Vörsluskylda búfjár á Reykjanesskaga
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil við þessa umræðu gera ýmsar athugasemdir við það lagafrv. sem hér er lagt fram. Ég varð dálítið undrandi á ræðu ráðherrans, hvers vegna hann ber slíkt frv. fram, þar sem hann margítrekaði í annarri hverri setningu að samkomulag mundi blasa við við bændur á þessu svæði um að sauðfé og búfé öllu yrði beitt í sérstök hólf.
    En nokkur orð vildi ég segja um frv. og athugasemdir við það. Að vísu kann svo að vera að einhverjir segi sem svo: Hvað varðar þingmann Sunnlendinga um málefni í Gullbringusýslu, enda tekur hv. þm. Kristín Halldórsdóttir undir það. En þannig verða málin ekki sett upp. Hingað erum við kosin til að vinna að lagagerð og vaka yfir velferð fólksins hvar sem það býr í landinu, tryggja að á sem flestum sviðum búi ein þjóð í þessu landi, tryggja að ýmis gömul boðorð lagagerðar séu í heiðri höfð.
    Einn vitrasti þingskörungur Íslendinga til forna sagði það mikilvægt að hafa ein lög og einn sið í landinu og að ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og slíta í sundur friðinn, sagði hann. Annar sagði: Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Trúlega átti Njáll ekki við það að við skyldum setja lög um alla skapaða hluti heldur hitt að lögin væru skýr, almenn og næðu jafnt yfir alla en ekki ólög um einstaka hópa eða menn. Því tel ég að Alþingi Íslendinga verði jafnan að gæta þess að ganga ekki of langt í lagagerð.
    Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Með þessu frv. er farið út á nýjar brautir, hæstv. ráðherra, sem gætu reynst Alþingi hættulegar og gefa upp boltann með nýjum og harkalegum hætti að mínu viti. Í stað þess að með lögum séu skapaðir farvegir sem gilda jafnt um allt og alla er farið út á þá viðsjárverðu braut að setja sérstök lög um einstaka hópa og fólk á einstökum landsvæðum.
    Ég er ekki andstæðingur þess að Alþingi setji í lög heimildir sem hægt er að nota af einhverjum sérstökum ástæðum sem upp kunna að koma. Slík heimildarákvæði eru reyndar allvíða í lögum og fullkomlega eðlileg. Þá geta sveitarstjórnir gripið til þeirra eða einstakar stofnanir. Allir þekkja verksvið Hafrannsóknastofnunar. Sú stofnun grípur oft til lokunar hólfa til að friða smáfisk. Þetta er gert tímabundið og samkvæmt heimild í lögum.
    Samkvæmt búfjárræktarlögum er sveitarstjórnum heimilt að takmarka lausagöngu búfjár og það sem kannski er athyglisverðast á þessu löggjafarþingi hér er það að á sama tíma og hæstv. ráðherra flytur hér stjfrv. um sérstök lög á eigendur búfjár í Gullbringusýslu er hér í þinginu annað frv. um breytingar á búfjárræktarlögum þar sem lagt er til að gefa sveitarstjórnum víðtæka heimild til að skylda eigendur búfjár til að hafa búfé, þar með talið sauðfé, í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Þessi heimild á að ná til alls lögsagnarumdæmisins eða afmarkaðra hluta þess. Hér liggur því fyrir lagafrv. þar sem þeim í Gullbringusýslu væri gefin heimild til að beita slíkum lögum.

    Er þetta frv. um sérstök lög fyrir Gullbringusýslu flutt vegna þess að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn vantreysta sérstaklega sveitarstjórnum á þessu svæði? Eða hefur borist bænaskrá til hæstv. ráðherra um að knýja fram slíka lagasetningu? Hann flutti hér að vísu bænaskrá frá látnum valdhöfum því ég veit ekki betur en að sýslunefndir hafi þegar verið afhausaðar af hálfu Alþingis og séu ekki lengur til sem slíkar. ( Gripið fram í: Mennirnir gætu verið lifandi.) Það kann að vera að þeir séu á lífi og vonandi er svo.
    Er bænaskráin komin frá Landgræðslu ríkisins? Enga trú hef ég á því. Ég þekki störf Landgræðslunnar það vel og veit að þrátt fyrir að hún hafi ýmsar heimildir til að takmarka eða stöðva beit á viðkvæmum svæðum hefur þessi merka stofnun sjaldan þurft að grípa til lagaákvæða til að koma sínum vilja í framkvæmd. Landgræðslan hefur átt gott með að ná samkomulagi við búfjáreigendur. Hitt er svo kannski vandamál Landgræðslunnar, sem og landnýtingarráðunautar Búnaðarfélags Íslands, að þá vantar beitarþolsmat frá landnýtingardeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það sem við ræddum hér í gær, að vísindamenn greinir á um rannsóknaraðferðir og hagnýtt gildi niðurstaðna, um að samræma þau sjónarmið á milli stofnana sem heyra undir hæstv. ráðherra, er mikilvægt. Ræða mín í gær snerist um það efni. Þá reis hér einmitt upp hv. 3. þm. Norðurl. e. og taldi mig með þeirri gagnrýni vera að ráðast á Rannsóknastofnun landbúnaðarins með ómaklegum hætti en ég var að minna á vaxandi ágreining á milli landnýtingardeildar RALA annars vegar og Búnaðarfélags Íslands og Landgræðslunnar hins vegar. Um aðrar deildir RALA fjallaði ég ekki og tel mig hafa rætt hvarvetna á málefnalegum grundvelli og fremur verið að reyna að fá þessar þrjár stofnanir sem þessi mál varða til að samræma málflutning sinn og vildi að ráðherrann setti niður þær deilur sem nú eru uppi og gerði kröfur um að hér verði þegar til beitarþolsmat af öllum afréttum landsins, byggt á traustum vísindalegum grundvelli. Ég fann það auðvitað í máli ráðherrans í gær að hann skildi það að ágreiningurinn er óheppilegur, að það var líka einstakt miðað við alla umræðu að það skuli aðeins vera til ítala um beit á sauðfé af fimm afréttum á Íslandi. Ég tel þess vegna mikilvægt að Búnaðarfélag Íslands og Landgræðslan fái í hendur hagnýtar
tölur og fagleg rök um beitarþol frá annars hinni ágætu stofnun sem RALA er.
    Þessar skoðanir hafa ekki orðið til í mínum kolli. Ég hef fengið í hendur og las hér úr ályktun búnaðarþings í gær þar sem það í rauninni sendi bænaskrá til ráðherrans sem ég vænti nú þrátt fyrir daufleg svör í gær að hann muni svara þegar fram í sækir.
    Það er nú svo, svo að ég snúi mér aftur að hafinu, að Hafrannsóknastofnun kemur með tölur byggðar á vísindalegum grundvelli um hversu mörg tonn má veiða af fiski og fyrirskipar oft skyndilokanir. Af hverju er til ítala eingöngu af þessum fimm afréttum

sem ég var að minnast á? Bændurnir þurfa á þessum tölum að halda.
    Ég veit ekki hvað ég á að fara langt í þessari umræðu en ég er þeirrar skoðunar og vil ítreka það að ég tel að hér sé farið út í mjög hættulega lagagerð.
    Ég er með hér í höndunum bréf frá Landgræðslunni og bændunum í Gullbringusýslu sem þeir hafa skrifað til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins um að þeir fái í hendur tölur um hversu mörgu sauðfé þeir megi beita. Þeir skrifuðu þetta bréf fyrir fimm árum síðan. Svar hefur ekki borist enn og hafa þó þessir menn farið um svæðið því að mér skildist í umræðunum í gær að þeir hefðu farið til Grænlands til sérstakrar úttektar á jöklunum þar, þannig að mér datt í hug að þeir hefðu alla vega haft tækifæri til að skila bréfinu af sér.
    Ég óttast að hér ætli Alþingi að stíga óheillaskref í lagasetningu. Bænum mun fjölga um að fá sett lög á náungann ef hann fer í taugarnar á einhverjum þröngum hópi. Kannski fer hundurinn Nonni sem er í eigu hæstv. forsrh. í taugarnar á einhverjum íbúum í Garðabæ eða Tanni borgarstjórans í Reykjavík í taugarnar á einhverjum íbúum hér í Reykjavík því að mér skilst að auki að sá hundur sé nokkuð herskár. Koma þá ekki í framhaldi af svona lagasetningu einhverjir hópar sem biðja Alþingi um að setja lög um það að hundahald verði bannað í þessum bæjarfélögum? Er ekki nær að fylgja hinu fyrra frv. sem þú, hæstv. ráðherra, lagðir fram hér miklu fyrr í vetur, að gefa sveitarstjórnunum heimild til þess að grípa til aðgerða um að banna lausagöngu o.s.frv., en að taka einstakt svæði og einn lítinn hóp manna og setja á hann sérstök lög.
    Hér flutti varnarðarorð hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen. Hann sagði í rauninni sannleikann í þessu máli. Hvar verður nú staðar numið? Er þetta ekki fyrsta hólfið sem verða sett á lög? Svo kemur hópurinn og biður um að kjördæmið allt búi við slík lög. Síðan koma hópar áfram og fara í stríð við ýmsa aðila í mínu kjördæmi, að það verði nú sett í lög að menn í Þingvallasveitinni eigi ekki kindur, í Grímsnesinu og Grafningnum, í öllu landnámi Ingólfs o.s.frv. Ég tel að hér séum við að fara inn á mjög hættulega braut og er í rauninni undrandi á því að jafnréttsýnn maður og hæstv. landbrh. hefur nú reynst í mörgum málum skuli vilja knýja slíkt mál hér í gegnum þingið því að hann lagði þetta mál fyrst fram hér á Alþingi í fyrradag. Það stóð til að það kæmi til umræðu í gær. Slíkur er hraðinn, þrátt fyrir samkomulagið sem hann prédikaði að væri að nást við bændurna eða búfjáreigendurna í Gullbringusýslu.
    Ég er þeirrar skoðunar að kærleikurinn og það að leita samkomulags við náunga sinn sé mjög mikilvægt atriði. Hv. Alþingi má ekki vera svo ákaft í lagasetningu að af hljótist deilur og átök. Hafa menn gleymt boðskap prestsins frá því að Alþingi var sett í haust? Eða var hæstv. landbrh. ekki í kirkjunni þegar hann flutti þau mikilvægu varnaðarorð?
    Ég er hræddur um að ef við fetum þessa braut að setja lög á einstaka hópa munum við búa hér við

mikil ólög í þessu landi og lögregluríki áður en varir og það muni rjúfa frið í millum manna. Ég er líka hræddur um það að ef þetta gerist í Gullbringusýslu verði samstarf og samvinna við bændastéttina rofin í þessu mikla hagsmunamáli allra þeirra sem áhuga hafa á gróðurverndarmálum. Það er ekkert mikilvægara nú en að þjóðarsátt í gróðurverndarmálum náist fram. Bændurnir eru í dag líklegir til að verða sterkustu hlekkirnir í þeirri keðju sem þarf að mynda í þessum efnum. Þeir hafa til þess fullan vilja. Þeir hafa víða hafið umfangsmikið sjálfboðastarf í þessum efnum. Þeir hafa af því mikla hagsmuni að uppblástur landsins verði stöðvaður. Og það er kannski þeim mun merkilegra að ráðast nú með miklum hávaða sérstaklega að því atriði að kenna búfé um allan uppblástur. ( Gripið fram í: Hver er að ráðast að því.) Það eru ýmis öfl í þessu samfélagi. Það er ekki hæstv. ráðherra sem það hefur gert. Ef við lítum 4--5 ár aftur í tímann, þá voru hér u.þ.b. 900 þús. vetrarfóðraðar ær á Íslandi. Nú hygg ég að það séu um 500 þús. vetrarfóðraðar ær. Það hefur því orðið mikil fækkun og það sem meira er að í öllum afréttum, ég fullyrði í öllum afréttum, er færra fé en beitarþolstölur hafa verið gefnar upp um, þannig að þarna sýnist mér að við séum á réttri leið og þurfum ekki svo mjög að sakast við búsmalann í þessum efnum, enda er það nú náttúran sem á sjálfsagt stærri þátt, og örugglega, í þeim uppblæstri sem orðið hefur í þessu landi. Ég vil því hvetja þá nefnd sem fær þetta mál í hendur til að minnast þess sem ég hef hér bent á, að annað frv. frá hæstv. ráðherra liggur frammi á
þessu þingi sem fjallar um að gefa sveitarstjórnum heimild. Um það mál hefur búnaðarþing fjallað og mælt með samþykkt þess, þannig að ég geri það nú að tillögu minni að við göngum ekki svo hart fram í lagagerð hér á þessu þingi að það kunni að leiða til þess að við sjáum ekki út úr vandamálum sem kunna að rísa.
    Ég gerði það nú að gamni mínu til þess að sjá hversu mikil ofbeit væri í Gullbringusýslu að ég leit á vigtarseðla bændanna. Það virðast ekki vera vanhöld í blessuðu fénu sem þarna gengur því að ég hygg að sauðfé þarna sé jafnvænt og hjá hinum bestu ræktunarmönnum. Ég gæti trúað því t.d. að það sé vafi hvort sauðfé hv. 2. þm. Norðurl. v. sé vænna því ég held að meðalvigt á þessu svæði sé 17--18 kg sem er geysimikið og segir manni auðvitað þá sögu að nóg er að bíta af góðum grösum í þessum ágætu högum sem enn eru í Gullbringusýslu.
    En ég ítreka mína skoðun, göngum ekki langt í lagagerðinni, ráðumst ekki að litlum hópum, gefum ekki fordæmi sem mun koma í fangið á okkur þegar frá líður.