Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Það er enginn vafi á að það er tímabært að setja ný lög um leigubifreiðar. Sjálfsagt verður um þetta mál eins og mörg önnur ágreiningur um viss atriði.
    Hv. þm. Geir H. Haarde gerði að umtalsefni 5. gr. Þetta getur verið álitamál. En hvernig hefur þetta verið? Sá sem hér stendur var fyrir 27--28 árum formaður eins slíks félags. Þá voru það reglur í félaginu að það urðu allir að vera í félaginu sem höfðu atvinnuleyfi. Þó ég þekki það ekki nógu vel, er búinn að gleyma hvernig það er í Frama, hygg ég að það sama hafi gilt. Það er líka athyglisvert og það þyrfti þá að vera gagnkvæmt að þeir sem eru launþegar t.d. í Frama hafa ekki full félagsréttindi. Þeir eru aukafélagar. Þeir hafa að vísu málfrelsi og tillögurétt, en þeir eru aukafélagar. Þeir hafa engin réttindi, ekki lífeyrisréttindi nema borga sjáfir og engin réttindi. Ástæðan fyrir því að menn fara út í þetta er fyrst og fremst að með því að vera launþegi nokkur ár hefur það verið svo að þeir hafa setið fyrir atvinnuleyfum. Það er ekki góður kostur að vera á bíl sem annar á, en það eru þessi réttindi sem menn sækjast eftir. Því miður get ég ekki lesið annað út úr þessu frv. en að þessi réttindi séu líka af þeim tekin. Við það vil ég staldra.
    Ég sé ekki betur en það hafi verið, þó það komi ekki fram í greinargerð, einhverjir skrifstofumenn og kannski einhverjir úr forustuliði félaganna sem hafi samið þetta frv. og ég vil ekki trúa því að óreyndu að hæstv. samgrh. hafi sett sig nógu vel inn í öll þau atriði sem eru í frv.
    Það er athyglisvert að hópur af þessum launþegum átti fund með fulltrúa úr samgrn. í október sl. Það var Ragnhildur Hjaltadóttir, hin ágætasta kona, en hún hefur sýnilega ekki verið með höndina á frv. þegar það var samið því að eftir því sem mér er gefið upp af launþegum bifreiðastjóranna var þeim heitið því að það yrði ekki felldur út réttur þeirra til að tilnefna mann í þessa umsjónarnefnd eða réttur þeirra ef þeir væru búnir að vera launþegar um tíma. Ég harma þessi mistök. Að vísu hef ég ekki rætt við Ragnhildi um þetta, en þetta er í þeim skjölum sem mér hafa borist í hendur.
    Ég held líka að þessir réttindalausu menn, sem þeir eru, verði að hafa talsmann einmitt í þessari nefnd og þeir verði að hafa möguleika á því að fylgjast með hvernig unnið er. Ég mælist með fullri vinsemd til að ráðherrar beiti sér til að breyta þessu aftur í fimm manna nefnd. Mér þykir eðlilegt að þeir bætist við frá borginni og frá launþegahópnum. Þeir eru líka um 150 af 600. Þeir eru *y1/4*y af starfandi bifreiðastjórum í þessari grein. Þeir haldi áfram og séu ekki sviptir möguleikanum eða réttinum, vil ég segja, til að fá atvinnuleyfi ef þeir hafa verið launþegar um einhvern tiltekinn árafjölda eða þá þeir sem hafa lengstan starfstíma. Ég held að sé óhjákvæmilegt að breyta þessu tvennu.
    Ég staldra líka við í 8. gr. að hafa fullnægjandi heilbrigðisvottorð. Mér finnst að það þurfi að

skilgreina betur. Þeir sem eru með skerta starfsorku en eru þó taldir fullkomlega hæfir til að gegna slíku starfi ættu að fá það metið. Hins vegar getur ástand þeirra heilsufarslega verið þannig að það sé ekki forsvaranlegt að láta þá aka leigubíl. En mér finnst vandi að skilgreina þetta atriði.
    Ég fer ofan í þetta vegna þess að ég hef dálitla reynslu í þessum málum. Ég starfaði við þetta sjálfur og hef verið, eins og ég sagði, formaður nokkuð stórs félags í nokkur ár. Ef það yrði breyting á þessum atriðum væri vel og ef það felst í 5. gr. að launþegahópur leigubílstjóra ætti þá, ef ég skil þetta rétt, að fá full réttindi í þessum félögum. En það er bara ekki nóg að setja það í lög. Ég hygg að það sé erfitt að eiga við að slíkum lögum yrði framfylgt eins og harkan er í þessu. Þess vegna þarf að gæta hluts þessara manna.
    Ég mun ekki setja fótinn fyrir þetta mál. Ég vona að það sé hægt að taka tillit, og verði gert af ráðherra fyrst og fremst og þá samgöngunefndunum, til þessara manna og skilgreina það atriði sem ég minntist á í sambandi við heilbrigðisvottorðin.