Umferðarlög
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Flm. (Eiður Guðnason):
    Virðulegi forseti. Ég fagna miklum og skyndilegum áhuga hv. þm. Halldórs Blöndals á umferðarmálum og umferðaröryggismálum. Það er vissulega af hinu góða. Og ég þakka honum einnig góðar undirtektir við þetta frv. mitt. Það fór að vísu svo í ræðu hv. þm. að hann blandaði saman ýmsum atriðum úr frv. sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir er 1. flm. að og þessu frv., en hann spurði nánar tiltekið um eitt atriði sérstaklega og ég skal leitast við að svara því. Það er 7. gr. þessa frv. sem fjallar um tryggingamál: ,,Vátryggingin skal tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir allt að 10 millj. kr. vegna hvers einstaks tjónsatburðar.``
    Hv. þm. óskaði frekari skýringa á þessu. Breytingin felst í því að felld eru niður orðin ,,við starfa sinn`` vegna þess að það hafa komið í ljós ýmis álitamál. En tilgangur þessa ákvæðis í umferðarlögunum er einungis sá að tryggja ökumenn við akstur. Orðin ,,við starfa sinn`` hafa leitt til þess að það hafa risið margs konar álitamál. Hvernig á t.d. að bregðast við því ef ökumaður klifrar upp á háfermda bifreið og dettur þaðan niður og verður fyrir slysi? Þá er það auðvitað slysatrygging hans hjá atvinnurekandanum sem á að bæta það tjón. Þessi trygging í umferðarlögunum er eingöngu hugsuð fyrir ökumanninn í akstri, þ.e. við akstur bifreiðarinnar. Þessi breyting er lögð til til þess að taka af tvímæli og gera þetta ákvæði skýrara.
    Það er alveg hárrétt að það eru mörg önnur atriði í umferðarlögunum sem mætti hugsa sér að breyta og þyrfti jafnvel að breyta, en ég taldi skynsamlegra að hafa þessi atriði ekki mjög mörg. Ég gæti talið upp ein 10--12 atriði til viðbótar og það gætu fleiri hv. þm., en kaus að láta hér við sitja. En mér er auðvitað ljóst að margt má þar betur fara og skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð fleiri.