Leigubifreiðar
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tek undir það með hv. 16. þm. Reykv. að það kann að vera óeðlilegt að skylda leigubílstjóra til að eiga tækin sem þeir aka á í orðsins fyllstu merkingu. Umráðaréttur væri kannski það sem þyrfti að vera þannig að menn gætu keypt ökutækin eins og hann benti á með kaupleigu. Ég tek undir að það þyrfti að skoða.
    Varðandi félagsaðildina komum við að þessu gamla vandamáli sem sífellt er til umræðu um skylduaðild, en jafnframt um réttarstöðu þeirra sem vinna hjá leigubílstjórunum. Það er nefnilega þannig að Frami er verkalýðsfélag, launþegafélag í þeirri merkingu sem við leggjum oft í það orð. Það sama gildir um vörubílstjórana. (Gripið fram í.) Er það rétt að það gildi ekki um Frama? Er Frami ekki í ASÍ? Þá rangminnir mig, en þar sem ég hélt að svo væri hefði sú staða komið upp að menn yrðu launþegar hjá launþegum og það er kannski stóra vandamálið í þessu að ef leigubílstjórar eru í launþegafélagi er sérkennileg staða komin upp ef menn geta síðan orðið launþegar hjá þessum launþegum. Slík réttarstaða yrði nokkuð flókin. En hér upplýsist með frammíkalli og ég vona að það sé rétt að Frami sé ekki launþegafélag í þeim skilningi, en ég stóð í þeirri meiningu að svo væri. Ég bið hæstv. ráðherra um að staðfesta það því það er hann sem kallar fram í og segir að svo sé ekki.
    Að allra síðustu finnst mér ástæða til að taka undir að málið fái afgreiðslu á þessu þingi, en það verður að gæta þess að afgreiðslan sé þannig að öll sjónarmið komist að því að yfir því hefur verið kvartað af hálfu þeirra sem skrifað hafa alþingismönnum bréf og ég tel að hv. samgn. geti auðveldlega kallað til sín þá menn sem hafa verið tilnefndir í þessum umræðum.
    Hv. 16. þm. Reykv. sagði að hógværir mundu landið erfa. Ég vil taka undir með honum og öðrum þeim sem hafa látið sér slík orð um munn fara, en benda jafnframt á að það er óþarfi að sýna þá hógværð að kalla hv. 1. þm. Reykv. hæstv. 1. þm. Reykv. meðan ég leyfi mér að kalla hv. 16. þm. Reykv. einungis hv. 16. þm. Reykv. En ég þakka samt það að hann skuli veita mér þá sérstöku virðingu umfram alla aðra óbreytta þingmenn að vera kallaður hæstvirtur.