Framhaldsskólar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég er sömu skoðunar og þegar ég ritaði þetta bréf að svona samanburður sé mjög eðlilegur og æskilegur. Eins og tekið er fram í þessu bréfi er m.a. talað um að taka tillit til aðstæðna. Ég viðurkenni að svona samanburður er afar erfiður því að aðstæður eru svo breytilegar, atvinnuöryggi og fjölmargt fleira sem spilar þarna inn. En eftir því sem ég best veit var þessi skýrsla unnin og ég veit ekki betur en hún sé til meðferðar í þeirri umræðu sem núna fer fram. Ég hef ekki komið að þessu máli síðan og get ekki sagt nánar um það hvernig það horfir nú, en ég hef þó grun um að það sé mat manna á ýmsum atriðum sem þarf að bera saman sem sé eitthvað misjafnt og við því var náttúrlega að búast.