Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Herra forseti. Ég vildi aðeins koma að örfáum athugasemdum í sambandi við frv. til l. um vörsluskyldu búfjár á Reykjanesskaga. Sennilega er hér um að ræða einstakt frv. og þess vegna ástæða til að gæta mjög að. Mér er hins vegar fullkomlega ljóst að sú er þróunin í þeim málum sem hér er um fjallað, þ.e. búfjárhaldi á þessu svæði, að það hefur farið mjög minnkandi og eins og fram kom í ræðu hæstv. landbrh. heyrir það til undantekninga að fjölskyldur hafi lífsviðurværi af sauðfjárbúskap á þessu svæði. Engu að síður er það samt sem áður og þess vegna verður að mínum dómi að gæta mjög vel að.
    Hjá hæstv. landbrh. kom fram hvaðan athugasemdir hafi borist í sambandi við þessi mál, það er frá Grindavíkurbæ, Vatnsleysustrandarhreppi og Hafnarfjarðarbæ, svo og frá samtökum sveitarfélaga. Hinu er heldur ekki að leyna að önnur sveitarfélög í næsta nágrenni, að vísu ekki í suður heldur í norður, hafa sínar efasemdir í þessum málum og hafa látið það frá sér fara að næst yrði sett á eitthvað slíkt í sambandi við vörsluskyldu búfjár, ekki á Reykjanesskaga heldur í sveitarfélögunum norðan Reykjavíkur, þ.e. Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjós og kannski svo áfram.
    Ég vildi að þessi athugasemd mín kæmi hér fram. Á meðan þetta mál er til umfjöllunar í þeirri nefnd sem það fer til, sem er landbn. þessarar hv. deildar, teldi ég æskilegt að kannað yrði hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi á milli landbrn. og þeirra sveitarfélaga sem hér um ræðir og það yrði ólögbundið samkomulag sem gert yrði.
    Ég vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri og svo þeirri athugasemd minni að reynt yrði að kanna til hlítar hvort ekki væri hægt að ná frjálsu samkomulagi á milli þessara sveitarfélaga því hér er verið að setja lög sem aðeins eiga að gilda um vissa þjóðfélagsþegna en ekki aðra.