Söluskattur
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd hér að lokum. Ég vil þrátt fyrir allt fyrir mína hönd og 1. flm. þessa frv., hv. 5. þm. Reykv., þakka fyrir þessar umræður og góð og greið svör frá hæstv. forsrh. Mig langar bara til að benda hæstv. forsrh. á eitt atriði sem mér finnst hann einhvern veginn ekki hafa alveg náð að fá á hreint í þessari umræðu. Það er að það var byggt inn í fjárlögin ákveðið svigrúm til launahækkana. Síðan hefur þetta svigrúm verið nýtt í samningum við opinbera starfsmenn svo að sjálfsögðu einhver viðbót þar sem samningar við opinbera starfsmenn hafa farið eilítið fram úr þeim viðmiðunartölum sem voru byggðar inn í fjárlögin. Þess vegna sagði ég: Var ekki nær að nota þetta svigrúm allt saman þegar tækifæri var til þess að ná þeirri kjarasátt sem ég var að lýsa með því að fara út í lækkanir á beinum og óbeinum sköttum í staðinn? Það er nú ljóst að nú verða svipaðar launahækkanir bæði hjá launþegum á hinum almenna vinnumarkaði og opinberum starfsmönnum. Ég á ekki von á því að Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna muni sætta sig við minni launahækkanir en BSRB-menn hafa fengið, svo mikið er víst, þannig að þegar upp er staðið að lokum fæ ég ekki betur séð en að það verði samið um verulegar launahækkanir yfir alla línuna og við stefnum hér út í eina holskefluna enn og verðbólgubál.