Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti vill upplýsa að gefnu tilefni og mjög svo eðlilegu tilefni að vissulega var það vilji forseta þingsins að umræða um utanríkismál færi fram samkvæmt verksáætlun þingsins, en ekki reyndist unnt að fá skýrslu um utanríkismál fyrr en rétt nýlega og svo nýlega að yfir því var kvartað að hv. þm. gæfist of stuttur tími til að kynna sér efni hennar, auk þess sem hæstv. utanrrh. er ekki viðstaddur í dag sem ekki var vitað fyrir helgi. Því hefur ekki tekist að láta þessa umræðu fara fram og ekki heldur í dag eins og til stóð vegna fjarveru m.a. hæstv. ráðherra. Nú hefur verið boðaður fundur með þingflokksformönnum kl. 4.30 í dag til að ræða þá truflun sem orðið hefur á áætlun þingsins. Eina ráðið sýnist vera að halda þessa umræðu á morgun ef þingflokksformenn geta fallist á það vegna þess að á miðvikudaginn verður hæstv. ráðherra ekki í landinu. Forsetum hefur verið nokkur vandi á höndum að fá þetta til að koma heim og saman og við hörmum það að sjálfsögðu.
    Síðan bættist við að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., óskaði eftir að fá að ræða við hæstv. forsrh. um ræðu sem hann flutti í síðustu viku og ýmislegt fleira. Við því var orðið þannig að sú umræða hefst nú þegar umræðu um þingsköp lýkur.