Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna þessu frv. Það er lengi búin að vera þörf á því að þessi mál séu tekin föstum tökum. Eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. sem hefur langa reynslu í þessum málum á leigubílaakstur sér mjög langa forsögu og þróun allt frá því að fyrstu bílarnir komu rétt eftir aldamótin og upp í það að hér mynduðust bílastöðvar. Við eigum glæstar sögur af huguðum brautryðjendum sem ég veit t.d. að hv. 17. þm. Reykv. þekkir mjög vel til.
    En það sem ég vildi strax af eigin reynslu og sérstaklega kannski á síðari árum benda hæstv. samgrh. á er að hér er um mjög vandasama lagasmíð að ræða og nauðsynlegt að líta til margra átta eins og hefur komið áður fram hjá hv. alþm. Það hafa komið upp viðkvæm erfið mál sem reynt hefur verið að leysa með reglugerðum og breytingum á reglugerðum sem hafa þá oft ekki náð yfir nema lítinn hluta af málinu.
    Ég vil nota tækifærið og taka mjög sterklega undir það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði í sambandi við skyldu til að vera í stéttarfélagi. Að sjálfsögðu ber að huga að hvers eðlis hvert félag er. En við verðum að athuga að kjarni leigubílaakstursins í dag er að þetta eru atvinnurekendur, þetta eru menn sem eiga sín eigin atvinnutæki, og hins vegar eru það launþegar sem oft stíga sín fyrstu spor á framtíðarbraut leigubílstjórans sem launþegar hjá öðrum.
    Hér fyrr árum var talsvert um það, kannski fyrir 30--40 árum, að menn héldu sig við það að vera launþegar alla ævi í þessu starfi og m.a. mótaðist á tímabili mikil þörf á sterku stéttarfélagi, en þá grundvallarreglu --- og hv. þm. vísaði til mannréttindasamþykktar Sameinuðu þjóðanna --- um að þvinga menn til að vera í félögum tel ég varhugaverða. Mín skoðun er sú að félögin eigi að vera fyrir einstaklingana en ekki öfugt.
    Það er annað hér sem víkur að því sem ég sagði áðan og mér finnst svolítið viðkvæmt vegna fyrri þróunar og kannski núverandi stöðu. Í 7. gr. stendur í 2. mgr.: ,,Grundvöllur atvinnuleyfanna er að sérhver leyfishafi eigi fólksbifreið og hafi það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur.`` Þetta er ekki í samræmi við stöðuna núna í þjóðfélaginu vegna þess að ýmsir hafa farið inn á þá braut, til þess að geta haft öruggari og betri tæki undir höndum, að kaupa sér bíla af vanefnum eða eignast bíla á kaupleigusamningum. Væntanlega kemur að því að þessar kaupleigur hérna fari að mannast upp í að hætta okurstarfsemi og taka upp siði annarra þjóða þar sem vextir í slíku fyrirbrigði eru yfirleitt lægri en á lánum. En það hefur verið öfugt hérna. Ég mundi eindregið mæla með að þetta yrði ekki sett sem skilyrði. Það er einmitt vegna launþega sem eru búnir að afla sér réttinda og eru að byrja. Þá geta þeir haft tækifæri til að leigja sér bíl á sérstökum samningum án þess að eiga hann formlega og þar með haft undir höndum bæði öruggara og betra tæki.
    Bæði hv. 5. þm. Suðurl. og 6. þm. Norðurl. e. hafa bent á skilyrðið um fullnægjandi heilbrigðisvottorð í

8. gr. Ég hef skilið það þannig að á undanförnum árum hafi úthlutunarnefnd unnið þannig að bifreiðastjórar með skerta starfskrafta en fullnægjandi að öllu leyti sem bílstjórar hafi að öðru jöfnu gengið fyrir eftir þessu kerfi. Ég tel að það beri að hafa í huga að menn með þannig skert starfsskilyrði geta verið fyrsta flokks bílstjórar á allan hátt en geta kannski ekki unnið algenga vinnu.
    Síðan kemur 9. gr. Þar er enn þá eitt viðkvæmt mál. Það er að atvinnuleyfi fellur úr gildi við 70 ára aldur leyfishafa. Heimilt er með reglugerð að hækka þetta aldurstakmark í allt að 75 ár. Ég hef tilhneigingu til að vilja hreinlega miða við 75 ár samkvæmt því sem mér er tjáð af bílstjórum, að það sé miklu eðlilegri viðmiðun, miðað við stöðuna og heilsufar almennt í dag. A.m.k. mætti hafa það í huga að þetta sé auðvelt og það þurfi ekki að sækja um hjá einhverjum stóra bróður eða stóra hálfbróður til að fá þennan rétt.
    En síðan kem ég að öðru atriði þessa máls í næstu málsgr. Atvinnuleyfi fellur úr gildi við andlát leyfishafa. Þetta er mjög ranglátt og ég veit mörg dæmi þess sjálfur hvað þetta hefur komið virkilega illa niður á fjölskyldum sem hafa e.t.v. misst möguleikana á að framfleyta sér við þessi hörðu kjör.
    Það er sagt þarna: ,,Þó má dánarbú hans eða eftirlifandi maki nýta leyfið í eitt ár þar á eftir.`` Mig minnir að þetta hafi verið eins og hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði samkvæmt reglugerð alveg fram til 1983, að það hafi verið hægt að framlengja þetta með pappírsvinnu og hlaupum niður í ráðuneyti í eitt ár í senn upp í þrjú ár. En eftir því sem ég best veit var þetta fellt úr gildi 1983 þannig að það var þrengt. En í þessu sambandi vil ég segja það, hæstv. samgrh., að eins og þetta hefur verið á Íslandi fram til þessa hafa leigubílstjórar, til þess að geta haft nægjanlega afkomu til að reka atvinnutæki sitt, endurnýja það og veita sér eðlileg lífskjör, unnið vinnudag sem er kannski ekki 10 tímar, kannski ekki 12 tímar, hann getur verið 16 tímar og jafnvel heilu sólarhringarnir. Menn verða að sæta lagi um helgar og liggja yfir markaðnum. Fjölskyldur, sérstaklega eiginkonur bílstjóra, hafa í mörgum tilfellum helgað sig og aðlagað sig þessari vinnu og alltaf verið tilbúnar með matinn og kaffið allan sólarhringinn þegar verið er að taka næturvaktir. Þess
vegna segi ég: Þetta þarf að skoðast miklu betur. Ég hefði mælt með því að miðað við það velferðarsjónarmið sem nú ríkir og skilning í þjóðfélaginu ættu þær hreinlega að halda þessum réttindum þannig að eftirlifandi hafi möguleika á að gera bílinn út eða fara að aka sjálfur, að sjálfsögðu. Ég held að á ýmsum öðrum stöðum í þjóðfélaginu mundi koma illa út ef ekkjur eða eftirlifandi maki misstu öll réttindi við andlát maka. Ég held að hugarfarið í þjóðfélaginu sé þannig að fólk vill heldur stuðla að því að þjóðfélagið hjálpi til að komast yfir svona áföll í lífinu.
    Ef ég tek nú þetta saman get ég fallist á að maður sem er orðinn 75 ára ætti að eiga þess kost að gera

út bifreið sína eða þá að leggja inn leyfi sitt. Lífeyrisréttindi margra þeirra sem eru á þessum aldri núna eru ansi léleg og þeir standa illa að vígi til að bjarga sér eftir 70 eða 75 ára aldur ef þeir missa atvinnutækið. Við andlát leyfishafa tel ég að makinn ætti að eiga valkost. Ef um dánarbú væri að ræða og það er enginn eftirlifandi maki finnst mér eðlilegt að þetta falli niður en þegar það er spurning um eftirlifandi maka finnst mér að það ætti að vera opið eins lengi og makinn óskar sér að nýta leyfið.
    Síðan er það annað atriði í þessu sem mér hefur verið bent á. Þegar þannig stendur á að annaðhvort fyrir aldurs sakir eða við dauða maka þurfi að selja bifreiðina ásamt tilheyrandi tækjabúnaði væri athugandi hvort það ætti ekki eitthvað að greiða fyrir því þannig að þeir sem bíða eftir úthlutun hefðu vissar skyldur að kaupa útgerðina af þeim sem eru að missa af þessu.
    Að öðru leyti langar mig til í góðu að benda hæstv. 1. þm. Reykv. á að einhvers staðar stendur að ,,hógværir munu landið erfa``.