Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um fyrirliggjandi frv. um leigubifreiðar. Ég skil mjög vel að frv. sé lagt fram um þetta mál, enda hygg ég og veit að hæstv. samgrh. er mér sammála og sjálfsagt allir fyrrv. samgönguráðherrar um að það er sjálfsagt með óþægilegustu málum að úthluta leyfum til leigubifreiðastjóra þar sem úti hefur verið haldið takmörkunum þannig að aðeins fáir komast að, en margir vilja komast í þetta starf.
    Ég hef stundum velt fyrir mér hvort hugsanlegt væri að breyta algerlega um kerfi og hef þá í huga sendibílastöðvarnar þar sem allt annað kerfi gildir og opinberir aðilar þurfa ekki að koma að þessu máli með sama hætti heldur eru stöðvarnar myndaðar með samstarfi eigenda sendibíla sem síðan takmarka fjöldann sjálfar og virðist það hafa gefist allsæmilega að því er ég best veit. Mér er hins vegar ljóst að það kerfi sem sniðið er fyrir leigubílaaksturinn er mjög gamalt og hefur unnið sér sess og þess vegna er nauðsynlegt að taka á þessu máli.
    Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. 17. þm. Reykv., að við löggjafarstarfið verður hv. Alþingi að gæta sín á því að brjóta ekki mannréttindaákvæði. Við getum ekki látið okkur í léttu rúmi liggja félagafrelsi og rétt manna til að vera í eða vera ekki í félögum. Þetta er auðvitað grundvallaratriði sem getur dregið dilk á eftir sér ef ekki er vel til vandað í upphafi. Það hefur verið rætt um það við mig af ýmsum aðilum sem láta sig þetta mál skipta að ekki hefur verið haft samband við alla hagsmunaaðila í öllum skilningi við gerð frv. Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram hjá þeim sem kalla sig launþega í þessari stétt, að ekki virðist hafa verið haft samband við þá nema að mjög takmörkuðu leyti og þeir halda því fram að brotið hafi verið á þeim samkvæmt samtölum við fulltrúa samgrn.
    Ég vil jafnframt benda á að hv. alþm. hafa fengið bréf sem er dags. 10. apríl og undirritað af Sigurði Sigurðarsyni fyrir hönd Sendibíla hf. Þar koma fram sjónarmið þeirra sem staðið hafa að því fyrirtæki og starfa í sínu eigin félagi. Tek ég undir þau sjónarmið sem koma fram frá hv. 17. þm. Reykv. varðandi það mál. Mér finnst þess vegna, virðulegi forseti, nauðsynlegt að beina þeim tilmælum til hv. nefndar að tekið sé sérstaklega á þessum málum og kallaðir til nefndarinnar fulltrúar þessara hópa sem hafa skrifað hv. alþm. bréf og tek undir það sem aðrir hafa sagt um það efni, ekki síst síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Norðurl. e. Hér inni eru a.m.k. tveir fulltrúar úr hv. samgn., þeir hv. þm. Ingi Björn Albertsson og hv. þm. Guðni Ágústsson, og ég veit að þeir hafa hlustað á umræður og geta komið þessu til skila.
    Það kom dálítið á óvart að hlusta á ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hv. 6. þm. Norðurl. e. er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Hann er sá maður sem gerði hæstv. forsrh. kleift að mynda núv. ríkisstjórn með minnstum mögulega meiri hluta á Alþingi. Fyrr í vetur hafa farið fram umræður um stöðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar gagnvart þessari

ríkisstjórn og komið fram ... (Gripið fram í.) Það er á dagskrá að ræða hér um leigubifreiðar og ég er ekki að ræða um hv. síðasta ræðumann þó hann hafi einhvern tíma verið leigubílstjóri, það er öllum kunnugt, heldur vegna stöðu hans gagnvart ríkisstjórninni vegna ummæla sem hann viðhafði í sinni ræðu áðan. Það sem mér kom á óvart var að hv. þm. ekki einungis gaf það í skyn heldur bókstaflega sagði það í sinni ræðu að hann hefði ekki séð þetta frv. áður en það var lagt fram. Hann sagðist ekkert hafa vitað um ef ég skil hann rétt ... ( SV: Nei. Þú skilur allt vitlaust.) Jæja, en hann kom fram með athugasemdir við frv. og sagði að hann hefði ekki haft hugmynd um að viss atriði væru í frv. Þetta gefur mér tilefni til þess við þessa umræðu, og lái mér hver sem vill, að spyrjast fyrir um það hvort enn standi sá samningur við hv. þm. Stefán Valgeirsson og milli hans og hæstv. ríkisstjórnar að hv. þm. sjái stjfrv. áður en þau eru lögð fram eða hvort það sé eins og manni sýnist af þeim umræðum sem hér hafa farið fram að hv. þm. styðji ríkisstjórnina nánast nákvæmlega sama hvað að honum sé rétt. Maður hefur það á tilfinningunni eftir að hafa hlustað á hv. þm. að ekkert sé við hann rætt um stjórnarfrumvörp. Þess vegna langar mig, og það þarf ekki að taka langan tíma og alls ekki að tefja umræðuna hér, að spyrja hv. þm. að því hvort hann hafi samþykkt efnisatriði þeirra stjórnarfrumvarpa sem lögð hafa verið fram í tonnatali eða a.m.k. í stórum bunkum á síðustu dögum.
    Auðvitað, virðulegur forseti, er þetta ekki beinlínis á dagskrá. En það hlýtur að vera á dagskrá hv. Alþingis á hverjum einasta degi í hverju einasta máli hvort hæstv. ríkisstjórn hefur tilskilinn meiri hluta á þingi. Hv. þm. hefur sagt það fyrr á þessu þingi í haust að hann áskilji sér rétt til að skoða og samþykkja stjórnarfrumvörp áður en þau eru lögð fram. Ég vil fá það staðfest, það þarf ekki langa ræðu um það, hvort sú regla sé enn í gildi því að ræða hv. síðasta ræðumanns gaf vissulega til kynna að svo væri ekki þar sem hann gerði athugasemd við stjórnarfrv. og sagði að það hefði ekki verið haft samband við sig um tiltekið efnisatriði frv. Þannig skildi ég hann þegar hann sagði að Ragnhildur Hjaltadóttir hefði ekki sagt sér frá því að frv. hefði breyst í meðförum þannig að nú væru aðeins samkvæmt frv. þrír í nefndinni í
stað fimm eins og ráðgert hefði verið.
    Á þessu vildi ég af þessu tilefni fá skýringar því að það hefur þýðingu að vita á hverjum tíma hver staða hæstv. ríkisstjórnar er, ekki síst með tilliti til stuðnings hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sem er lífankeri þessarar ríkisstjórnar á meðan aðrir hv. þm. úr öðrum flokkum en svokölluðum stjórnarflokkum hafa ekki með afgerandi hætti lýst yfir stuðningi við núv. ríkisstjórn.