Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég sé að uppi á pöllum er einn af ráðherrum Alþb. og væri kannski tilbreyting í því að bjóða honum að ganga í salinn. Hann er hálfeinmanalegur, hæstv. forsrh. Það er eins og enginn vilji deila áhyggjunum með honum þessa stundina nema fjórða hjólið á vagninum, hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson, og er það vel við hæfi því þó nokkur orðalagsmunur hafi verið á ræðum þessara tveggja hv. þm. leyndist engum sem hér var inni að málflutningurinn var sá sami. Í öllum aðalatriðum voru þeir sammála, þessir tveir hv. þm., og greinilegt að þeir draga mjög dám hvor af öðrum og hafa svo sem rétt svipaðar skoðanir á atvinnulífi og efnahagsmálum. Það er þess vegna óþarfi að svara hv. 6. þm. Norðurl. e. sérstaklega, en ég vil þó óska honum til hamingju með að hann skuli hafa fundið sinn gamla formann, Steingrím Hermannsson, á nýjan leik og óska honum til hamingju með að hann hefur nú ríkisstjórn sem hann er svo ánægður yfir að hann sá ástæðu til að standa sérstaklega upp í Sþ. til að leggja blómsveig yfir herðar hæstv. forsrh., kom á eftir honum hingað upp í ræðustólinn þegar hæstv. forsrh. var nýbúinn að lýsa því yfir að auðvitað væri rætt um það í ríkistjórninni hvern einasta dag sem yfir gengi, að öldur atvinnuleysis væru að ganga yfir þetta þjóðfélag. Ég ræddi um, sagði hæstv. forsrh., að fram undan væri eflaust alda atvinnuleysis. Og það er fróðlegt að heyra þann gamla hv. 6. þm. Norðurl. e. taka undir með hæstv. forsrh. að þetta er bara minni háttar mál. Þetta er svo sem ekki neitt sérstakt til að hafa áhyggjur út af. Það er náttúrlega ekki neitt sérstakt fyrir hv. 6. þm. Norðurl. e., sem telur sig einkaþingmann þeirra á Raufarhöfn, þótt hann lesi í sínu gamla málgagni, Degi, nú að þar sé atvinnuleysi meira en þekkst hafi eftir að skráning atvinnuleysisdaga var upp tekin. Og það má vera líka að í huga hæstv. forsrh. sé Akureyri ekki hluti af strjálbýlinu eða dreifbýlinu, en einmitt í flokksblaði hans á Akureyri, Degi, er það skýrt tekið fram að atvinnuleysi sé vaxandi á Akureyri og sé þar meira en verið hafi síðan skráning atvinnuleysis hafi verið tekin upp. Um þetta tvennt eru þessir tveir menn sammála að sé eðlilegt ástand. Þetta finnst þeim mikið batamerki ef ég skil hæstv. forsrh. rétt. En af því að hæstv. fjmrh. er kominn í salinn er óhjákvæmilegt að spyrja hann einnar spurningar og hún er þessi: Er það rétt, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að ríkisstjórnin hefði í hyggju að taka upp viðræður við fjvn. um að hraða opinberum framkvæmdum á þeim stöðum á landinu þar sem atvinnuleysi verður tilfinnanlegast á næstu vikum eða mánuðum? Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta mál hafi verið tekið upp við formann fjvn. og hvernig þessar umræður yfir höfuð standi. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. komi hér í stól á eftir og geri grein fyrir þeim hugmyndum sem uppi eru innan ríkisstjórnarinnar um að flýta með þessum hætti opinberum framlögum til hinna ýmsu framkvæmda, en eins og þeir heyrðu sem hér voru inni rökstuddi hæstv. forsrh. þessa tillögu með því að

illa gengi nú að selja verslunar- og iðnaðarhúsnæði og þess vegna kynni svo að fara að hið opinbera yrði að grípa inn í.
    Hæstv. forseti. Ég hafði beðið aðalforseta þingsins að sjá svo um að hæstv. félmrh. gæti komið í þingsalinn. Hæstv. forsrh. fór mjög mörgum orðum um atvinnuleysið í landinu og er nauðsynlegt að hæstv. félmrh. sé viðstaddur af þeim sökum. ( Forseti: Forseti verður að tilkynna hv. 2. þm. Norðurl. e. að samkvæmt töflu mun hæstv. félmrh. ekki vera í húsinu. En hugsanlega hafa verið gerðar ráðstafanir til að gera henni viðvart og mun forseti athuga það.)
    Hæstv. forseti. Ég bað um það fyrir stundu eða svo að forseti þingsins gerði ráðstafanir til að ná í hæstv. félmrh. og var mér þá sagt að hann væri væntanlegur þannig að það væri mjög gott ef hægt væri að ná í hann.
    Ég vil fyrst, hæstv. forseti, víkja að forstjóra frystihússins á Þingeyri sem hæstv. forsrh. vitnaði í áðan, en ég vil líka minna á að samkvæmt ummælum sem hann viðhafði á fundinum í Kópavogi og endurómuðu í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins var í rauninni það eina sem hæstv. forsrh. hafði við þann mann að segja að hann hefði átt að gefa sitt fyrirtæki upp til gjaldþrotaskipta fyrir þrem árum. Það var ekki hægt að skilja hæstv. forsrh. öðruvísi. Ég get þess vegna vel skilið að hann skuli hafa verið pínulítið beiskur yfir því að þeir á Þingeyri skyldu hafa látið í ljósi einhverjar vonir um að formaður Sjálfstfl. kynni e.t.v. að geta komið útgerðinni á Þingeyri til hjálpar, en eins og við munum var lítils stuðnings að vænta frá formanni Framsfl. á þeim dögum, enda munum við eftir því að í októbermánuði lýsti hann því yfir á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna að hann hefði verið uppi í fílabeinsturni utanrrn. og af þeim sökum ekki haft hugmynd um það sem var að gerast í sjávarútveginum hér á landi og átti það jafnt við um Vestfirði sem aðra hluti. En hitt vil ég spyrja hæstv. forsrh. um svo að ekki fari á milli mála: Bar að skilja ummæli hans svo að þessi maður, þessi forstjóri frystihússins á Þingeyri, hafi sagt við hann að formaður Sjálfstfl. hafi ekki staðið við sín orð? Var það það sem hæstv. forsrh. var að segja áðan? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. reyni að svara þessu. Hann gaf í skyn í ræðustól áðan að svo hefði verið. Hann talaði um þennan mann og í sömu
andránni ræddi hann um að fyrrv. forsrh. hefði ekki verið maður fyrir sínum orðum. Ég sé að hæstv. forsrh. er að skrifa niður. Það er eins um þetta atvik nú og ýmis önnur, að þegar maður biður hæstv. forsrh. að standa við sín stóru orð, segja já eða nei, er það þögnin sem svarar manni. Það er mjög auðvelt alltaf að slá úr og í. Það er auðvelt að bera fyrir sig menn fyrir vestan stundum og menn í Kópavogi stundum og stundum menn í Keflavík. En hitt er erfiðara að vera maður fyrir því sem maður segir á hverjum tíma. Ég rifja það upp af þessu tilefni að þegar verið var að ræða um heræfingarnar hentaði hæstv. forsrh. að segja og tala um það að í

ágústmánuði sl. hefði hann verið önnum kafinn við að mynda ríkisstjórn, en þegar ég spurði hann um nú á haustdögum hvort hann hefði þá verið að mynda ríkisstjórn kom hann upp í þennan ræðustól og sagði að hann hefði ekki verið farinn að tala um það einu einasta orði á þeim ágústdögum sem hann í þessu samhengi sagðist hafa verið að mynda ríkisstjórnina. Hvað eru líka nokkrir dagar milli vina? Hvað er ein tímasetning svo sem í þessu samhengi? Ég sé að hæstv. forsrh. brosir yfir endurminningunni. En hitt get ég sagt honum að það er ekki broslegt, hvorki hér á landi né annars staðar, þegar þeir menn sem komast til æðstu metorða gera sig seka um að vinna á bak við þá menn sem þeir hafa bundist trúnaðartrausti við, sem þeir hafa skuldbundið sig til að vinna með að lausn á þeim erfiðleikum sem steðja að þjóðinni hverju sinni, þegar það kemur svo í ljós löngu síðar að þeir hafa verið að vinna á bak við þá og hafa verið að reyna að grafa undan þeim árangri sem ella hefði getað orðið af þeirra samstarfi. Ég hygg að það sé líka nauðsynlegt að vita vegna þess að hæstv. forsrh. fór enn einu sinni að tala um gömlu nefndina, um niðurfærsluna: Hvernig stóð á því að hæstv. forsrh. hefur ekki mátt heyra minnst á þessa niðurfærsluleið nokkru sinni síðan, aldrei? Hann hefur talað um það hér í ræðustólnum og hann talaði um það í Nd. fyrir skömmu að matarverðið væri hátt hér á landi. Rökstuðningur hans fyrir því í Nd. að ekki mætti lækka matarverðið nú, að það mætti ekki daga úr opinberum gjöldum og sköttum á algengustu neysluvörur nú væri sú að BSRB hefði verið að tala um skammtímasamninga. Er nokkur maður hér inni sem efast um að við værum betur stödd í þessu landi nú ef ríkisstjórnin hefði gengið fram fyrir skjöldu, hefði dregið úr skattheimtunni, hefði gefið fjölskyldunum eitthvað til baka af þeim 150 þús. kr. viðbótarsköttum sem lagðir voru á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu um síðustu áramót, þó það hefði ekki verið nema 10%, hæstv. forsrh., sem hefðu verið gefnar til baka af þessum 150 þús. sem voru teknar af fjölskyldunni um síðustu áramót hefði e.t.v. verið hægt að komast hjá því nú að semja um peningahækkun á laun.
    Skammtímasamningar, sagði hæstv. forsrh. Mér heyrist samt núna að hann sé ekki reiðubúinn að svara einu einasta orði, ekki einu einasta orði síendurteknum fyrirspurnum formanns Sjálfstfl. áðan um það hvernig hann hyggist bregðst við þeim vanda sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir.
    Hæstv. sjútvrh., staðgengill hæstv. forsrh., sagði í þeim stól sem ég stend í núna meðan hæstv. forsrh. var erlendis um daginn að þessir samningar væru óraunhæfir. Hann sagði að það væri ekki hægt að semja um að þessar launahækkanir gengju yfir hinn almenna vinnumarkað án þess að þær færu inn í verðlagið og kæmu fram í nýrri verðbólgu og án þess að það kæmi til nýrrar gengisfellingar. Þessa yfirlýsingu gaf hæstv. sjútvrh., varaformaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, meðan hæstv. forsrh. var erlendis. Nú spyr ég enn hæstv. forsrh.: Er hann

sammála varaformanni sínum? Er hann sammála staðgengli sínum um það að ekki sé hægt að láta laun úti á hinum almenna vinnumarkaði hækka um eina einustu krónu án þess að það fari út í verðlagið, án þess að því verði mætt með nýrri gengisfellingu? Er hægt að segja já eða nei við því? Eða á að reyna að standa upp á eftir og reyna að snúa sig út úr þessu? Á að reyna að tala um eitthvað allt, allt annað? Á að fara að reyna að kenna Þorsteini Pálssyni um tapið núna? Hæstv. forsrh. sagði áðan að það væri alveg skelfilegt ef fyrirtæki í sjávarútvegi töpuðu langtímum saman og hann bætti við að fyrirtæki í sjávarútvegi hefðu tapað í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar Þorsteinn Pálsson var forsrh. Kannski hann sé í þessum fílabeinsturni enn, hæstv. forsrh., ef hann heldur að sjávarútvegsfyrirtækin hafi skilað hagnaði. Hann er að tala um það að hann sé alltaf að lesa reikningana. Hann segist dag hvern velta fyrir sér því mikla atvinnuleysi sem nú blasir við. Sýnast honum reikningarnir sýna hagnað? Skila fyrirtækin hagnaði? Og hverju skyldi vera um að kenna?
    Hæstv. forsrh. talar ekki um rangt skráð gengi. En hann kennir ýmsu öðru um. Hann var áðan að tala um að hann hefði skoðað reikningana hjá fyrirtækjunum á sl. ári og hann sagði með mikilli hneykslan að það hefði verið svo mikill fjármagnskostnaður þá sem hefði valdið tapinu. En í allt, allt öðru samhengi rétt á eftir sagði hann að þessi mikli fjármagnskostnaður væri tilkominn vegna gengisfellinga á sl. ári sem efnt hefði verið til að beiðni þeirra manna sem vinna við fiskvinnsluna og fyrir fiskvinnslufyrirtækin þannig að sá fjármagnskostnaður sem til er orðinn vegna gengisfellingarinnar sé þess vegna
borinn uppi og meira til af þeim auknu tekjum sem þessi sömu fyrirtæki fá í gegnum það að íslenska krónan hefur lækkað, erlendi gjaldmiðillinn hefur hækkað í verði. Þannig hrynur þessi spilaborg með mikla fjármagnskostnaðinn, hrynur undir eins og farið er að skoða og farið er að hlusta. Það stendur ekkert eftir nema þetta eitt að hæstv. forsrh. og hv. þm. Stefán Valgeirsson eru sammála um að gengið skipti svo sem ekki máli. Það sé gott að geta huggað sig við að einhvern tíma kannski síðar muni hækka eitthvað af fiski í Evrópu þó svo engar vonir séu um slíkt í Ameríku og þó svo allar horfur séu á því nú að olíuverð fari fremur hækkandi en lækkandi sem auðvitað kemur ekki sjávarútveginum til góða.
    Hæstv. forsrh. var að tala um að fiskur á Evrópu færi að hækka. Það eru þrjár vikur síðan hann lýsti því yfir í Ed. að saltfiskvinnslan væri rekin með hagnaði. Það er ekki lengra síðan. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh.: Hefur Þjóðhagsstofnun metið til fulls öll þau áföll sem saltfiskvinnslan hefur orðið fyrir? Er hugsanlegt að staða saltfiskvinnslunnar sé kannski ofmetin í skýrslum Þjóðhagsstofnunar? Má það vera? Hvar er það annars staðar sem hæstv. forsrh. hugsar sér að fá vinninginn? Sakir standa þannig núna að mönnum hefur verið ráðlagt að salta ekki, verið beint frá því að verka í saltfisk. Þannig er

nú ástandið þar. Það er ekkert bjart fram undan og það þýðir ekkert að vera að tala um að það sé bjart fram undan. Og það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsrh. alltaf að segja: Síðasta ríkisstjórn var verri en þessi ríkisstjórn. Hann er búinn að vera í fimm eða sex síðustu ríkisstjórnum og hann hefur alltaf komið í hverri nýrri ríkisstjórn og sagt: Ég ber enga ábyrgð á því sem gert var í síðustu ríkisstjórn. Áðan var hann að tala eins og honum kæmi ekki við það sem hafi gerst í síðustu ríkisstjórn í sjávarútveginum. Hver var sjútvrh. þá? Var Þorsteinn Pálsson sjútvrh.? Var sjálfstæðismaður sjútvrh.? Ef sjávarútvegsmálin fóru úr böndunum og ekki var hugsað um málefni sjávarútvegsins í síðustu ríkisstjórn, hverjum stóð það þá næst að hugsa um málefni sjávarútvegsins? Átti varaformaður Framsfl. eitthvað skylt við sjávarútveginn þá? Á hann eitthvað skylt við hann núna? Má vera að enginn sjútvrh. hafi eins lengi setið í því sæti í jafnlangvarandi hallarekstri og varaformaður Framsfl.? Má það vera? Það væri gaman að fá einhver svör við því.
    Hitt er alveg rétt að hv. þm. Stefán Valgeirsson var á móti síðustu ríkisstjórn. En hæstv. forsrh. þóttist þó vera með henni á meðan hann sat í henni þó hann reyni að kenna henni um eftir á.
    Ég tók eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. talaði um það áðan að það væri merki um að það slaknaði á peningamarkaðnum sem hjálpaði til við að lækka vexti og ber að fagna því, sagði hæstv. forsrh. Hvernig stendur á því að það slaknar á peningamarkaðnum? Er hugsanlegt að það sé vegna þess mikla vonleysis sem nú hefur gripið um sig í atvinnulífinu? Það er ekki bara hér í Reykjavík, það er út um allt land sem menn eru hikandi við að fara í framkvæmdir nú vegna þess að þeir óttast það sem fram undan er og gera sér ekki grein fyrir því hvernig ríkisstjórnin hyggist mæta erfiðleikum jafnvel næstu mánaða.
    Ég hafði gaman af því þegar hæstv. forsrh. var áðan að tala um að e.t.v. mundi sjávarútvegurinn geta bjargað sér vegna þess að einhverjar óvæntar og miklar fiskhækkanir kynnu að koma sem björguðu fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þetta var fróðlegur kafli vegna þess að á fundi Ed. sl. föstudag lagði hæstv. forsrh. sérstaka lykkju á leið sína til að víkja að því að iðnaðurinn, samkeppnisiðnaðurinn hefði farið jafnvel verr út úr fastgengistímabilinu en sjávarútvegurinn vegna þess að það hafi engar ytri aðstæður komið þeim iðnaði til hjálpar. Nú var svo að heyra á hæstv. forsrh. í aðra röndina að hann teldi að iðnaðurinn væri ekki aflögufær af þessum sökum. Hið sama er hæstv. forsrh. farinn að segja núna um sjávarútveginn, sennilega eftir að hæstv. sjútvrh. hefur tekið hann í kennslustund í afkomu sjávarútvegsins.
    Hæstv. forsrh. segir að hvorki samkeppnisiðnaðurinn né sjávarútvegurinn þoli launahækkanir. Stundum segir hann það. Hann segir líka í öðru orðinu að hann sé mjög bjartsýnn vegna þeirra hógværu samninga sem tekist hafa við ríkisstarfsmenn og hann talar svo um forustu

verkalýðshreyfingarinnar, forustu Alþýðusambands Íslands að hún vilji leysa kjaramálin án þess að fara út í kollsteypu. Í framhaldi af því lýsti hæstv. forsrh. því yfir að kjarasamningarnir nú væru ekki samningar um kjarabætur heldur væru þetta samningar um kjaraskerðingu og talaði síðan um að einkaneysla okkar Íslendinga væri meiri en í öðrum löndum. Hann kallaði hana eyðslu og talaði um að yrði að draga verulega úr einkaneyslunni eins og nú er komið.
    Þetta vekur undir eins tvær spurningar. Fyrsta spurningin er þessi: Ber að skilja orð hæstv. forsrh. svo að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að standa við það markmið að kaupmætti fyrsta ársfjórðungs ársins 1989 verði haldið það sem eftir er ársins?
    Í öðru lagi verða orð hæstv. forsrh. ekki skilin öðruvísi en svo að hann telji æskilegt að kjarasamningarnir á hinum frjálsa vinnumarkaði dragist fram á haustið. Hann talaði um það sem firru að í blöðunum væru uppi háværar
upphrópanir um 15% gengisfellingu og leyndi sér ekki að í þessum ummælum var hann fyrst og fremst að gefa þeim fulltrúum Alþýðusambands Íslands, þeim verkalýðsleiðtogum Alþýðusambands Íslands sem starfa úti á landsbyggðinni áminningu um að þeir hefðu ekki hagað sér skynsamlega og þeir skyldu ekki treysta því að ríkisstjórnin mundi rétta hag sjávarútvegsins ef til almennra kjarasamninga kæmi á hinum almenna vinnumarkaði.
    Ég hygg að ekki þýði að ítreka fsp. hv. 1. þm. Suðurl. og spyrja hæstv. forsrh. enn: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera nú í sumar? Hyggst ríkisstjórnin greiða fyrir því að kjarasamningar geti tekist á hinum frjálsa vinnumarkaði sem verði á svipuðum nótum og gerðir hafa verið við opinbera starfsmenn? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera 1. júní eftir að greiðslur á uppsöfnuðum söluskatti falla niður og hvað ætlar hæstv. forsrh. sér þegar greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði frystingarinnar falla niður í júlímánuði? Það er hreinn útúrsnúningur hjá hæstv. forsrh. þegar hann talar um að ekki beri að taka þessar millifærslur inn í afkomu sjávarútvegsins. Auðvitað er afkoma sjávarútvegsins þeim mun verri sem millifærslunum nemur ef maður vill gera dæmið upp með eðlilegum hætti.
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort ástæða sé til að segja mikið meira. Ég vil að vísu láta í ljós undrun mína yfir því að einungis hæstv. forsrh. skuli vera í salnum þegar hér fer fram efnahagsumræða og ráðherrum átti að vera ljóst að sú umræða færi fram. Það sýnir eitt með öðru hvernig þessi ríkisstjórn lítur á sjálfa sig að hún þykist ekki þurfa að standa fyrir svörum, hvorki þegar þjóðin spyr né þingið, í sambandi við þau málefni sem varða daglegt líf borgaranna í landinu sem margir hverjir eiga í kjarabaráttu og verkföllum, margir unglingar geta ekki lokið sínum prófum og aðrir ganga um atvinnulausir. Þegar þessi umræða er í þingsalnum þykjast ráðherrar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ekki þurfa að mæta í þinginu.
    Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. lauk ræðu sinni áðan með því að segja: Þessi ríkisstjórn mun alls ekki

sofna á verðinum heldur verður fylgst með því frá degi til dags hvernig staða atvinnuveganna er. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að það sé farsælla að ná viðeigandi rekstrargrundvelli smátt og smátt en örugglega fremur en vera með kollsteypur. Telur hæstv. forsrh. að mikið hafi áunnist síðan hann settist í það sæti? Hefur hæstv. forsrh. fetað þennan veg smátt og smátt en örugglega? Er hæstv. forsrh. ánægður með þennan gang og finnst honum hann bara hafa staðið sig vel? Er það kannski ástæðan fyrir því að ómögulegt er að fá hann til að svara einföldum spurningum, eins og þessari: Hvað á að gerast þegar ekki eru til meiri peningar í Verðjöfnunarsjóði frystingarinnar? Hvað ætlar hæstv. forsrh. að gera til þess að þær kjarabætur sem opinberir starfsmenn hafa fengið geti gengið út yfir þjóðfélagið? Og síðast en ekki síst: Hvað átti hæstv. forsrh. við þegar hann sagði í Morgunblaðinu 8. apríl sl., með leyfi hæstv. forseta: ,,En ég hef sagt það allan tímann að hinn almenni vinnumarkaður þurfi að vera á undan og hafa frumkvæðið. Þess vegna þykir mér það mjög slæmt að aðilar hans hafa dregið lappirnar allan þennan tíma eins og gerst hefur.`` --- Svo mörg voru þau orð. Hvað átti hæstv. forsrh. við þegar hann talaði um að hinn frjálsi vinnumarkaður hefði dregið lappirnar? Var hann með þessu að segja að fyrirtækin væru rekin með hagnaði og væru aflögufær? Hvað var hann að reyna að gefa í skyn? Og ef hann er þeirrar skoðunar að fyrirtækin hafi verið aflögufær og ef hann er þeirrar skoðunar að hinn almenni vinnumarkaður hafi dregið lappirnar, af hverju kemur hann þá ekki upp hingað og segir að svo sé? Af hverju ítrekar hann það ekki hér í ræðustólnum? Er eitthvað verra að segja það hér heldur en í einkasamtali við Morgunblaðið? Hvað hefur breyst síðan þetta var sagt við Morgunblaðið?
    Ég leyfi mér að skilja hæstv. forsrh. svo að hann kæri sig kollóttan hvernig gengur í atvinnulífinu. Ég leyfi mér að skilja hæstv. forsrh. svo að honum standi á sama um það þó hér komi uppi alvarlegar vinnudeilur á hinum almenna vinnumarkaði og ég leyfi mér að skilja hann svo að það þýði hvorki fyrir atvinnurekendur né launþega að ganga á fund hans né þessarar ríkisstjórnar til þess að spyrjast fyrir um það með hvaða hætti ríkisstjórnin kynni að vilja greiða fyrir því að þær kjarabætur sem gengið hafa til opinberra starfsmanna gangi líka til hins almenna verkamanns, á sjónum og í frystihúsinu, í hinum almennu störfum verkamanna. Ef maður gæti vænst þess að svörin yrðu önnur þá hefði hann ekki notað þennan munnsöfnuð ,,að draga lappirnar``. Þá hefði hann valið önnur orð. Það er þessi fyrirlitning á því sem gerist utan Stjórnarráðsins sem er það sorglega við þessi ummæli. Og það er eftirtektarvert að einn af verkalýðsleiðtogunum hér í þinginu, hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason, sá einmitt ástæðu til þess í Ed. að snupra hæstv. fjmrh. sérstaklega fyrir þau óviðeigandi ummæli sem hann hafði látið falla gagnvart hinum almenna vinnumarkaði, gagnvart fólkinu úti á landsbyggðinni og þeim mönnum sem þar eru að

reyna að standa fyrir rekstri.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, en ég ítreka það sem ég sagði: Það er auðvitað tilgangslaust að spyrja hæstv. forsrh. efnislegra
spurninga um grundvallaratriði sem varða kjarasamningana, samningsgrundvöllinn úti í þjóðfélaginu, sem varða undirstöðuatvinnugreinarnar, sjávarútveg og iðnað. Þeim verður ekki svarað. Hvorki beint né óbeint, heldur farið að tala um annað. Og fyrirlitning ríkisstjórnarinnar er slík að ráðherrar hans láta sig einu gilda hvað það er sem hann segir hér inni í þingsalnum, hvort hann talar um það í þetta skipti að ríkisstjórnin eigi að fara frá eftir tvo mánuði eða tíu. Þeir láta sig einu gilda. Þeir vita sem er að þó hæstv. forsrh. sé að reyna að hóta sjálfum sér með því að ríkisstjórnin eigi að falla eftir tvo mánuði þá tekur hæstv. forsrh. ekki mark á þeim orðum sjálfs sín.