Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil reyndar leyfa mér að fagna því að hæstv. forsrh. skuli geta verið viðstaddur þessa umræðu um framhaldsskóla sem ég tel mjög mikilvæga. Það er nauðsynlegt að við komumst til þess að ræða skólamál og menntamál þjóðarinnar sem oftast, en ég skal reyna að vera ekki mjög langorð því ég skil líka óþolinmæði hv. 7. þm. Reykn. vegna þess að umræða um frv. hans um söluskatt hefur nú dregist á milli margra funda.
    Um þetta leyti árs í fyrra fjölluðum við hér á Alþingi um frv. til laga um framhaldsskóla sem lagt var fram af þáv. hæstv. menntmrh. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Allir gátu verið sammála um það að fyrir löngu var orðið tímabært að setja einhvers konar rammalög um framhaldsskólastigið þótt skoðanir væru vissulega skiptar um efni þess frv. sem síðar var afgreitt sem lög frá Alþingi 9. maí sl.
    Við kvennalistakonur gagnrýndum ýmsa þætti frv. og fluttum brtt. við ýmsar greinar þess. Það er dálítið kaldhæðnislegt að um það leyti sem málið var til umfjöllunar í Nd., upp úr miðjum apríl sl., stóðu kennarar í harðvítugri kjarabaráttu en reyndar var fóturinn settur fyrir þá í það skiptið. Nú þegar við tökum til umfjöllunar frv. hæstv. núv. menntmrh. um breytingar á framhaldsskólalögunum hafa kennarar enn og aftur neyðst út í harða deilu við ríkisvaldið um kjör sín og eins og allir vita eru þetta ekki fyrstu tvö skiptin sem slíkar deilur koma upp á síðustu árum. Eins og þingheimur allur veit eru margir nemendur framhaldsskólans nú fórnarlömb slíkra deilna í fjórða skiptið á námstíma sínum og ábyrgð á þeim deilum lýsi ég algjörlega á hendur stjórnvöldum þessa lands.
    Og hvernig skyldi nú standa á þessum stöðugu deilum? Jú. Ár eftir ár hafa kennarar reynt, lengst af með hógværð og þolinmæði að leiðarljósi, að fá leiðréttingu sinna mála og ástæða er til að undirstrika að kennarar eru ekki einungis að hugsa um sinn eigin hag í þeim efnum. Stéttin sem heild ber hag nemenda fyrir brjósti ekki síður en eigin hag og þar af leiðandi framtíð þjóðarinnar. Það virðist hins vegar sama hver er í forsvari fyrir ráðuneyti mennta- og fjármála, ekki er á kennara hlustað. Maður óttast að stefni í enn frekara neyðarástand í haust en hingað til en eins og menn vita er þar ekki úr háum söðli að detta. Fleiri hundruð leiðbeinendur við störf, langt frá því að jafnrétti til náms hafi náðst, og ekki styttist bilið ef svo fer sem horfir.
    Í svari hæstv. menntmrh. við fsp. minni í haust um hlutfall kennara og leiðbeinenda í fræðsluumdæmum landsins kemur m.a. fram að sums staðar á landinu er hlutfall leiðbeinenda við kennslu á framhaldsskólastigi hærra en kennara. Í Austurlandsumdæmi eru leiðbeinendur í 57,5% stöðugilda, á Norðurlandi vestra eru þeir í 61% stöðugilda en í Reykjavík í 28%.
    Þetta hlýtur að vekja upp spurninguna um jafnrétti til náms eftir búsetu og vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. með hvaða hætti hann og hans ráðuneyti hugsi sér að stuðla að því að kennarar fáist til starfa í skólum landsins um allt land, bæði í haust

og svo og í framtíðinni. Ég lýsi áhyggjum mínum af því ástandi sem enn einu sinni hefur skapast í skólunum og þeirri ábyrgð lýsi ég algjörlega á hendur stjórnvöldum eins og ég tók hér fram áðan.
    Frá því árið 1985 hafa komið út þrjár skýrslur sem allar fjalla um sama efnið, þ.e. kennarastarfið, menntunina sem krafist er til að sinna því starfi og kjör kennaranna.
    Í febrúar 1985 kom út fyrsta skýrslan sem ég nefni hér. Þá höfðu kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi gripið til þess örþrifaráðs að segja upp störfum sínum frá og með 1. mars. Skýrsla þessi er unnin á vegum menntmrn. og fjallar um endurmat á störfum kennara. Í henni kemur í ljós að kennarar hafa haft rétt fyrir sér öll undanfarin ár. Kröfur til kennara á báðum skólastigum hafa aukist til muna á meðan þeir hafa stöðugt dregist aftur úr í launum.
    Ég get eiginlega ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi sem ég heyrði í gær frá fundi BHMR-félaganna sem nú standa í verkfalli en þar flutti Þyrí Árnadóttir, kennari við Hagaskólann í Reykjavík, ræðu og tók þar eitt lítið dæmi um sín eigin kjör. Hún byrjaði að kenna í september 1973 eftir að hafa lokið prófi við Kennaraskóla Íslands og tveggja ára viðbótarnámi við kennaraháskóla í Danmörku. Maður hennar er tæknifræðingur og vinnur úti á almennum vinnumarkaði og nám tæknifræðinga er u.þ.b. jafnlangt og nám hennar á þessu stigi. Þegar heim kom voru laun hans 50.000 samkvæmt gömlu krónutölunni og hennar laun voru rétt tæpar 50.000 kr. Um þær mundir sem þau komu heim kostaði mjólkurlítrinn 20 kr. og bensínlítrinn 23 kr. Fyrir mánaðarlaunin á þessum tíma gat hún keypt 2500 lítra af mjólk og 2174 lítra af bensíni. Húsaleiga fyrir góða þriggja herbergja íbúð á þessum tíma var um 10 þús. kr. eða *y1/5*y af byrjendalaunum kennarans.
    En hver skyldu byrjunarlaun kennara nú að loknu BA-prófi og uppeldis- og kennslufræði vera? Jú, þau eru 58.932 kr. Og hvað getur þessi nýútskrifaði kennari keypt fyrir laun sín? Hún fær 990 lítra af mjólk eða rúmlega 1500 lítrum minna en kennarinn með sambærilega menntun sem hóf kennslu á byrjendalaunum árið 1973. Og bensínlítrarnir í dag, reyndar eftir olíukreppu,
eru 1345 eða 800 færri en árið 1973.
    En hvað hefur orðið um laun tæknifræðingsins? Tæknifræðingurinn, sem hefur starfað á almennum markaði samfleytt síðan 1973 eins og sá kennari sem ég tala hér um, fær nú 122.379 kr. í grunnlaun. Kennarinn hefur 71.016 eftir jafnlangan tíma í starfi. Munurinn á launum þeirra í dag er 52.363 þannig að það er einsýnt að tæknifræðingurinn getur keypt næstum því helmingi fleiri mjólkurlítra en kennarinn fyrir launin sín. Þetta er mjög augljóst og alvarlegt dæmi um það hvernig búið er að kennarastéttinni.
    Langar mig af þessu tilefni til að spyrja hæstv. menntmrh. hvaða tillögur til lausnar þeirri deilu sem nú er uppi hann hafi sem ábyrgur fagráðherra þessa málaflokks.
    Ef ég vík aftur að skýrslunum sem hafa komið út

á undanförnum árum vil ég minna á skýrslu OECD þar sem hinn rauði þráður er að bæta þurfi kjör og starfsskilyrði kennara. Hinir erlendu sérfræðingar OECD eru sammála um að fátt ef nokkuð eitt sér hafi meira að segja um gæði skóla og skólastarfs en einmitt kennararnir sjálfir. Í nóv. 1987 birtist enn ein skýrsla um starfskjör framhaldsskólakennara ásamt tillögum. Sú skýrsla var unnin af sérstakri starfskjaranefnd sem skipuð var fulltrúum fjmrh., menntmrn. og Hins íslenska kennarafélags. Í henni er að finna ýmsar tillögur til úrbóta og í greinargerð í upphafi skýrslunnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Margt bendir til þess að skólastarf á framhaldsskólastigi sé ekki í eins góðu horfi og æskilegt væri og virðist hafa hallað undan fæti í þessu efni síðustu árin. Til staðfestingar þessu má m.a. benda á athuganir sem gerðar voru sl. vetur á kennslu í íslensku og stærðfræði í framhaldsskólum. Skýrslur um niðurstöður þessara athugana hafa nýlega verið gefnar út. Brýnt er að snúa þessari þróun við og gera til þess viðeigandi ráðstafanir, bæði í launamálum kennara og einnig hvað varðar starfsskilyrði þeirra.``
    Þetta eru upphafsorð greinargerðarinnar og ekki er ágreiningur um niðurstöður þessarar skýrslu frekar en aðrar þær sem fram hafa komið.
    Síðan þessi skýrsla var gefin út hafa enn einu sinni verið gerðir óviðunandi kjarasamningar kennurum til handa vorið 1987. Það hefur gerst æ ofan í æ að kennarar hafa gengið aftur til starfa sinna í trausti þess að ýmis loforð sem stjórnvöld hafa gefið verði haldin. Loforðasúpan er nú orðin þunnfljótandi og heldur næringarlítil og ekki í neinum takt við þáltill. hæstv. heilbrmrh. um manneldis- og neyslustefnu Íslendinga.
    Veturinn 1985 þegar kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi sáu ekki aðra leið út úr sínum vandræðum en að segja upp störfum og yfirgefa skólana fóru fram miklar viðræður milli kennara og ríkisvaldsins og ég ætla, með leyfi forseta, sérstaklega þar sem hæstv. forsrh. er hér staddur, að vitna til tveggja bréfa sem þá voru skrifuð, annars vegar bréfs sem hæstv. þáv. fjmrh. Albert Guðmundsson skrifaði og hins vegar annars bréfs sem hæstv. núv. forsrh. skrifaði til staðfestingar á því sem segir í bréfi Alberts. En þetta bréf er stílað til formanns launamálaráðs BHMR, dags. 20. mars, og í því vill fjmrh. taka eftirfarandi fram, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. afhenti fulltrúum Hins íslenska kennarafélags í gær yfirlýsingu sem vísar til bókunar ríkisstjórnarinnar frá 12. mars 1985 um samstarf á sviði kjararannsókna í þeim tilgangi ,,að tryggja eðlilegt samræmi í kjörum milli ríkisstarfsmanna og manna í sambærilegum störfum á hinum almenna vinnumarkaði``.``
    Formaður launamálaráðs BHM, Stefán Ólafsson, hafði áhuga fyrir að fá nánari skilgreiningu hæstv. forsrh. á þessum orðum í bréfi fjmrh. og hér kemur staðfesting forsrh. á bréfi fjmrh. og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þú spyrð hvernig ég skilji eftirgreint atriði í

samþykkt ríkisstjórnarinnar.
    Tilgangur slíkra kjararannsókna yrði að tryggja eðlilegt samræmi í kjörum milli ríkisstarfsmanna og manna í sambærilegum störfum á hinum almenna vinnumarkaði. Með tilvísun til síðari samþykkta ríkisstjórnarinnar, m.a. þess efnis að laun fyrir dagvinnu skuli lögð til grundvallar, sýnist mér að ekki þurfi vafi á að leika. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar ber að skilja svo að ætlunin er að tryggja ríkisstarfsmönnum sömu heildarkjör og menn hafa við sambærileg störf og ábyrgð, m.a. að dagvinnulaun verði hin sömu og þegar borin eru saman laun sem eru fyrir fulla dagvinnu aðeins og tekið tillit til hlunninda hvers konar.``
    Bréf þetta er undirritað af núv. hæstv. forsrh., Steingrími Hermannssyni. Hann hefur á þessu tímabili sleppt úr einu ári sem forsrh. og því vil ég leyfa mér að beina spurningu minni til hans hér og nú hvort hann telji að þetta hafi tekist og sérstaklega í ljósi yfirlýsinga hans frá fundum í gærkvöldi þar sem talað er um óraunhæfar og vitfirrtar kröfur háskólamanna.
    Hæstv. menntmrh. hefur ferðast um landið og vil ég leyfa mér að hrósa þeim vinnubrögðum hans. Ég tel þau til fyrirmyndar, að gefa foreldrum og kennurum og öllum þeim sem áhuga hafa á skólamálum tækifæri til þess að koma og ræða málin, en ég get auðvitað ekki látið hjá líða að geta þess sem leið að þær verða lítt trúverðugar þessar fundaferðir um landið og orð hans um að ná
þjóðarsátt í mennta- og menningarmálum ná skammt ef ekki verða bætt kjör þeirra sem framar öllum bera ábyrgð á að mennta uppvaxandi kynslóð frá degi til dags. Enn síður verða þessar ferðir trúverðugar ef í kjölfarið fylgja niðurskurðarbréf hæstv. fjmrh. og vil ég leyfa mér í tilefni af þeim spyrja hæstv. menntmrh. ef hann þá getur svarað því sem ég vonast til og vænti að hann geti fyrir hönd síns ráðuneytis: Samkvæmt bréfum þessum er gert ráð fyrir 4% niðurskurði á launakostnaði skólanna frá áramótum síðustu. Þegar bréfið barst höfðu skólar þá þegar gert sínar áætlanir og stundaskrár fyrir vorönnina þannig að ekki varð aftur snúið með það sem þegar hafði verið ákveðið og vil ég því spyrja hvort skólar muni neyðast til að skera niður um 8% frá haustönninni og ef svo er, með hvaða hætti menntmrh. telur það fært, sérstaklega líka með tilliti til þess að við erum hér að fjalla um frv. þar sem gert er ráð fyrir að fjölga í skólunum með því að afnema þau inntökuskilyrði sem hingað til hafa verið í gildi og ég vænti þess að gert sé ráð fyrir að af þeirri ákvörðun, ef að lögum verður, hljótist nokkur aukakostnaður miðað við venjulegar áætlanir. En það gengur ekki lengur að kennarar þurfi að eyða öllum hléum, sem þeim gefast til endurmenntunar, undirbúnings og hvíldar, til að vinna aðra launaða vinnu til að sjá sér og sínum farborða.
    Láglaunastefnan gagnvart kennarastéttinni hefur þegar orðið menntakerfi þjóðarinnar dýrkeypt að ekki sé talað um þau áhrif sem kjör hennar og annarra sérmenntaðra stétta hafa á viðhorf ungs fólks til menntunar. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi

forseta:
    ,,Góð menntun er undirstaða framtíðarlífskjara þjóðarinnar.``
    Áferðarfalleg setning sem við þekkjum eflaust öll, en nú vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma áformum sínum um að skapa öllum skilyrði til góðrar menntunar og þar með bættra framtíðarlífskjara ef svo gengur áfram sem nú virðist stefna. Og hvað verður gert við skýrslu starfskjaranefndar frá árinu 1987? Verður henni stungið undir stólinn eins og hinum? Og svo vil ég spyrja: Hvernig getur hæstv. menntmrh. séð fyrir sér lausn þeirrar deilu sem nú virðist vera að komast í hnút? Er hann áhyggjulaus af þeim málum? Ég lýsi miklum áhyggjum mínum af þeim. En mér hefur þótt bera dálítið á áhyggjuleysi stjórnvalda núna þessar vikurnar eftir að verkföll háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna skullu á, og ég velti því fyrir mér í gær hvort áhyggjuleysi stjórnvalda endurspeglist e.t.v. í fréttum fjölmiðla þessa dagana þar sem næsta lítið er fjallað um stöðuna í menntamálum þjóðarinnar og gagnvart þessu menntaða háskólafólki.
    Í gær var t.d. skemmtileg mynd framan á DV af krökkum sem voru að dimmittera eins og venjan er að stúdentsefni geri síðasta kennsludag fyrir próf. Í texta með myndinni var þess ekki getið á einn eða annan hátt að e.t.v. mundu þessir krakkar alls ekki ljúka prófum í vor. Sams konar frétt birtist í Tímanum í morgun og aðeins er talað um dimmissjón sem gleðilegan viðburð sem á sér stað á vori hverju. Í tilefni þessa vil ég líka spyrja: Hvernig hyggst menntmrh. leysa mál þeirra nemenda sem ljúka eiga prófum í vor, þ.e. lokaprófum frá framhaldsskóla, og hver verður staða skólanna gagnvart því að taka inn nýjan árgang í haust ef ekki tekst að útskrifa þá nemendur sem ljúka eiga prófum í vor?
    Ég taldi óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að minnast á þetta áður en ég fjallaði um frv. sem slíkt því það er alveg sama hvernig lög um framhaldsskóla eru í gildi og reyndar aðra skóla í menntakerfi okkar ef engin leið er til þess að fylgja þeim eftir. Á þessari stundu get ég ekki betur séð en að framhaldsskólakerfið sé að hruni komið. Og ef svo er, ég vona reyndar að svo sé ekki og vona að úr þessari deilu leysist til frambúðar, sé ég ekki að örfáar lagabreytingar geti skipt þar sköpum á þessari stundu.
    Ég ætla aðeins að víkja hér að helstu greinum frv. (Gripið fram í.) Er tímatakmörkun á ræðutíma hér í dag? Ég hélt að svo væri ekki samkvæmt þingsköpum.
    Ég get lýst stuðningi við ýmsar greinar frv. Í 1. gr. frv. segir um framhaldsdeildir að þar verði tekin af tvímæli og það er reyndar nauðsynlegt að ljóst sé hver staða þeirra er. Í 2. gr. er talað um að ríkissjóður greiði kostnað við byggingu heimavistar og vil ég fagna því og vona að ríkissjóður standi sig vel í því að byggja heimavistir víðs vegar um landið og þá ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu því að hér standa aðeins örfá rými til boða fyrir nemendur á framhaldsskólastigi þó að námsbrautir séu hér miklu

fleiri en í nokkru öðru fræðsluumdæmi. Það er auðvitað einsýnt að svo muni verða um alla framtíð að það verður ekki hægt að bjóða upp á sérhæfðustu og fámennustu námsbrautirnar nema á einum stað í þessu landi.
    Varðandi 3. gr. tel ég mjög mikilvægt að þessi samstarfsnefnd komist á og að fjallað sé nánar um verkaskiptingu hennar og hlutverk, en ég sakna þess þarna að sjá ekki neitt um faggreinafélög vegna þess að félög hinna ýmsu faggreina eru mjög starfsöm. Ég veit að þau hafa verið að gera samstarfssamninga við menntmrn. á undanförnum mánuðum og hafa tekið þátt í samstarfi við ráðuneytið
sem slíkt og ég hefði gjarnan viljað sjá að þau ættu einhverja beina aðild hér að samkvæmt lögunum. Eins vildi ég varpa þeirri hugmynd fram og jafnvel spurningu til hæstv. menntmrh. hvort ekki væri ástæða til að þeir sem tækju að sér formennsku í slíkum faggreinafélögum fengju einhver laun þar sem þessi samningur er þó kominn á á milli ráðuneytisins og þeirra eða jafnvel kennsluafslátt sem ég teldi öllu betra því að formenn faggreinafélaga, séu þau virk, hafa mikið starf með höndum.
    Í 4. gr. er fjallað um skólanefnd sem var reyndar stærsta ágreiningsefni okkar kvennalistakvenna við ríkisstjórnina sem lagði fram frumvarpið hér í fyrra. Við vildum draga úr valdi pólitískt kjörinna fulltrúa og gæta betur faglegra sjónarmiða. Hér er komið til móts við það að nokkru leyti með því að gefa fulltrúum starfsmanna og nemendum kost á að eiga aðild að skólanefndinni. Það er auðvitað alltaf erfitt að finna nákvæmlega hvað er besta fyrirkomulagið á stjórn hinna ýmsu stofnana í þjóðfélaginu. Hér segir að þrír fulltrúar skuli tilnefndir af hlutaðeigandi sveitarfélagi eða samtökum sveitarfélaga í viðkomandi landshluta. Ég velti því fyrir mér fyrst af öllu þegar ég sá þetta, fyrst á annað borð er gert ráð fyrir þeim, sem e.t.v. er ekki óeðlilegt þar sem þau eiga þar hlut að máli, hvort ekki væri hætta á því, með því að þeir eru aðeins þrír, að fulltrúar þeirra pólitísku flokka sem eru í minni hluta á hverjum tíma ættu enga aðild að skólanefndum.
    Eins er það svo að víða hafa mörg sveitarfélög sameinast um stofnun framhaldsskóla og miðað við þetta hér, ef halda á fulltrúunum inni áfram frá sveitarfélögunum, fækkar þeim mjög. En ég ætla að kynna mér málið betur í nefnd þar sem mér gefst tækifæri til þess í menntmn. þessarar deildar.
    Varðandi 5. gr. þar sem kveðið er á um hverjir skuli sitja í skólastjórn velti ég því sömuleiðis fyrir mér hvort ekki væri frekar ástæða til að námsráðgjafi sæti í skólastjórn en áfangastjóri og vildi spyrja hæstv. menntmrh. hver sé ástæðan fyrir því, vegna þess að eftir því sem mér er best kunnugt um hafa áfangastjórar og aðstoðarskólameistarar mjög líkan starfsvettvang en í skólastjórn eru tekin fyrir mál sem geta varðað einstaka nemendur og þeirra mál og þá teldi ég jafnvel mjög gott að námsráðgjafi væri í skólastjórninni.
    Ég fagna 11. gr., þ.e. 6. gr. hér í þessu frv., þar

sem segir um kennarafundi að þeir skuli fjalla um stefnumörkun, um námsskipan, kennsluhætti og aðra starfsemi, eins og segir þar. Þetta tel ég mjög til bóta þar sem það verkefni var nánast ætlað skólanefndinni hér samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru.
    Þá vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. varðandi 7. gr. Þar er kveðið á um ráðningar við skólana. Það er mjög gjarnan notað gegn kennurum og öðrum ríkisstarfsmönnum núna að þeir búi við mikið atvinnuöryggi. Það segir hér í þessari 7. gr. að menntmrh. skipi kennara. En samkvæmt mínum skilningi jafngildir skipun, ef hún er ekki tiltekin til einhvers ákveðins árafjölda, æviráðningu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur, með leyfi forseta: ,,Æviráðning embættismanna verður afnumin.`` Vildi ég því aðeins spyrja um þetta, hvort það gildi ekki um kennara og skólameistara þar sem hér er ekki tiltekinn sá tími sem þeir eru skipaðir í störf sín.
    Ég tel til bóta að sett skuli ákvæði í reglugerð um menntun og starfssvið námsráðgjafa og skólasafnvarða eins og fram kemur í 8. gr. Síðan komum við að 9. gr. þar sem er fjallað um inntökuskilyrði. Varðandi það atriði deildum við áhyggjum í fyrra, ég og hæstv. núv. menntmrh., þar sem við gátum aldrei fengið skýr svör um það hver væru skilyrði fyrir inngöngu nemenda í framhaldsskólann og hvort ætti að bjóða þar upp á sérkennslu fyrir þá sem af ýmsum ástæðum geta ekki fylgst með eða tekið þátt í því hefðbundna námi sem boðið er upp á nú. Ég hef borið fram fsp. um þetta mál til hæstv. menntmrh. sem væntanlega verður svarað í Sþ. á næstunni þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í það núna. Við fáum væntanlega líka betri upplýsingar um það í menntmn. þessarar deildar.
    Ég tel líka mjög til bóta að það skuli vera gerðir samningar milli menntmrn. og skóla um greiðslur því að oft hefur það gerst að greiðslur dragast úr hömlu og það er aumt að þurfa að sitja í skóla þar sem jafnvel síminn er lokaður og ekki hægt að hringja út úr húsinu vegna þess að það berast ekki peningar. Ég held að allt sem dregur mörkin hvað varðar skyldu ráðuneytisins við skólana sé til bóta, að skerpt sé á slíku.
    Ég ætla síðan að lokum enn að spyrja hæstv. menntmrh. spurningar. Hér í fyrra frv. sem við fengum var 13. gr. um skólanefndir Samvinnuskólans og Verslunarskólans og sakna ég þess nú að sjá ekki hæstv. menntmrh. og velti fyrir mér hvort hann heyri til mín. Ég spyr hvers vegna hæstv. menntmrh. sá ástæðu til þess að fella út 13. gr. sem upphaflega var um skólanefndir Samvinnuskólans og Verslunarskóla Íslands.
    Þá vildi ég einnig spyrja varðandi framhaldsdeildir. Þær eru, eins og fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, umdeildar meðal manna. Þetta er ein leiðin til þess að gefa ungmennum kost á að vera lengur í sinni heimabyggð, en það verður þá auðvitað að vera tryggt að það sé verið að bjóða þeim upp á sama nám
og að það sé verið að bjóða upp á kennara með menntun í þeim greinum til kennslu við

framhaldsdeildirnar. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra. Það segir hér í frv. að nánari reglur verði settar um lágmarksfjölda nemenda og ég ætlaði að spyrja um hugmyndir hans: Hver á sá lágmarksfjöldi að vera? Á að miða við þá hópastærð sem nú er krafist við framhaldsskólana eða eru einhverjar aðrar tölur um framhaldsdeildir í hugum manna?
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, ítreka spurningar mínar til hæstv. menntmrh.:
    1. Með hvaða hætti hyggst menntmrh. beita sér fyrir því að kennarar fáist til starfa við skóla landsins í haust og í framtíðinni?
    2. Hvaða tillögur hefur menntmrh. sem ábyrgur fagráðherra skólamála til lausnar þessari deilu?
    3. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að stuðla að góðri menntun þjóðarinnar þannig að framtíðarlífskjör okkar séu tryggð?
    4. Hvað hyggst menntmrh. gera við skýrslu starfskjaranefndar frá 1987? Hvernig er ætlunin að vinna úr henni og hvenær má vænta niðurstaðna?
    5. Hvernig verða mál þeirra nemenda sem ljúka eiga prófum á framhaldsskólastigi nú í vor leyst ef deilan dregst enn á langinn?
    6. Hvernig verður staða skólanna í haust gagnvart því að taka inn nýja nemendur ef núverandi árgangar útskrifast ekki?
    Síðan vildi ég ítreka spurningu mína, ef hann getur svarað mér, varðandi niðurskurðarbréfið um 4% niðurskurð á launakostnaði við skólana. Þýðir það að skólarnir þurfi að skera niður um 8% í haust?
    Og síðast vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. um það hver afstaða hans sé til kröfu BHMR um þriggja ára samning. Þar læt ég lokið máli mínu, virðulegur forseti, en ítreka og minni á spurningar mínar til hæstv. forsrh. sem ég vænti þess að ég fái svör við hérna líka á eftir.