Minning Brynjólfs Bjarnasonar
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Brynjólfur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, andaðist í Hróarskeldu í Danmörku í gærmorgun, 16. apríl, níræður að aldri.
    Brynjólfur Bjarnason var fæddur 27. maí 1898 á Hæli í Gnúpverjahreppi. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni, síðar bóndi á Neistastöðum, Ölvisholti og loks Eyði-Sandvík í Flóa, Stefánsson bónda í Núpstúni í Hrunamannahreppi Þórðarsonar og Guðný Guðnadóttir bónda í Forsæti í Landeyjum Magnússonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1918. Haustið 1918 fór hann til náms í náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla og var þar til 1923, lauk prófi í forspjallsvísindum 1919 og síðar fyrrihlutaprófi í náttúrufræði. Síðan las hann heimspeki við Berlínarháskóla 1923--1924. Hann var stundakennari við Kvennaskólann í Reykjavík 1926--1936 og við Ungmennaskólann í Reykjavík nýstofnaðan, síðan Gagnfræðaskólann í Reykjavík (Ingimarsskólann) 1928--1932. Ritstjóri Verkalýðsblaðsins var hann 1930--1935. Alþingismaður var hann 1937--1956, var þingmaður Reykvíkinga 1942--1946, en fyrr og síðar landskjörinn alþingismaður, sat á 24 þingum alls. Menntamálaráðherra var hann frá 21. október 1944 til 4. febrúar 1947. Hann var skipaður árið 1942 í milliþinganefnd um tryggingamál, kosinn 1943 í milliþinganefnd til að fjalla um launakjör alþingismanna, átti sæti í skilnaðarnefnd 1944. Í tryggingaráði var hann 1944--1946, 1952--1953 og 1956--1963, í stjórn Sjúkrasamlags Reykjavíkur 1950--1978.
    Brynjólfur Bjarnason var erlendis við nám á umbrotatímum að lokinni heimsstyrjöldinni fyrri, tímum umbyltinga í þjóðfélagsmálum og lífsviðhorfum, róttækni í stjórnmálum og efnishyggju. Hann hreifst af kenningum kommúnista og skömmu eftir heimkomuna stofnaði hann með samherjum sínum Jafnaðarmannafélagið Spörtu sem var félag kommúnista innan Alþýðuflokksins. Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður árið 1930 og var Brynjólfur formaður hans frá upphafi til 1938 er Sameiningarflokkur alþýðu --- Sósíalistaflokkurinn var stofnaður. Hann var formaður miðstjórnar þess flokks 1938--1951 og í miðstjórn flokksins og framkvæmdanefnd til 1962, formaður miðstjórnarinnar 1938--1949 og formaður framkvæmdanefndarinnar 1960--1962.
    Störf Brynjólfs Bjarnasonar á Alþingi mótuðust af flokksforustu hans. Hann var einn helsti málsvari hans innan þings og utan, í ræðu og riti. Ræður hans voru hnitmiðaðar og vandaðar bæði að efni og orðfæri og skörulega fluttar. Hann var víðlesinn og fjölfróður, gerhugull og stefnufastur. Hann var ráðherra menntamála í nýsköpunarstjórninni, sem svo var kölluð, og gekkst þá meðal annars fyrir setningu nýrra víðtækra og áhrifaríkra laga um skólakerfi og fræðslumál. Hann var að eðlisfari hæglátur hugsjónamaður, stundaði útivist á öræfaferðum og sat við skriftir, ritaði framan af einkum um stjórnmál, en eftir að hann lét af þingstörfum var heimspeki

aðalfræðasvið hans. Nöfn nokkurra helstu rita hans eru vísbending um viðfangsefni hans. Með storminn í fangið er safn af ritgerðum og ræðum um stjórnmál, en um heimspeki og skyld efni skulu nefnd: Gátan mikla, Vitund og verund, Á mörkum mannlegrar þekkingar, Heimur rúms og tíma. Ævistarf hans einkenndi framan af hörð barátta um þjóðfélagsmál, en síðustu áratugina heimspekileg hugsun um gátur mannlegrar tilveru.
    Ég vil biðja þingheim að minnast Brynjólfs Bjarnasonar með því að rísa úr sætum.