Grunnskóli
Föstudaginn 14. apríl 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég þakka flm. þessa frv. fyrir það að taka þetta mál hér á dagskrá og sömuleiðis fyrir þær ræður sem hér hafa verið fluttar, bæði af hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur og hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni.
    Staðreyndin er sú að það er komið að þeim tíma í þróun skólamála hér á landi að við verðum mjög alvarlega að velta því fyrir okkur hvort þær áherslur, sem við höfum haft þar, innan hins þrönga ramma viðmiðunarstundaskrárinnar, eru endilega réttar. Við höfum í þeim efnum lagt mikla áherslu á bóklegar greinar og eins og fram kemur af skýrslu sem ég lét dreifa hér í þinginu í gær eða fyrradag hafa greinar eins og verkmenntagreinar, myndmennt, heimilisfræði, verið hornreka af margvíslegum ástæðum. Ein ástæðan er sú að það vantar sérmenntaðan kennara, önnur ástæðan er sú að það vantar aðstöðu, þriðja ástæðan er sú að það vantar pláss í námsskrá. Og þegar pláss vantar í námsskránni hljóta menn að velta því fyrir sér hvort hugsanlegt er að ganga á eitthvað af því sem þar er og flytja þar til áherslur. Ég tel að það komi vel til greina að athuga það. Ég held að þetta rof í okkar menningarlegu þróun, sem hv. síðasti ræðumaður ræddi um, kalli á öðruvísi áherslur en verið hafa.
    Ég held að það sé brýnna núna en það hefur lengi verið áður að skólinn taki við ýmsum þeim þáttum sem áður þótti sjálfgefið að börn hefðu með sér í heimanmund. Þar er ég að tala um verkmennt af ýmsu tagi og heimilisfræði. Ég held að það sé einnig þannig að ef við viljum telja okkur til menningarþjóða, sem við viljum gera, eigum við að gera listnám af margvíslegu tagi að gildum þætti í öllu skólastarfi. Skólinn er til þess að ala upp menningarverur, fólk sem getur notið menningar og skapað menningu síðar á lífsleiðinni.
    Ég held reyndar að ef vel á að vera í þessu efni þurfum við að eignast hér einsetinn skóla. Við þurfum að ná því að lengja skóladaginn, einkum hjá yngstu börnunum, og við þurfum að nota þá lengingu fyrst og fremst til þess að sinna listnámi af margvíslegu tagi, verknámi af ýmsu tagi og heimilisfræði.
    Við höfum látið gera á því úttekt í menntmrn. hvað það kostar að ná einsetnum skóla, lengdum skóladegi og fara með tímann hjá yngstu börnunum upp í 35 tíma á viku. Kostnaðurinn við það á ári er á milli 450 og 500 millj. kr. og til samanburðar má geta þess að kostnaður við grunnskólann í heild er núna 4800 millj. kr. Hér er því auðvitað augljóslega um að ræða verulega aukningu á kostnaði við grunnskólakerfið í landinu og þess vegna höfum við nálgast þetta þannig í greinargerð frá menntmrn., sem verður dreift til þingmanna núna næstu sólarhringa ef það hefur ekki þegar verið gert, að gera ráð fyrir að þetta komi til framkvæmda í áföngum á nokkrum árum. Við höfum þar talað um fjögur ár, fimm ár eða sex ár og aðalatriðið í mínum huga er kannski ekki árin heldur hitt að menn setji sér þetta markmið mjög eindregið. Og um leið og menn setja sér þetta

markmið verður jafnframt að taka ákvörðun um það hvernig tíminn verður notaður í skólanum. Það er ljóst að í yngstu árgöngunum verður ekki um hefðbundna bekkjarkennslu að ræða fyrst og fremst, heldur margvíslega starfsemi sem er blanda af leik og námi.
    Við höfum á undanförnum mánuðum unnið að því sem við köllum stefnumótun í skólamálum, ekki vegna þess að hér hafi ekki verið til stefna í skólamálum, heldur vegna þess að við viljum ná því sem við köllum þjóðarsamstöðu um íslenska skólann og þar leggjum við í raun og veru áherslu á þrjá þætti í vinnubrögðum.
    Í fyrsta lagi höfum við farið yfir allar þær tillögur sem fyrir hafa legið um breytingu á lögum og reglugerðum, m.a. grunnskólalögunum, og raðað þeim saman í frv. til laga um breytingu á grunnskólalögunum sem ég hef látið dreifa til hv. þm. Þetta frv. hróflar ekki við grundvallaranda grunnskólalaganna. Við teljum að grunnskólalögin séu góð. Við erum þarna hins vegar að taka á ýmsum þáttum eins og t.d. lengri skóladegi og námsráðgjöf og sjálfstæði fræðsluumdæmanna svo að eitthvað sé nefnt.
    Annar þátturinn í aðferðum okkar við að nálgast þessa stefnumótun er sá að við höfum sent út fyrirspurnir til 450--500 skóla og foreldrafélaga og kennarasamtaka í landinu þar sem við spyrjum um meginverkefni í skólamálum á næstu 10 árum. Við höfum verið að fá inn svör núna að undanförnu og félagsvísindadeild Háskólans er að vinna úr þeim. Síðan verða þær niðurstöður sendar út aftur og skólamenn og aðrir sem vilja koma nálægt þessari könnun og beðnir hafa verið um það verða beðnir um að raða þeim verkefnum sem oftast eru nefnd í forgangsröð.
    Þriðja meginaðferðin sem við höfum í þessu stefnumótunarstarfi er sú að við höfum haldið fundi með skólafólki og foreldrafélögum allt í kringum landið. Við höfum þegar heimsótt hátt í 100 skóla og menningarstofnanir á þessum sex mánuðum og við höfum þegar haldið 14 sérstaka grunnskólafundi víðs vegar í landinu.
    Þegar þessari yfirferð er lokið, þegar svörin liggja fyrir úr seinni umferð þessarar umræðu, þegar fjallað hefur verið um drögin að grunnskólalögunum víðs vegar í landinu, við munum senda þau til umsagnar víðs vegar um land, þegar allt þetta liggur fyrir teljum við að þegar líður á þetta ár munum við geta
átt góðan efnivið í heildarstefnumótun í skólamálum sem er til þess fallinn að skólinn geti bæði sótt fram og varið sig þegar þannig stendur á. Ég tel að það frv. sem hér liggur fyrir sé mikilvægur þáttur inn í þessa umræðu og ég tel að það skipti miklu máli hvernig það er rökstutt, bæði af hv. þm. Þórhildi Þorleifsdóttur og ekki síður hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni sem er þekktur skólamaður og kann þessi mál afar vel.
    Ég tek sem sagt undir meginefni málsins og legg á það áherslu að því verði haldið til haga í skólamálaumræðu komandi mánaða.