Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988, og mun nú fara yfir frv. grein fyrir grein.
    Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að taka af tvímæli varðandi starfsemi framhaldsdeilda við grunnskóla en það lagaákvæði núgildandi laga hefur í raun og veru ekki verið nægilega skýrt þannig að það hefur komið til túlkunardeilna milli ráðuneytisins og einstakra forráðamanna framhaldsskóla, einkum á Vesturlandi og tel ég því nauðsynlegt að hér verði tekin af öll tvímæli.
    Um leið og menn lesa 1. gr. frv. er æskilegt að lesa 11. gr. þar sem segir að menntmrn. geti heimilað stofnun og starfrækslu framhaldsdeildar við grunnskóla. Námstilhögun og námsframboð í framhaldsdeildum skal vera undir faglegri stjórn þeirra framhaldsskóla er menntmrn. ákveður, o.s.frv.
    Í 2. gr. frv. eru tekin af tvímæli varðandi orðalag um stofnkostnað við byggingu heimavista og þar er einnig ákvæði þar sem gert er ráð fyrir því að ríkissjóður geti með samþykki Alþingis ákveðið að greiða hærra hlutfall stofnkostnaðar við byggingu framhaldsskóla þegar í hlut eiga fámenn og févana byggðarlög en ekki er gert ráð fyrir því að slík undanþáguákvæði geti tekið til hinna stærstu og öflugustu sveitarfélaga.
    Í 3. gr. frv. er kveðið nánar á um hlutverk samstarfsnefndar framhaldsskóla en samstarfsnefnd framhaldsskólanna er undir forsæti menntmrh. og kemur saman einu sinni eða tvisvar á ári eftir atvikum og aðstæðum. Hér er gert ráð fyrir því að nefndin skipuleggi samstarf framhaldsskóla og fjalli m.a. um verkaskiptingu, samvinnu um fagstjórn svo og önnur mál sem snerta samstarf skóla. Hér er gert ráð fyrir því að menntmrh. geti skipt nefndinni í hópa til að fjalla um samstarf, verkaskiptingu og skipulag skóla í einstökum landshlutum eða um einstaka málaflokka, en eins og kunnugt er nær nefndin yfir landið allt. Hér er gert ráð fyrir því, og það er á bak við þennan málslið, að unnt verði að efna til sérstaks samstarfs t.d. eftir kjördæmum eða svæðum innan kjördæma. Dæmi um hið síðarnefnda er t.d. samstarf framhaldsskólanna á Suðurlandi, annarra en framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og dæmi um hið síðarnefnda væri t.d. samstarf framhaldsskólanna á höfuðborgarsvæðinu sem næði þá yfir framhaldsskólana í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.
    2. mgr. þessarar greinar lýtur í raun og veru að sama ákvæðinu, sem sagt að stuðla að sem bestu samstarfi framhaldsskólanna um námsframboð og innritun, verkaskiptingu eftir atvikum. Það er lögð á það áhersla í greininni að reglugerð um þessi mál verði því aðeins sett að haft hafi verið samráð við forráðamenn framhaldsskólanna, skólanefndir og skólastjórn.
    Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því að skólanefnd verði skipuð til fjögurra ára í senn og í henni sitji sjö menn. Tveir fulltrúar kosnir af starfsmannafundi, einn

fulltrúi kosinn af nemendum skólans, þrír tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta og einn fulltrúa skipar ráðherra án tilnefningar. Gert er ráð fyrir því að nefndin kjósi sér formann sjálf, þ.e. það er ekki miðað við að ráðherra skipi formann eins og er í núgildandi lögum.
    Í 2. mgr. 4. gr. er gert ráð fyrir því að tveir eða fleiri skólar í sama kjördæmi eða landshluta geti sameinast um eina skólanefnd. Það er hægt að nefna mörg dæmi um það hvað þetta gæti verið æskilegt þar sem framhaldsskólar starfa svo að segja hlið við hlið og æskilegt væri að um heildarstjórn þeirra yrði að ræða sameiginlega.
    Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir því að í stað orðsins ,,skólaráð`` komi: skólastjórn, og inn í hana komi áfangastjóri þegar hann starfar við skólann til viðbótar þeim sem voru í skólaráði samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag.
    Í 6. gr. er kveðið á um hlutdeild kennarafundar í skólastarfi. Það þótti nauðsynlegt að kveða nánar á um kennarafundina og að þeir kæmu við sögu við stefnumörkun skólans og námsskipan.
    Í 7. gr. eru gerðar nokkrar breytingar að því er varðar ráðningu starfsmanna framhaldsskólanna. Það er fyrst að skólanefnd ráði kennara, námsráðgjafa og skólasafnverði og ekki er gert ráð fyrir setningu þessara starfsmanna eins og verið hefur. Hins vegar gangi menntmrh. frá skipun þessara starfsmanna þegar um það er að ræða.
    Þá er í frv. gert ráð fyrir að skólameistari einn ráði stundakennara og aðra starfsmenn. Einnig ræður skólameistari aðstoðarskólameistara, áfangastjóra og deildarstjóra að höfðu samráði við skólanefnd. Hér er með öðrum orðum um að ræða ákvæði sem styrkir verulega skólameistarann frá því sem er í gildandi lögum jafnframt því sem í 2. gr. frv., svo sem ég rakti áðan, er gert ráð fyrir því að hlutverk skólanefndanna sé skilgreint.
    Í 8. gr. eru sett inn tvö ný starfsheiti þar sem bætt er við námsráðgjöfum og skólasafnvörðum en hlutverk námsráðgjafa mun fara vaxandi á komandi árum. Þeir eru raunar og verða örugglega áður en langur tími líður taldir ein mikilvægasta starfsstétt skólastarfsins í landinu, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum, og þeir eru sérstaklega nefndir til sögunnar hér í 8. gr. frv.
    Verulegar breytingar eiga sér stað á 9. gr. frv. þar sem felld eru niður þau
ákvæði sem eru nú í lagagreininni að nemendum sé skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum árangri. Ástæðan fyrir því að við fellum þetta niður í þessari tillögu til hv. Alþingis er ósköp einfaldlega sú að við teljum að ákvæðið sé í ósamræmi við ákvæði greinarinnar að öðru leyti, um að allir eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla sem lokið hafa grunnskólanámi.
    Þá er í þessari grein fellt niður ákvæði um heimild til að setja lágmarkskröfur til inngöngu í ákveðna

námsáfanga. Þetta ákvæði þótti heldur ekki í samræmi við rétt nemenda til náms og að skólinn yrði að gefa nemendum kost á námi við hæfi hvers og eins eftir því sem tök eru á og námsráðgjöf ætti að beita fremur en að setja almennar hömlur.
    Í 10. gr., sem er ein veigamesta grein þessa frv., eru ákvæði 32. og 34. gr. laganna sameinuð í eina grein. Það eru brott felld ákvæði þess efnis að framlög á hvern nemanda skuli vera sem næst jafnhá hvar sem er á landinu og að framlagið skuli ákveða sem tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega eins og þetta er í gildandi lögum.
    Rekstur framhaldsskólanna í landinu er margvíslegur hvað varðar nemendafjölda, húsnæði, samsetningu náms og allar ytri aðstæður þannig að jafnaðarframlag eins og miðað hafði verið við mundi koma afar illa niður á sumum skólum, einkum litlu skólunum og verkmenntaskólunum og það mundi valda stórfelldri röskun í skólastarfi.
    Þá er í frv. sett inn ákvæði þess efnis, sem er mjög mikilvægt atriði, að það skuli gerður samningur milli menntmrn. og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra. Með þessari breytingu er að því stefnt að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð og að vaxandi hluti fjárveitinga verði greiddur beint til skólanna eftir því sem aðstæður leyfa.
    Hér er um að ræða eina mikilvægustu grein frv. og að mörgu leyti þá erfiðustu. Þegar við lögðum upphafleg drög að frv. fyrir skólameistara þá lögðu þeir á það áherslu að ákvæði frv. væru mikið skýrari að því er varðar aðskilnað launakostnaðar og rekstrarkostnaðar. Við teljum hins vegar, og ég er þeirrar skoðunar, að það ákvæði sem hér er inni um skýlausa lagaskyldu ráðuneytisins til að gera samning um málin við skólana, að það ákvæði sé í raun og veru svo gott sem verða má og með því móti eigi að vera tryggt að fjármunirnir skili sér til skólanna refjalaust. Hins vegar kannast ég við þær röksemdir sem uppi eru í framhaldsskólunum að þarna eigi að kveða enn þá skarpar að orði í greininni sjálfri, og það getur verið álitamál, en þessi texti er settur hér á blað að bestu manna yfirsýn og að höfðu nánu samráði við fjölda skólameistara og milli skólameistara annars vegar og fjármáladeildar menntmrn. hins vegar. Ég verð að segja það að ég tel að það sé eitt af mikilvægustu atriðunum í stjórnsýslu menntamála almennt að stuðla að því að á milli fjármáladeildar ráðuneytisins og þeirra sem fara með peninga fyrir þess hönd úti í skólakerfinu ríki sem best traust og grundvöllur þess getur ekki orðið betri en sá að gerður sé samningur um þessi mál í einstökum atriðum á milli skólanna og ráðuneytisins.
    Í 11. gr. er svo kveðið á um stofnun og starfrækslu framhaldsdeilda við grunnskóla eins og ég gat um áðan og að þær starfi á sama hátt og aðrar framhaldsdeildir. Um þetta er það að segja að það er verulegur þrýstingur á ráðuneytið að heimila stofnun framhaldsskóla, sjálfstæðra framhaldsskóla, víðs vegar í landinu. Ég hef verið tregur til að fallast á slíkt og

hef reyndar ekki fallist á eina einustu beiðni af þessu tagi, heldur hef ég lagt á það áherslu að framhaldsdeildirnar við grunnskólana séu undir faglegri forustu framhaldsskólanna á viðkomandi svæði. Það tel ég ákaflega mikilvægt.
    Þetta frv. inniheldur ekki fleiri efnisatriði, virðulegi forseti. Hér var dreift frumvarpsdrögum fyrir mistök sem ég ber ábyrgð á, þar sem inni var ákvæði þess efnis að farið skyldi með Verslunarskólann og Samvinnuskólann eins og aðra framhaldsskóla. Um það náðist ekki viðhlítandi samkomulag á þessu stigi málsins og þess vegna var sú grein felld út úr frumvarpsdrögunum og er því ekki í frv. eins og það liggur hér fyrir.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að um þetta frv. geti tekist sæmileg samstaða hér á hv. Alþingi og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.