Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það svigrúm sem hér hefur verið gefið til að ræða utan dagskrár þingfundarins í dag viðhorf í efnahags- og atvinnumálum, ekki síst í ljósi frétta af ræðu hæstv. forsrh. á fundi framsóknarfélaga í Kópavogi sl. fimmtudagskvöld.
    Það er svo að það hefur reynst býsna erfitt að fá fram hér á hinu háa Alþingi skýr svör af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um stefnu hennar í efnahags- og atvinnumálum og fá fram umræður um þær aðgerðir sem ég hygg að flestir séu sammála um að nauðsynlegar séu til að tryggja eðlilegan rekstur útflutnings- og samkeppnisatvinnuvega landsmanna. Ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar hafa mjög svo færst undan því að eiga hér á hinu háa Alþingi umræður um þessi efni og öll stefnumörkun af þeirra hálfu hefur verið býsna óskýr í umræðum hér á Alþingi. Það eru því nokkur tíðindi þegar hæstv. forsrh. heldur ræðu í flokksfélagi sínu og lýsir þar viðhorfum og viðfangsefnum á næstu tveimur mánuðum og svo því sem að hans mati blasir við á haustdögum.
    Morgunblaðið greindi sl. föstudag frá meginefni þessarar ræðu. Í tilvitnunarmerkjum er haft beint eftir hæstv. forsrh., með leyfi forseta, svohljóðandi: ,,Það hvernig tekst að fá fjármagnsmarkaðinn til að hjálpa okkur að ráða fram úr erfiðleikunum mun ráða framtíð þessarar ríkisstjórnar. Ef það mistekst og það verða stórir erfiðleikar í haust held ég að ríkisstjórnin hafi gengið þessa braut til enda. Þá óttast ég að það verði líklega kosningar og að þeim loknum mjög róttækar aðgerðir með mjög mikilli gengisfellingu og lögbindingu fjölmargra þátta í þjóðfélaginu``, er orðrétt haft innan tilvitnunarmerkja eftir hæstv. forsrh.
    Hér er komið beint að ýmsum kjarnaþáttum efnahags- og atvinnumálaumræðunnar upp á síðkastið. Hæstv. forsrh. segir að það muni ráðast á næstu tveimur mánuðum hver verði endalok hæstv. núv. ríkisstjórnar. Hann segir síðan að hann óttist að til kosninga komi í haust ef þessir næstu tveir mánuðir skili ekki þeirri niðurstöðu sem hann væntir. Það er eftirtektarvert að hæstv. forsrh. talar um að hann óttist kosningar fremur en að hann búist við þeim og ég hygg að flestir hv. þm. geri sér grein fyrir því hvers vegna hann notar það orð.
    Þá talar hæstv. forsrh. um stórfellda gengisfellingu sem blasi við í haust og kveður þar við nokkuð annan tón en í yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar og einkanlega kveður þar við nokkuð annan tón en hjá hæstv. fjmrh. sem öðrum fremur virðist hafa mótað efnahags- og atvinnustefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Og í þriðja lagi segir hæstv. forsrh. að þá óttist hann að lögbinda þurfi fjölmarga þætti í þjóðfélaginu án frekari skýringar þar á. En í ljósi allra aðstæðna kemur mönnum ugglaust fyrst í hug að fyrsti þátturinn sem lögbinda eigi í haust ef næstu tveir mánuðir ganga ekki fram svo sem hugur hæstv. forsrh. helst kýs sé að þá þurfi að lögbinda laun. Vafalaust koma þar til fjölmargir aðrir þættir eins og hæstv. forsrh.

gefur til kynna með þessari yfirlýsingu, en það fer ekki milli mála að með þessum yfirlýsingum, sem reyndar hefur verið greint frá í öðrum fjölmiðlum efnislega samhljóða, hafa verið sögð býsna stór orð og um leið viðurkenning á því ástandi sem nú er í efnahags- og atvinnumálum.
    Hæstv. forsrh. segir að glíman við fjármagnskostnaðinn verði prófsteinn á stjórnina og svo er að skilja að spurningin sem þjóðin stendur frammi fyrir um þróun mála á næstu tveimur mánuðum snúist um hvort hæstv. ríkisstjórn nær markmiðum sínum í þeim efnum á þessum tveimur næstu mánuðum.
    Það vekur hins vegar athygli að frá hæstv. ríkisstjórn hafa ekki, hvorki hér inni á hinu háa Alþingi né á fundum flokksfélaga ríkisstjórnarflokkanna, komið fram neinar hugmyndir eða tillögur um nauðsynlegar aðgerðir vegna rekstrarhalla höfuðatvinnuvega þjóðarinnar. Engin áform virðast vera uppi samkvæmt því sem hæstv. ráðherrar hafa sagt um aðgerðir á næstu tveimur mánuðum til að bæta rekstrarstöðu höfuðatvinnugreinanna. E.t.v. er einmitt þetta það athyglisverðasta við Kópavogsræðu hæstv. forsrh. Þar er að vísu minnst á vanda sjávarútvegsins en það er ekki einu orði vikið að því að prófsteinn hæstv. ríkisstjórnar á næstu tveimur mánuðum séu aðgerðir til að rétta við hallarekstur atvinnuveganna.
    Að vísu kemur fram hjá hæstv. forsrh. að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða gegn því atvinnuleysi sem nú er að grípa um sig og öllum er ljóst að er afleiðing þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt hefur verið undanfarna mánuði. Í því efni hefur hæstv. forsrh. minnst á að grípa þurfi til aðgerða alveg á næstunni og hann hefur látið að því liggja að þær eigi að vera fólgnar í auknum opinberum framkvæmdum. Er það svo að eina ráð hæstv. ríkisstjórnar til þess að koma í veg fyrir eða draga úr því mikla atvinnuleysi sem nú er að grafa um sig sé að auka opinber umsvif? Sér hæstv. ríkisstjórn enga möguleika á því að treysta atvinnu fólks í landinu með því að örva atvinnulífið sjálft sem skapar verðmætin sem íslenska þjóðin lifir á? Á að ráðast til atlögu við þann vágest sem atvinnuleysið er með nýrri skattlagningu til þess að auka opinberar framkvæmdir? Telur hæstv. ríkisstjórn ekki að nóg sé að gert í þeim
efnum að fara ofan í kassa atvinnufyrirtækjanna og vasa launafólksins í landinu að því er skattheimtu varðar á þessu ári? Eða er það ætlun hæstv. ríkisstjórnar að standa undir þessum framkvæmdum og ráða bót á atvinnuleysinu með erlendum lántökum? Þetta eru spurningar sem Alþingi á rétt á að fá svör við fyrst hæstv. ríkisstjórn hefur varpað þessum bolta upp utan Alþingis. En flest bendir til þess að einmitt í þessum töluðu orðum hæstv. forsrh. komi fram það sjónarmið, sem hæstv. fjmrh. hefur verið að boða í allan vetur, að hin raunverulega uppspretta verðmætanna í þjóðfélaginu felist í ríkisumsvifunum en ekki afrakstri atvinnuvega landsmanna, sjávarútvegs og iðnaðar, sem skapa útflutningsverðmætin.

    Sú yfirlýsing sem hér hefur verið vitnað til vekur þar að auki upp ýmsar aðrar spurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við. Er það svo og ber að skilja þær yfirlýsingar sem fjölmiðlar hafa flutt fregnir af frá fundi hæstv. forsrh. á þann veg að ríkisstjórnin ætli sér ekkert að gera til að ráða bót á rekstrarhalla atvinnuveganna fyrr en eftir kosningar í haust? Á ekkert að gera fyrr en í haust og á ekkert að gera fyrr en að afstöðnum kosningum? Ég hygg að það séu margir í þessu þjóðfélagi sem bíði eftir skýrum svörum um þetta. En fréttir af ræðu hæstv. ráðherra bera með sér að sá sé hugur hæstv. ríkisstjórnar, enda er það þá staðfesting á þeim boðskap sem hæstv. fjmrh. hefur flutt að undanförnu.
    Ef það er svo að hæstv. forsrh. sér stórfellda gengislækkun fyrir sér í haust, hvers vegna er þá ekki gripið til aðgerða nú þegar fyrst þessi aðstaða er þegar ljós á haustdögum? Nú er flestum alþingismönnum um það kunnugt að því lengur sem aðgerðir í efnahagsmálum eru dregnar, þeim mun erfiðari verða aðgerðirnar. Þeim mun lengur sem það er dregið að breyta gengi krónunnar þegar það er fyrirsjáanlegt að það þarf að gera, því meiri þarf gengislækkunin að verða. Nú hygg ég að flestir séu mjög einhuga í því að það skiptir mjög miklu máli að stilla gengisbreytingum í hóf og fara þar fram af mikilli aðgæslu. En er ekki alveg augljóst ef það er fyrir séð að það þarf að framkvæma stórfellda gengislækkun í haust að það er betra að ráðast til atlögu við vandann nú þegar, gera aðgerðirnar þannig auðveldari og ekki eins sársaukafullar?
    Þá er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hyggilegt sé nú þegar kjarasamningar standa fyrir dyrum á milli launþega á almennum vinnumarkaði að hóta með lögfestingu kjarasamninga á hausti komanda. Aðilar að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði ræða eðlilega í ljósi þeirra kjarasamninga sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert við opinbera starfsmenn um samninga fram á haust. Þær viðræður eru tæpast hafnar enn. En er það skynsamlegt, þegar flestir vænta þess að báðir aðilar að þessum kjarasamningum sýni fulla ábyrgð, að hóta með því að lögfesta kaupgjald og binda kjarasamninga með lögum þegar væntanlegur samningur rennur út á haustdögum? Er það svo að hæstv. ríkisstjórn hafi tekið ákvörðun um að flytja slíka hótun nú þegar viðkvæmir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru að hefjast?
    En kjarninn í því sem hæstv. forsrh. þarf að svara hér í dag er spurningin um það hvort hann ætlast til þess að atvinnufyrirtækin í landinu gangi til kjarasamninga á þeim grundvelli sem lagður hefur verið í samningum við opinbera starfsmenn án þess að nokkrar ráðstafanir séu gerðar til að leiðrétta þann verulega hallarekstur sem nú hefur staðið mánuðum saman bæði í sjávarútvegi og iðnaði. Þetta er kjarnaspurningin til hæstv. forsrh.: Er það stefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar að ætlast til þess að slíkir kjarasamningar séu gerðir án frekari efnahagsráðstafana eða ætlast hæstv. ríkisstjórn til þess

að atvinnuvegirnir bíði með kjarasamninga fram á haustið þegar hæstv. forsrh. óttast að grípa þurfi til stórfelldrar gengisfellingar? Eiga launþegar á almennum vinnumarkaði að bíða aðgerða í þágu atvinnuveganna fram á haustið? Eru það skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn vill flytja fólkinu í landinu? Þau eru í samræmi við það sem hæstv. fjmrh. hefur látið frá sér fara að undanförnu, en er það svo að stjórnarflokkarnir allir og þar á meðal hæstv. forsrh. hafi tekið þá stefnu upp? Ef svo er ekki þarf hæstv. ríkisstjórn að gera grein fyrir því hvernig atvinnuvegirnir eiga að gera slíka kjarasamninga án frekari efnahagsráðstafana til að styrkja stöðu atvinnufyrirtækjanna.
    Hér eiga allar höfuðatvinnugreinar landsmanna hlut að máli. Sjávarútvegurinn á við sérstakan vanda að etja sem oft hefur komið til umræðu hér á hinu háa Alþingi á undanförnum mánuðum. Iðnaðurinn á ekki við minni vanda að glíma um þessar mundir. Það má segja að hæstv. ríkisstjórn hafi komið fram með alveg einstökum hætti gagnvart iðnaðinum í landinu og auðvitað fer ekki hjá því að langvarandi millifærslur og uppbætur til hluta sjávarútvegsins skekkja aðstöðuna á milli atvinnugreina. Það myndast misvægi á milli sjávarútvegs og iðnaðar sem óhjákvæmilegt er að leysa. Ætlast hæstv. ríkisstjórn til þess að iðnaðurinn gangi til þessara kjarasamninga án þess að skýr svör fáist um það hvernig þessum mismun verður eytt? þó að ekki sé meira spurt.
    Ferðamannaþjónustan hefur verið vaxandi atvinnugrein. Hún hefur hins vegar átt við vaxandi rekstrarerfiðleika að etja. Fram undan er aðalvertíð
ferðamannaþjónustunnar. Mestu tekjumöguleikar ferðamannaþjónustunnar eru yfir sumarmánuðina. Á ekki að skapa henni möguleika til tekjuaukningar með almennum efnahagsráðstöfunum fyrr en aðalferðamannatímabilinu er lokið í haust? Á þá að grípa til stórfelldrar gengislækkunar sem ferðamannaþjónustan getur ekki notið í auknum tekjum en fær aðeins í bakið með því að skrúfa upp erlendar skuldir hennar?
    Auðvitað höfum við orðið fyrir ýmsum ytri áföllum og margur sá vandi sem við er að etja í dag skrifast ekki á reikning hæstv. ríkisstjórnar, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við þeim aðstæðum þarf að bregðast. Á síðasta ári gerðist það hvort tveggja og reyndar að hluta til á árinu þar á undan að bandaríkjadollarinn féll og verð á erlendum mörkuðum var að falla mánuðum saman og sú skriða stöðvaðist reyndar ekki fyrr en sl. haust. Slíkar breytingar á ytri aðstæðum kalla fram taprekstur, en við þeim þarf á hinn bóginn að bregðast með almennum ráðstöfunum.
    Við sérstakan vanda var að etja á þessum tíma vegna þess að samtímis þurfti íslenska þjóðin að bregðast við ofþenslu í hagkerfinu. Með öðrum orðum: um leið og við mættum ytri áföllum þurfti að bregðast við almennri ofþenslu í hagkerfinu sem gerði þá baráttu um margt erfiðari en ella hefði verið. Þar af leiðandi urðu vextir um tíma mjög háir vegna þess að það var nánast eini þátturinn sem spyrnti gegn

ofþenslunni. Sá árangur náðist þó að umframeftirspurn eftir vinnuafli upp á 3000--4000 störf var komin í jafnvægi sl. haust. En svo hafa mál gengið til eftir að vinstri stjórn jafnréttis og félagshyggju tók við völdum að jafnvægið sem hafði náðst eftir að umframeftirspurn hafði verið upp á 3000--4000 störf hefur nú snúist við þannig að menn tala nú um mjög alvarlegar horfur á atvinnuleysi og sérstakar ráðstafanir til þess að bregðast við því. Jafnvægisárangurinn hefur sem sagt gengið í þá átt eftir að núverandi stjórn var mynduð að við þurfum að glíma við vaxandi atvinnuleysi.
    Með því að ekki náðist samkomlag sl. haust um raunhæfar aðgerðir til að bæta rekstur atvinnuveganna hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina. Það hefur verið gripið til skuldbreytinga. Þær aðgerðir voru auðvitað nauðsynlegar. Á hinn bóginn hefði mátt gera þær með miklu einfaldari og skilvirkari hætti í gegnum þá sjóði og banka sem fyrir eru þannig að þær hefðu fyrr komið að notum og með betri og meiri árangri. En skuldbreytingar af þessu tagi breyta ekki rekstrarstöðu fyrirtækjanna. Þær létta undir að því er greiðslustöðuna varðar, en þær breyta ekki rekstraraðstöðunni.
    Vextir urðu býsna háir á þeim tíma sem unnið var gegn ofþenslu. Meðan ofþensla er í hagkerfinu og viðskiptahalli safnast upp verður ekki undan því vikist að vextir vinni þar á móti, en um leið og verðbólga lækkar og dregur úr viðskiptahalla er unnt að ná vöxtum niður á eðlilegt stig á nýjan leik.
    Sá árangur hafði þegar náðst í fyrrahaust að lækka nafnvexti mjög verulega og fyrst framan af, fyrstu vikur núv. hæstv. ríkisstjórnar hélt sú þróun áfram. Raunvextir hafa hins vegar ekki lækkað fyrr en síðustu vikur, ekki vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hafi gripið til þeirra aðgerða sem hún hefur nú helst boðað í þeim efnum að stýra vöxtum með handafli, heldur fyrst og fremst vegna þess að markaðsaðstæðurnar hafa breyst. Að vísu er hér ekki um mikla raunvaxtalækkun að ræða, en auðvitað er hún mjög mikilvæg í þá veru að koma á jafnvægi, koma á aðstæðum þar sem atvinnulíf og sparendur geta búið við eðlilegt vaxtastig. En þetta hefur fyrst og fremst gerst vegna þess að ríkissjóður hefur ekki náð að fjármagna sínar lántökur á almennum markaði hér innan lands. Spariskírteini ríkissjóðs hafa með öðrum orðum ekki selst. Fyrir því er nú miklu meira framboð af peningum í bankakerfinu og það hefur áhrif til lækkunar á vexti.
    Þetta leiðir hins vegar hugann að því: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í þeim efnum? Hvernig ætlar hún að mæta lántökuþörf ríkissjóðs? Ætlar hún að gera það með sérstöku átaki á innlendum markaði á síðari hluta ársins? Það mun draga mjög úr möguleikum atvinnufyrirtækjanna til lántöku á innlendum markaði og vafalaust þrýsta á vextina á nýjan leik upp á við. Eða ætlar hún að fjármagna lántökuþörf ríkissjóðs með erlendum lánum? Við vitum nákvæmlega hvaða afleiðingar það hefur. Það kallar á meiri viðskiptahalla, ýtir undir verðbólgu og

þrýstir á endanum vöxtunum upp á nýjan leik. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera í þessu efni? Það skiptir mjög miklu máli fyrir þá þróun sem fram undan er. Ekki bara afkomu ríkissjóðs. Það hefur bein áhrif á efnahagsstarfsemina í heild sinni og afkomu atvinnuveganna.
    Þjóðhagsstofnun hefur nú svarað fyrirspurnum frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands um ýmis atriði sem þessir aðilar standa frammi fyrir eftir að gerðir hafa verið kjarasamningar við opinbera starfsmenn. Þar kemur fram mat á þeim kauphækkunum sem nú þegar hefur verið samið um. Það er mat Þjóðhagsstofnunar að samningar við opinbera starfsmenn þýði 9,5% kauphækkun, en um 8,5% fyrir alla launþega í landinu. Ef þessir samningar eru hins vegar færðir yfir á sjávarútveg og iðnað má reikna með að kauphækkunin verði ekki minni en hefur gerst hjá lægst launuðu opinberu
starfsmönnunum. Hún hlýtur af þeim sökum að verða einhvers staðar á bilinu 9--10%, enda reiknar Þjóðhagsstofnun með því í afkomuútreikningum sínum.
    Það er athygli vert að Þjóðhagsstofnun telur að heildarútgjöld ríkissjóðs aukist um 500 millj. kr. vegna nýrra kjarasamninga, en áður hafði hæstv. fjmrh. talið að þeir hefðu engan útgjaldaauka í för með sér umfram það sem áður hafði verið áætlað í fjárlögum.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. staðfest að hér sé um að ræða upphæð sem sé innan við skekkjumörk og reikna megi með auknum tekjum þar á móti svo að á þessu stigi verður ekki gerður neinn ágreiningur um þá niðurstöðu að þessir samningar við opinbera starfsmenn séu í samræmi við áætlanir fjárlaga.
    Þjóðhagsstofnun greinir svo frá því hver sé afkoma sjávaútvegsins við þær aðstæður sem við búum við í dag. Þar kemur fram að Þjóðhagsstofnun metur það svo að veiðar og vinnsla séu rekin með 5*y1/2*y% halla og þar af sé halli á frystingu um 7%. Nú hefur verið ágreiningur um þessr tölur lengi á milli Þjóðhagsstofnunar og forustumanna atvinnuveganna sem líta svo á að halli í rekstri frystiiðnaðarins sé a.m.k. 8, jafnvel 10%. Sá ágreiningur stafar fyrst og fremst af því að Þjóðhagsstofnun reiknar með lægri ávöxtunarkröfu en í raun hefur verið í gildi um alllangt skeið og það er mat margra talsmanna atvinnuveganna að Þjóðhagsstofnun hafi ekki að fullu tekið tillit til þeirra tollahækkana sem hafa orðið á saltfiski að undanförnu. Þessar tvær skýringar eru sennilega meginástæðan fyrir þeim mismun sem er á mati atvinnugreinarinnar sjálfrar og Þjóðhagsstofnunar.
    Í júnímánuði áætlar Þjóðhagsstofnun að veiðar og vinnsla verði með 7*y1/2*y% halla og frystingin með 8--9% halla. Þar við bætist sú skekkja sem talsmenn atvinnuveganna hafa bent á. Og við lok samningstíma, ef kjarasamningar opinberra starfsmanna verða færðir yfir á atvinnulífið í heild, verði halli á rekstri frystingarinnar orðinn 10*y1/2*y%. Þessar tölur tala mjög skýru máli.
    Hæstv. forsrh. hefur tekið fram að sérstakar

uppbætur í gegnum Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verði búnar í maí, þær kunni að endast fram í júní, og sömuleiðis verði uppbótum í formi endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti einnig lokið í maímánuði. Það er því augljóst að hér standa menn frammi fyrir stórum og mjög alvarlegum spurningum. Uppbótakerfið er á þrotum innan örfárra vikna og gerðir hafa verið kjarasamningar við opinbera starfsmenn sem bætast við hallarekstur atvinnuveganna.
    Hæstv. forsrh. hefur að undanförnu haldið því fram að ástæðulaust sé fyrir hæstv. ríkisstjórn að gefa svör við spurningum hér á hinu háa Alþingi og við spurningum forustumanna atvinnuveganna og launþega um áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í atvinnumálum og efnahagsmálum vegna þess að hann reikni með verulegum verðhækkunum á erlendum mörkuðum og að fjármagnskostnaður eigi eftir að lækka. Lítum aðeins á þessi tvö atriði sem eru einu haldreipi hæstv. forsrh. í umræðunni um það sem gerast á á næstu tveimur mánuðum. Fram hefur komið að engar líkur eru taldar á því að almennar verðhækkanir verði á Bandaríkjamarkaði. Að undanförnu er mönnum svo ljóst að til að mynda saltfiskframleiðslan hefur átt við erfiðleika að etja á Evrópumarkaði, ekki gert samninga í Portúgal í byrjun árs eins og venja er.
    Nú kann það að vera svo að á næstu mánuðum geti sú aðstaða styrkst að einhverju leyti og vonandi fer það svo að samningsaðstaðan á Evrópumarkaði styrkist eitthvað, en hæpið er að það verði umfram þau áföll sem menn hafa tekið á sig að undanförnu og varla er við því að búast að það geri meira en að vega upp það sem menn hafa orðið að mæta með tollahækkunum innan Evrópubandalagsins. Með hliðsjón af því að Þjóðhagsstofnun hefur að mati forustumanna atvinnuveganna ekki metið þessar breytingar að fullu er þess ekki að vænta að umtalsverðar breytingar geti orðið á afkomutölum atvinnuveganna samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar þó að þarna verði einhver styrking. En öll skulum við vona að Evrópumarkaðirnir styrkist eitthvað.
    Þess er að vænta að fjármagnskostnaður geti haldið áfram að lækka. Þó eru ýmsar blikur í þeim efnum ef engar breytingar verða á stjórnarstefnunni. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að halda áfram á sömu braut og fjármagna til að mynda allar lántökur ríkissjóðs erlendis hefur það mjög fljótlega áhrif á viðskiptahalla og aftur á verðbólgu og vaxtastig í landinu. Við þessu hefur hæstv. ríkisstjórn engin svör gefið.
    Á það er svo að líta að um það bil *y2/3*y af öllum lánum fiskvinnslunnar eru erlend lán og 2% lækkun á raunvaxtastigi mundi því tæplega bæta stöðu fiskvinnslunnar um meira en *y1/2*y% og væri það þó býsna mikill árangur. Með öðrum orðum: jafnvel þó að hæstv. ríkisstjórn mundi með öllu afnema raunávöxtun á næstu tveimur mánuðum mundi það ekki duga til að bjarga rekstri sjávarútvegsins fyrir utan að það mundi setja fjármagnsmarkaðinn á hvolf og drepa niður allan sparnað í þjóðfélaginu og þannig

mjög fljótlega koma atvinnuvegunum í koll. En jafnvel þetta mundi ekki duga á næstu tveimur mánuðum. Þessi tvö atriði, sem hafa verið helstu bjarghringir hæstv. forsrh. í umræðunum að undanförnu, sýnast því ekki vera sú björgun sem hæstv. ráðherra er að leita að eða sá happrættisvinningur sem hann bíður eftir.
    Ríkissjóði var gefið svigrúm með 7 milljarða skattahækkunum til að auka útgjöld sín og standa undir þeim launahækkunum sem nú hefur verið samið um. En atvinnulífinu er enn haldið í spennitreyju. Því hefur ekki verið gefið svigrúm til að ganga til kjarasamninga á sama grundvelli og hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hafa gert að því er varðar opinberar framkvæmdir og ber þó öllum saman um að þar sé um hógværa kjarasamninga að ræða, einhverja þá hógværustu sem um getur í manna minnum.
    Hæstv. fjmrh. hefur verið ólatur við að senda atvinnulífinu og starfsfólki atvinnufyrirtækjanna í landinu kveðjur eftir þá kjarasamninga sem hann hafði forustu um að gera. Í viðtali við Ríkisútvarpið 7. apríl segir hæstv. fjmrh., með leyfi forseta: ,,Þeir eiga sjálfir að gera sína kjarasamninga miðað við sitt bú. Þessir kjarasamningar sem ég hef gert eru í samræmi við markmið og stöðu ríkisbúskaparins og það fyrirtæki, ef má orða það svo, sem er ríkissjóður Íslands og þeir eiga að gera kjarasamninga í samræmi við sín fyrirtæki.``
    Og síðan spyr fréttamaður Ríkisútvarpsins þannig: ,,Ríkisstjórnin ætlar ekki að hlaupa undir bagga hjá fiskvinnslunni til að liðka fyrir samningum?`` Og hæstv. fjmrh. svarar: ,,Fiskvinnslan á sjálf að gera sína samninga og þessi samningur skekkir á engan hátt þeirra möguleika vegna þess að hann er í samræmi við markmið þjóðhagsáætlunar og forsendur fjárlaga sem fiskvinnslan mótmælti ekkert á sínum tíma.``
    Og síðar segir hæstv. fjmrh.: ,,Nú er það verkefni hinna sem hafa samningsréttinn hjá sér að gera sinn samning. Þeir axli sína ábyrgð þar á sama hátt og ég og ríkisstjórnin höfum axlað okkar ábyrgð hér og náð niðurstöðu sem er í samræmi við okkar markmið og þá er rétt að þeir glími við það að ná niðurstöðu einir og sjálfstætt í samræmi við sín markmið.``
    Þessi boðskapur verður ekki skilinn á annan veg en þann að hæstv. fjmrh. telji óþarft að grípa til aðgerða í þágu atvinnuveganna til að leysa þá úr þeirri spennitreyju sem þeir eru í og að starfsfólk atvinnufyrirtækjanna, hvort sem það er í iðnaði, sjávarútvegi, verslun, landbúnaði eða þjónustu, hvort sem það eru fiskverkakonurnar, konurnar í iðnfyrirtækjunum eða afgreiðslukonurnar, af því að hæstv. fjmrh. er tamt að tala um laun kvenna, megi bara bíða því atvinnufyrirtækin eigi að gera kjarasamninga miðað við rekstrarafkomu sína. Reksturinn er í stórum halla. Eru þetta þau svör sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gefa? Er þetta boðskapurinn sem hæstv. forsrh. ætlar að senda þjóðinni?
    Hæstv. sjútvrh. sagði á Alþingi í umræðum í síðustu viku að það yrði að breyta gengi krónunnar ef atvinnuvegirnir ættu að geta gert samninga af því tagi

sem ríkissjóður hefur gert. Hann orðaði það að vísu svo, enda hógvær maður, að gengið yrði að síga. En í þeim töluðu orðum felst að hans mati að breyta þurfi gengi krónunnar til þess að atvinnuvegirnir geti gert þennan samning og reyndar til þess að þeir geti haldið áfram rekstri án nýrra kostnaðarhækkana. Hæstv. fjmrh. sté í stólinn á hinu háa Alþingi um leið og hæstv. sjútvrh. hafði látið þessi ummæli falla og endurtók fyrri yfirlýsingar um að ekkert ætti að gera til að bæta rekstur atvinnuveganna.
    Nú hefur hæstv. forsrh. talað á fundi í Kópavogi og látið að því liggja að næstu tveir mánuðir skeri úr um endalok hæstv. ríkisstjórnar. Því er óhjákvæmilegt að hann gefi nú skýr svör við þeim spurningum sem hér hljóta óhjákvæmilega að vakna. Yfirlýsingar hæstv. forsrh. á Kópavogsfundinum benda til þess að hann taki undir með hæstv. fjmrh. en ekki með hæstv. sjútvrh. En hann segir samt að eðlilegt sé að atvinnuvegirnir semji um sömu kauphækkanir og ríkissjóður hefur gert eftir að hafa fengið tækifæri til að ganga í vasa skattborgaranna og kassa atvinnufyrirtækjanna og hremma þar 7 milljarða kr.
    En spurning dagsins er þessi, hæstv. forsrh.: Eiga atvinnufyrirtækin að ganga til þessara samninga án aðgerða? Hvernig eiga þau að ganga til slíkra samninga ef engar ráðstafanir verða gerðar til þess að rétta við hallareksturinn? Eða á að skilja boðskapinn á þann veg að þessir aðilar eigi að bíða með gerð kjarasamninga fram á haustið? Og er það stefna hæstv. ríkisstjórnar að hallarekstrinum verði haldið áfram fram á haustið?
    Þessar spurningar eru tiltölulega einfaldar. En það verður ekki lengur vikist undan því að gefa skýr svör. Tími uppbótanna og millifærslnanna er að líða. Aðilarnir standa frammi fyrir því hvort þeir eiga að gera kjarasamninga eða ekki og þess vegna er kallað eftir þessum svörum í dag. Ég vænti þess að það komi annar boðskapur en sá að hæstv. ríkisstjórn ætli að bíða eftir happdrættisvinningnum. Við lifum ekki á því, við gerum ekki kjarasamninga á því og við sköpum ekki ný verðmæti í atvinnulífinu á því að bíða eftir einhverjum happdrættisvinningi. Þess vegna er það von mín að hæstv. forsrh. gefi skýrari svör en hæstv. ríkisstjórn hefur getað gefið fram til þessa.