Söluskattur
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Hv. þm. Júlíus Sólnes taldi að ég hefði ekki kynnt mér þetta frv. nægilega vel og það má rétt vera. Hins vegar er sú kostnaðartala sem fram kom hjá honum nokkuð nálægt því sem ég var með. Ég var að vísu með kornvörurnar með í því sem ég taldi, þ.e. kostnaður ríkissjóðs ef söluskattur af kjötvörum, mjólkurvörum, grænmeti og kornvörum lækkaði í 12% er 3,7 milljarðar að mati Þjóðhagsstofnunar og af því eru kornvörur með um 900 milljónir, þannig að ef þær eru frádregnar eru þetta um 2,8 milljarðar.
    Hv. þm. var þarna með aðra upptalningu eins og egg og fleira þess háttar og það er alveg hárrétt að ég hef ekki haft tækifæri til að láta meta þá hluti, en ég efa ekki að þær tölur sem hv. þm. var með eru réttar svo að mér sýnist nú þarna vera bitamunur en ekki fjár.
    Hv. þm. spurði hvort slík lækkun kæmi ekki til greina sem liður í kjarasamningum. Ég vil upplýsa hv. þm. um það að í þeim mörgu viðræðum sem við höfum átt við aðila vinnumarkaðarins og í þessu tilfelli fyrst og fremst fulltrúa ASÍ höfum við nefnt, og þeir líka, flest þau atriði sem hv. þm. var með áðan, alveg sérstaklega lækkun á matvælum.
    Ég held ég megi hins vegar segja að það var ekki ágreiningsefni að í tengslum við skammtímasamning væri slíkt varla í myndinni og væri þá miklu eðlilegra að sú leið væri nánar athuguð í tengslum við lengri samning sem gæti fylgt í kjölfar skammtímasamnings. Eins og menn vita var það ákvörðun ASÍ að ganga ekki til viðræðna við vinnuveitendur um langtímasamning nú, heldur misjafnlega stuttan samning, þannig að það var ekki ríkisstjórnarinnar að hafa áhrif á þau mál og var reyndar ákveðið að ríkisstjórnin gerði ekki tilraun til að hafa áhrif á þau mál hve þessi samningur yrði stuttur eða langur.
    Hv. þm. minntist á ýmislegt fleira í þessu sambandi eins og t.d. hækkun á persónuafslætti í sambandi við tekjuskattinn og reyndar hefur það verið sett efst á blað af fulltrúum Alþýðusambands Íslands og ég hef ekki séð betur en að það verði sett ofar en lækkun á verði matvæla þó að ég sé fyrir mitt leyti hlynntari því síðara. Staðreyndin er sú að með hækkun á persónuafslætti er stofnað til verulegra útgjalda hjá ríkissjóði. Til að ná upp 1% kaupmætti með hækkun á persónuafslætti verður kostnaður ríkissjóðs einn og hálfur milljarður sem er afar dýr leið í þessu sambandi. Ég held að það megi nú segja það að þegar saman eru teknir þeir ýmsu liðir sem hv. þm. nefndi, sem ég tel alla mjög umræðuverða, skiptir náttúrlega kostnaður ríkissjóðs mörgum milljörðum, lækkun á söluskatti á matvæli 2,5 eða 2,8 eða hvað menn vilja hafa það, hækkun á persónuafslætti 1--2 milljarðar eftir því hvað menn eru að tala þar að sjálfsögðu um mikið o.s.frv. Slíka liði verður því að taka í nánum tengslum við fjárlagagerð ársins eða a.m.k. þá að afla tekna að einhverju leyti á móti. Hv. þm. taldi að hér skipti ekki öllu máli þetta tekjutap, það yrði hvort eð er, en ég held að sé ágreiningslaust

að það verður meira ef með einu pennastriki eru ákveðnar slíkar lækkanir.
    Hv. þm. rakti hér allítarlega viðræður sem fóru fram á milli fulltrúa ríkisstjórnar og fulltrúa Borgfl. og ýmsar þær tillögur sem þar komu fram sem, vil ég líka segja, eru allar umræðuverðar, svo vissulega, og hafa margar verið áfram í þeirri vinnu sem er hjá ríkisstjórninni í t.d. undirbúningi fyrir virðisaukaskattinn og fleira sem er á næsta ári. Meginniðurstaðan, svo að ég ljúki þessu um kjarasamninga, varð hins vegar sú, að höfðu fullkomnu samráði við ASÍ, að svona stórir liðir ættu frekar að tengjast lengri samningi sem gæti fylgt í kjölfar þess sem nú er gerður og þá frekar um áramót.
    Hv. þm. ræddi einnig um matvælaverð almennt og leiðir til að lækka það, aðrar en lækkun söluskatts. Ég vil segja það fyrst að ég er honum 100% sammála um mikilvægi þess að lækka hér matvælaverð. Hins vegar verður þar eflaust að velja ákveðin matvæli til lækkunar og sá listi sem talinn er upp í frv. er t.d. góð viðmiðun í því sambandi.
    Það er rétt hjá hv. þm. að viðskrh. ákvað að leyfa innflutning á 20 tonnum af smjörlíki, við skulum segja til reynslu. Hins vegar er ekki ljóst undir hvern það í raun og veru heyrir. Samkvæmt lögum frá 1934 fellur verslun með smjörlíki undir landbrh. Hins vegar er spurning hvort innflutningurinn fellur undir landbrh. Þetta er reyndar verið að athuga. Ég vil segja um þetta allt saman að ég tek í fyrsta lagi undir það sem hv. þm. sagði um þá erfiðleika sem íslenskur iðnaður á í og varnaðarorð hans í því sambandi, að þar má vitanlega ekki fljóta að feigðarósi og sérstaklega í þeirri miklu opnun sem er núna í alheimsviðskiptum þurfum við að gæta okkar þar afar vel og athuga hvers konar varnir við getum reist gegn því að iðnaður, hvort sem hann er skipaiðnaður eða húsgagnaiðnaður eða fataiðnaður eða ullariðnaður eða smjörlíkisgerð, verði lögð í rúst. Ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að við verðum að skoða það vandlega yfir línuna, og ég held að á undanförnum allmörgum árum höfum við ekki gert það nægilega vel þó að þessir erfiðleikar séu að koma meira í sviðsljósið nú, svo að um leið og menn ákveða að leyfa t.d. frjálsan innflutning á smjörlíki verða menn að gera sér grein fyrir því að okkar tiltölulega litlu smjörlíkisgerðir keppa eflaust illa við margfalt stærri
erlendar og leggjast þá niður. Ég hef heyrt suma menn sem töluvert eru ráðandi segja, farið hefur fé betra, um ýmsan iðnað. Ég er því ekki sammála. Ég held að allur íslenskur iðnaður sé þarfur og við eigum að fara varlega í það að taka ákvarðanir sem augljóslega leggja hann í rúst. Allar þjóðir sem núna eru t.d. að ræða um nánari tengsl við Evrópubandalagið gera þetta leynt og ljóst nema kannski við Íslendingar.
    Í sambandi við kartöfluinnflutninginn gildir svipað að verulegu leyti því að þar er um fjölmenna stétt manna að ræða sem á þessu lifir. Þarna vaknar

náttúrlega spurningin hver framtíðarsýn okkar er fyrir íslenskt þjóðfélag. Ég hef einmitt skilið hv. þm. svo að hann vilji líta þar miklu lengra en skammtímasjónarmið gera og ég held að menn verði að gera það á mjög breiðum grundvelli og taka til allra þessara hluta og það kunni að verða svo að þá verðum við að þola, um einhvern tíma, kannski ætíð, að greiða eitthvert gjald fyrir það að vera með sjálfstæðan iðnað og sjálfstæða framleiðslu á ýmsum sviðum.
    Ég gæti rætt um þetta að sjálfsögðu mikið lengur en ég vona að ég hafi svarað þessum helstu spurningum sem komu fram, kannski nokkuð almennum orðum. Ríkisstjórnin er með þessa hluti alla í athugun, m.a. í sambandi við virðisaukaskattinn sem á að taka upp um áramótin. Það hafa verið fundir og eru að hefjast mjög miklir fundir um framkvæmd á virðisaukaskattinum og þar eru tvö þrep í virðisaukaskatti mjög til umræðu.
    Hv. þm. vildi fá að vita mínar tillögur í því sambandi. Ég tel ekki eðlilegt að ég sé að koma með tillögur hér í því áður en þessi vinna er unnin. Hins vegar hef ég hvað eftir annað tjáð mig fylgjandi því að það verði a.m.k. vandlega athugað að setja upp tvö þrep og þá hærra þrep fyrir annan varning og þar með mætt a.m.k. hluta af tekjutapi ríkissjóðs.