Iðgjöld vegna bifreiðatrygginga
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Frsm. allshn. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir nál. á þskj. 856 um till. til þál. um iðgjöld vegna bifreiðatrygginga, sem allshn. hefur rætt á fundum sínum, en þessi tillaga er enn fremur endurflutt frá síðasta þingi. Þá bárust umsagnir frá eftirtöldum aðilum: Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Neytendasamtökunum og Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Flutningsmenn till. eru Skúli Alexandersson og Margrét Frímannsdóttir.
    Nefndin er sammála um að afgreiða tillöguna með eftirfarandi breytingu:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við bifreiðatryggingar hér á landi, þannig að tryggingaiðgjöld bifreiða verði sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum.``
    Þáltill. var mjög ítarleg og kom inn á marga þætti þeirra háu tryggingariðgjalda sem ríkja í þessu landi. Við teljum eðlilegt að endurskoða þetta í heild sinni og samþykktum þetta því svo breytt.
    Fjarverandi afgreiðslu var Karl Steinar Guðnason, en aðrir nefndarmenn skrifa undir tillöguna svo breytta.