Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að taka undir með þeim sem hér hafa talað. Ég skil það eiginlega ekki hvers vegna fulltrúi launþega er settur út úr þessari nefnd og ég hvet hæstv. samgrh. mjög mikið til að svipta þá ekki þessum réttindum. Þeir eru aukafélagar í bifreiðastjórafélaginu Frama og eiga þar nánast engan rétt nema hafa málfrelsi á fundum og hafa leyfi til fundasetu. Ég get ómögulega fundið neina ástæðu fyrir því að það sé nauðsynlegt að þeir fari þar út og ég mæli mjög eindregið með að þetta atriði sé endurskoðað.
    Hv. 17. þm. Reykv. og reyndar líka 1. þm. Reykv. voru með vangaveltur um skylduaðild að stéttarfélögum sem ég hugsa kannski að hafi vaknað upp við þetta orð, aukafélagar. Ég er á annarri skoðun en þeir með skylduaðild. Ég held að hún sé óhjákvæmileg. Ég held að hún sé nauðsynleg til að tryggja rétt launþegans. Ég held að annars gæti farið svo að hann nyti alls ekki þeirra réttinda sem þó eru tryggð í kjarasamningum. Kjarasamningar eru annað og meira en samningar um tímakaup. Það er samið um alls konar réttindi verkafólks. Ég óttast að ef þetta væri afnumið væri illa komið hans réttindum á margan hátt.
    En hitt er annað að það væri kannski full ástæða til að athuga einmitt mannréttindi svokallaðra aukafélaga hvar sem þeir eru. Mér finnst þau oft vera af skornum skammti. Fólk borgar til síns launþegafélags, hvaða félag sem þar er í raun og veru, án þess að hljóta nokkur réttindi út á það. Ég held að það vær mikið meiri ástæða til að athuga að allir sem ættu aðild að launþegafélögum nytu líka fullra réttinda.
    Ég held að ég sé ekkert að eyða lengri tíma í þetta, en ég hefði gaman af að setjast einhvern tíma niður með hv. 17. þm. Reykv. og við ræddum svolítið betur okkar sjónarmið í þessu því það er ábyggilegt að það er þarft mál að skoða þetta betur, bæði þá agnúa sem því fylgja og þá kosti einnig.
    En ég er alveg hiklaust á þeirri skoðun að það þurfi að vera skylduaðild að stéttarfélagi fyrir þá sem eru á vinnumarkaði og sú skylduaðild þurfi að vera launþeganna vegna fyrst og fremst.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta lengra.