eru tvö atriði sem frv. fjallar ekki um og nauðsynlegt er að gera sérstaklega að umtalsefni og raunar fleiri en tvö. Í fyrsta lagi tel ég að það komi mjög til greina að allir hljólreiðamenn séu með öryggisbúnað á höfði. Ekki aðeins þeir hjólreiðamenn sem eru tíu ára eða yngri heldur að það verði gert að almennri skyldu að hjólreiðamenn hafi öryggishjálm, en það er rétt hjá hv. þm. að um það er ekki fjallað í þessu frv. heldur í frv. sem hv. 6. þm. Reykn. flutti, en hann tók það fram hér sl. þriðjudag að unnið yrði að athugun á þessum frv. báðum samtímis í allshn.
    Ég hef aflað mér upplýsinga um að þau slys sem verða vegna reiðhjóla eru vegna höfuðáverka og ég þakka því hv. þm. fyrir að hafa flutt það frv., en tel það eigi að ganga lengra, tel að hjólreiðamenn eigi

almennt að vera skyldaðir til þess að vera með öryggishjálm, það eigi sem sagt ekki að binda það við tiltekinn aldur heldur gera það að almennri skyldu.
    Ég vek í annan stað athygli á því að mjög veruleg hætta stafar af því úti á þjóðvegum landsins að engar fastar reglur hafa mótast um það hér á landi hvað sé aðalbraut og hvað ekki. Þannig hefur oft komið til þess fyrir dómstólum að mál hafa risið vegna þess að menn hafa talið sig vera í rétti á stofnbrautum eða þjóðbrautum sem á hinn bóginn hafa ekki átt réttinn gagnvart vegum sem hafa komið inn á þjóðbrautir eða stofnbrautir og veit ég að hv. þm. eru því sammála.
    Ég hygg ég fari rétt með það að í Danmörku sé sú regla að á svokölluðum T-vegamótum skuli sú stofnbraut eða þjóðbraut sem kemur inn á aðra vera í órétti þannig að aðalrétturinn fylgi þeirri braut sem er bein. Þettta getur á hinn bóginn líka valdið margvíslegum ruglingi. Ég minni á að í Nd. er nú frv. frá hv. þm. Inga Birni Albertssyni þar sem hann leggur til að því sé slegið föstu að hringvegurinn sé hvarvetna aðalbraut. Þetta er mál sem nauðsynlegt er að taka til gagngerðrar athugunar og velta fyrir sér hvernig eigi að ákveða almennar reglur sem vegfarendur geta stuðst við varðandi þetta sérstaka atriði, T-vegamótin.
    Sumir menn sem ég hef talað við um þessi mál eru þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að taka þessa reglu upp, aðrir hafa dregið í efa réttmæti þess og er auðvelt að benda á vegamót víðs vegar um landið þar sem hvort tveggja getur átt við og er hægt að fara í öll kjördæmi landsins raunar þessum orðum til staðfestingar, en fyrir dómstólum liggja alltaf ákveðin slysamál sem bíða
úrskurðar vegna misskilnings og óvissu sem varðar einmitt þetta atriði, hvar rétturinn liggur.
    Ég vek í annan stað athygli á því að í umferðarlögum er því slegið föstu að menn skuli ekki gjalda þess ef slys verður þó þeir hafi ekki öryggisbelti eins og lög segja til um. Í máli sem risið hefur út af þessu atriði hefur komið fyrir að tveir einstaklingar hafa lent í árekstri, báðir bílar skemmst viðlíka mikið, annar bílstjórinn hafði öryggisbelti en hinn ekki og það var dæmt svo að sá sem var í öryggisbeltinu skyldi greiða hinum slysabætur sem ekki hafði það. Mátti þó færa mjög rík rök fyrir því að slysabæturnar hefðu orðið mun minni og e.t.v. engar ef sá ökumaður hefði verið með öryggisbelti eins og lög segja til um. Þarna háttar með öðrum orðum þannig til að sá sem hafði öryggisbeltið var látinn gjalda þess gagnvart þeim sem hann mætti vegna þess að önnur atvik voru honum í óhag. Nú má vera að þetta sé rétt og hef ég ekki aðrar tillögur um það að flytja en vil hins vegar vekja athygli á þessu atriði.
    Í síðasta lagi hlýt ég að vekja athygli á því að lausaganga stórgripa sérstaklega, hesta einkum og sér í lagi, veldur miklu óöryggi úti á vegum landsins og er mikil spurning hvort ekki sé orðið knýjandi að setja strangar reglur um að stórgripum verði að halda innan girðinga þannig að þeir geti ekki leikið lausum

hala og hlaupið í veg fyrir bifreiðar á almennum stofnbrautum eða þjóðbrautum. Ég vil ekki ganga jafnlangt vegna sauðfjárins, vil þó minna á að misjöfnu gegnir um vegina. Ég ber það t.d. ekki saman hvaða öryggis ég tel að nauðsynlegt sé að gæta á vegum eins og t.d. undir Hafnarfjalli eða ef við tölum um stofnbraut sem liggur yfir Möðrudalsöræfi eða yfir heiðar landsins. Á slíkum stöðum má auðvitað búast við búfé að sumarlagi, en ég hygg að nauðsynlegt sé að setja miklu strangari og harðari reglur varðandi þær stofnbrautir þar sem umferð er hröðust og vegurinn að öðru leyti þannig úr garði gerður að menn aka mjög greiðlega og gjarna yfir þeim mörkum sem lög heimila án þess að ég sé að mæla því sérstaklega bót.
    Ég hef svo ekki meira um þetta að segja. Ég vænti þess að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi og ég vil líka taka undir að það frv. sem hv. 6. þm. Reykn. flutti nái fram að ganga. Ég tel að það sé nauðsynlegt. Efasemdir mínar eru meiri varðandi það frv. sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur flutt, en tel þó nauðsynlegt að hugað sé að því hvort ekki sé tímabært að setja almennar reglur um það hvar rétturinn liggur úti á þjóðbrautum landsins, hvort við eigum að taka upp svokölluð T-vegamót eða láta hægrihandarregluna vera allsráðandi eins og nú er.