Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Þessi umræða sem hér fer fram utan dagskrár er að sjálfsögðu eðlileg í ljósi síðustu viðburða. Þá er átt við annars vegar þá kjarasamninga sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á og gerðir voru við starfsmenn ríkis og bæja og hins vegar ummæli og ræðu hæstv. forsrh. á almennum stjórnmálafundi í Kópavogi eins og hv. ræðumenn við þessa utandagskrárumræðu hafa minnt á fyrr í umræðunni. Meginspurningarnar sem komu fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., sem hóf þessa umræðu, voru þær hvort eðlilegt sé að líta á kjarasamninga BSRB sem leiðandi samninga, hvort ætlast sé til þess að þeir samningar gangi yfir atvinnulífið, verði ráðandi fordæmi fyrir þá samninga sem eftir er að gera og sé svo, hvort ríkisstjórnin ætli að grípa til aðgerða til þess að leiðrétta og tryggja eðlileg rekstrarskilyrði fyrir útflutningsgreinarnar. Þessi svör þurfa að fást nú sem allra fyrst, annars er ljóst að ekki er hægt að ganga til slíkra samninga og ef engin svör fást nú á næstunni ber að skilja það sem skilaboð til atvinnulífsins um að hæstv. ríkisstjórn ætlist ekki til að samið verði á almenna vinnumarkaðinum nú á næstunni.
    Það er augljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að bera ábyrgð á stefnunni í kjaramálum um þessar mundir. Það hefur komið fram bæði hjá hæstv. forsrh. og einnig hjá hæstv. utanrrh. að með því að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið að sér að semja við opinbera starfsmenn áður en samið var á almenna launamarkaðinum, vinnumarkaðinum, en auðvitað er miklu æskilegra að samið sé fyrst á almenna launamarkaðinum eins og kom fram í þeirra áliti, þá þýðir það væntanlega að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið á sig ábyrgð á þessari stefnu. Nú er það ljóst og það hefur margoft komið fram í þessum umræðum, svo og í öðrum umræðum um þessi mál, að miðað við ástandið eins og það er í dag eru færðir til fjármunir í þessu þjóðfélagi, til ákveðinna aðila í útflutningi, þá á ég við frystinguna fyrst og fremst, og þessar millifærslur eða tilfærslur þýða u.þ.b. 5--6% bætta afkomu í frystingunni. Þá á ég við aðallega þá fjármuni sem ganga til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins og til viðbótar má nefna niðurgreiðslu á rafmagni þótt ekki sé minnst á endurgreiðslu söluskatts en það má halda því fram með þó nokkrum rökum að nokkur hlutur þeirrar endurgreiðslu sé í raun nokkurs konar millifærslur til sjávarútvegsins. Það hefur komið fram frá talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar að gera megi ráð fyrir að þeir fjármunir sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði til uppbóta til frystingarinnar, eða til útflutnings á frystum fiski í gegnum Verðjöfnunarsjóð, gangi til þurrðar í júnímánuði. Nú er miður apríl. Það mun þýða að þessir peningar dugi í einn og hálfan mánuð í viðbót. Það liggur ekkert fyrir um það hvað taki þá við og hæstv. ríkisstjórn fæst ekki til að svara því. Það eina sem hægt er að draga út úr hæstv. ríkisstjórn með töngum er að hæstv. ríkisstjórn vonast til þess að verð á frystum afurðum hækki á Evrópumarkaði. Með öðrum orðum: stefna hæstv. ríkisstjórnar byggist á vonum einstakra hæstv. ráðherra

um það að hallæri í fiskiðnaði annars staðar leiði til hækkaðs verðs í Evrópu. Þetta er satt að segja heldur rýr stefna.
    Þá má benda á og það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. og hefur komið fram í öðrum opinberum heimildum að ef fram heldur sem horfir mun fjármagn úr saltfisksdeildinni ganga til þurrðar í lok þessa árs og er þá gengið út frá óbreyttu verði. Þetta liggur fyrir í umræðunni, samt fæst hæstv. ríkisstjórn ekki til að segja frá því, hvorki hér á þingi né við atvinnulífið, hvort hæstv. ríkisstjórn ætli að bregðast við hugsanlegum kjarasamningum með þeim aðgerðum að rekstrarskilyrði verði tryggð í fiskvinnslunni.
    Það er ljóst og liggur fyrir og hefur komið fram í skýrslu Þjóðhagsstofnunar til Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna, en sú skýrsla er dagsett 14. apríl 1989, að það hefur verulega þýðingu til hins verra fyrir afkomu í sjávarútvegi ef kaup er hækkað um það sama og gerðist í samningum við BSRB. Ég mun ekki leggja dóm á það hve afkomurýrnunin verður mikil af þeim sökum en það kemur fram mjög skýrlega í þessari skýrslu að ef, eins og í töflu sem kemur fram í þessari skýrslu, hvort tveggja gengur fram að ekki verði til fjármunir í Verðjöfnunarsjóði né heldur verður átt við að breyta gengi meira en áætlað var, þá geti farið svo að halli á frystingu verði 10,5%. Nú er auðvitað öllum ljóst að slíkt getur ekki gengið og það er einmitt þess vegna að þess er óskað að hæstv. forsrh. svari hér tiltölulega einföldum spurningum um atriði sem blasa við en hæstv. ríkisstjórn þverskallast við að svara.
    Það hefur minna farið fyrir umræðu um iðnaðinn í þessari umræðu en þó var bent á það af hv. 1. þm. Suðurl. að nú þegar hefur það gerst að mörg iðnfyrirtæki hafa orðið að hætta starfsemi sinni og í lauslegu mati Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir því með því að miða við veltutölur samkvæmt söluskattsskýrslum sem bendi til þess að iðnaðarframleiðsla hafi dregist saman um 6%, verslun um 3--4% og þjónusta um 2--3%. Þetta þýðir auðvitað að þau fyrirtæki sem ekki hafa fengið sérstaka fyrirgreiðslu eins og sum fyrirtækja í útflutningi, reyndar bæði í iðnaði, þó einkum í fiskvinnslu og þá sérstaklega í frystingunni, en þau fyrirtæki í iðnaði sem hafa þurft að
hlíta gengisstefnu ríkisstjórnarinnar hafa auðvitað brugðið á það ráð að loka og það framkallar m.a. atvinnuleysi, ekki síst hér á suðvesturhorni landsins.
    Það liggur þess vegna alveg skýrt fyrir að hæstv. ríkisstjórn á ekki nema tveggja kosta völ. Annar kosturinn er að auka enn á erlendar lántökur eða skatta, sækja þannig nýja fjármuni til þess að greiða með sumum útflutningsfyrirtækjum eða að fella gengi íslensku krónunnar og viðurkenna þá staðreynd að gengi krónunnar er of hátt skráð.
    Þessar umræður hér í dag áttu að leiða í ljós hvort hæstv. ríkisstjórn hefði rætt um slíkt, hvort lægju fyrir einhverjar áætlanir um það hvað gera skuli. Svörin eru engin. Það eru sömu gömlu svörin: Við ætlum okkur

að leita allra leiða. --- Það eru sömu svörin og komu fram í haust þegar spurt var um þessi sömu tilteknu atriði en það er ekki nýtt að menn hafi vitað að þeir fjármunir, þær 800 milljónir, sem áttu að ganga til Verðjöfnunarsjóðs og gengu til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, mundu ganga til þurrðar nú um þetta leyti árs.
    Það var hins vegar athyglisvert að hlusta á tvo hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, annars vegar hæstv. fjmrh. sem hefur verið kallaður eins konar ,,háyfirráðherra`` ríkisstjórnarinnar og hins vegar hæstv. sjútvrh. sem þá var starfandi forsrh., þegar þeir tóku þátt í umræðum um mál af þessum toga fyrir viku. Hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir þá að hæstv. ríkisstjórn yrði að bregðast við með því að breyta gengi vegna þeirra samninga sem gerðir hefðu verið við BSRB. Hæstv. fjmrh. var hins vegar annarrar skoðunar. Og nú, áður en ég aðeins vitna orðrétt til ræðna þessara tveggja hæstv. ráðherra, langar mig til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann sé fremur á skoðun hæstv. fjmrh. eða á skoðun hæstv. sjútvrh. Og nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, fá að vitna til örfárra setninga sem komu fram í ræðum þessara tveggja hæstv. ráðherra.
    Hæstv. fjmrh. sagði í annarri af sínum ræðum orðrétt: ,,Það er tómt mál um það að tala af hálfu forustumanna atvinnurekenda að vera að biðja hér um þróun frjálsra samskiptahátta á hinum ýmsu mörkuðum í okkar hagkerfi, bæði peningamarkaði, þjónustumarkaði og vinnumarkaði, ef menn eru ekki reiðubúnir fyrst að axla þá ábyrgð sem felst í því frelsi en verða ætíð í upphafi í hverri samningalotu til þess að biðja um sífellda fundi í Stjórnarráðinu.`` --- Og síðar í þessari ræðu segir hæstv. fjmrh., þessari þingræðu sem flutt var fyrir nákvæmlega viku: ,,Það er ekkert tilefni til gengisbreytinga í þeim kjarasamningi sem gerður hefur verið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, ekki neitt.`` --- Og enn síðar segir hann: ,,Að tengja gengisbreytingar við kjarasamninga BSRB, eins og hv. fulltrúar Sjálfstfl. hafa hér gert, er algjörlega út í hött. Hvers vegna? Jú, vegna þess að í samningum opinberra starfsmanna er verið að semja um sérstakar hækkanir hjá þeim lægst launuðu í gegnum krónutöluregluna, hækkanir hjá fólki sem hefur í heildarlaun 40--50 þús. kr. á mánuði.`` --- Og síðan segir, og loks, hæstv. fjmrh.: ,,Væri krónutölureglunni beitt í sjávarútveginum í launakerfi fiskvinnslunnar með sama hætti og gert er í kjarasamningum BSRB er engin ástæða fyrir fiskvinnsluna til að biðja um gengisfellingu á grundvelli þessa kjarasamnings.`` --- Hér lýkur tilvitnunum í ræðu hæstv. fjmrh. sem hann flutti hér í Sþ. fyrir nákvæmlega viku í fjarveru hæstv. forsrh. Og mér finnst full ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh. sem á að teljast yfirmaður og forustumaður þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem hér situr nú að völdum: Er hann sammála því sem kemur fram í þessum tilvitnuðu ummælum? Er hann sammála hæstv. fjmrh. um það að þótt þessi kjarasamningur verði látinn gilda yfir atvinnulífið þurfi ekki að gera

breytingar á gengi þrátt fyrir það? Ef hæstv. forsrh. er sammála því, hvað telur hann þá að þurfi að gera í staðinn til þess að rekstrarskilyrði fiskvinnslunnar í landinu séu viðunandi og ekki megi búast við lokun fjölmargra fyrirtækja á næstu vikum og mánuðum?
    Staðgengill hæstv. forsrh., Halldór Ásgrímsson sjútvrh., var hér viðstaddur þá umræðu sem ég hef vitnað til. Skoðun hans var talsvert önnur en skoðun hæstv. fjmrh. Hann sagði, með leyfi forseta, orðrétt, og ég hef hér ræður hæstv. ráðherra sem ég hef fengið hjá ræðuritun þannig að ég les orðrétt úr ræðum viðkomandi hæstv. ráðherra. Hæstv. sjútvrh. sagði: ,,Það hefur orðið ofan á að gerður hefur verið samningur milli BSRB og ríkisins. Auðvitað er sá samningur leiðandi að vissu leyti þó ekki sé þar með sagt að launabreytingar hjá öðrum eigi að vera nákvæmlega þær sömu.`` --- Og síðar segir hæstv. ráðherra: ,,En aðalatriðið er þó það sem hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson spurði mig um sem var nánast það hvort eitthvert svigrúm væri til þess í sjávarútveginum að greiða samsvarandi hækkanir á launum og nú hefur verið ákveðið að greiða hjá ríkinu. Svarið við því er einfaldlega nei.`` --- Þetta er úr ræðu hæstv. sjútvrh. sem síðar sagði: ,,Það er metið svo að ef þær launahækkanir sem þarna hafa orðið mundu verða samsvarandi hjá fiskvinnslunni, þá mundi þetta tap aukast um u.þ.b. 2%, þ.e. í sjávarútveginum í heild, án þess að tekið sé tillit til þeirra óbeinu áhrifa sem verða að sjálfsögðu í atvinnuvegunum, þ.e. ýmis önnur laun hækka og þar af leiðandi þjónusta. Það liggur því í sjálfu sér alveg fyrir að sjávarútvegurinn er þess ekki umkominn
að taka á sig frekari launahækkanir.`` --- Og enn segir hæstv. þáv. starfandi forsrh. og sjútvrh. orðrétt, með leyfi forseta: ,,Mér dettur ekki til hugar að halda því fram að á sama tíma og verulegar kostnaðarhækkanir eiga að verða í landinu sé hægt að lofa því að genginu sé haldið algjörlega stöðugu. Hvað þá að fara að gera um það samning við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja því það mætti einfaldlega túlka slíkan samning þannig að það væri gerður samningur við þau samtök að atvinnulífið skyldi endanlega fara yfir um. Auðvitað gerir enginn slíkan samning og á enginn að biðja um það.``
    Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, þegar ég les þetta, að hér er hæstv. sjútvrh. að vitna til þess að forseti eða formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur haldið því fram að hann hafi tryggingu fyrir því frá hæstv. ríkisstjórn, frá hæstv. fjmrh. og væntanlega hæstv. forsrh. líka, að ekki verði efnt til gengisbreytinga né verðhækkana vegna þess samnings sem gerður var við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Og það er full ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh.: Tók hann þátt í einhvers konar viðræðum við forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem gerði það að verkum að forustumenn þeirra samtaka máttu halda að hæstv. ríkisstjórn mundi ekki hreyfa gengi íslensku krónunnar ef skrifað væri undir þá samninga sem skrifað var undir á milli fjmrh. og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja?

    Formaður BSRB hefur gefið slíkt sterklega í skyn en hér í þessari ræðu sem ég hef verið að vitna til og hæstv. sjútvrh. flutti fyrir viku er sagt að slíkt sé algjörlega út í bláinn. Reyndar notar hann ekki orðið ,,vitfirra`` eins og sumir hafa notað um kröfur Bandalags háskólamanna en merkingin er mjög skýr í orðum hæstv. sjútvrh.
    Síðar í þessari ræðu segir hæstv. sjútvrh. að launþegar verði að gera sér grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að hækkun launa muni hafa áhrif á verðlag og er auðvitað með þessum tilvitnuðu orðum að gera því skóna að hreyfa verði gengi og slíkar gengisfellingar hafi óhjákvæmilega áhrif á verðlag og þá auðvitað fyrst og fremst verðlag innfluttrar vöru. Og síðar í sinni ræðu, með leyfi forseta, segir hæstv. sjútvrh.: ,,Það er alveg ljóst að eitthvert gengissig hlýtur að verða á árinu 1989`` --- og gerir síðan grein fyrir því, og segir loks orðrétt: ,,Starfsskilyrði sjávarútvegsins þola ekki neinar hækkanir um þessar mundir.``
    Virðulegur forseti. Ég hef vitnað hérna orðrétt til ræðna tveggja hæstv. ráðherra sem allir þeir sem hlusta á sjá að stangast á. Annar hæstv. ráðherrann, yfirforingi, að eigin áliti a.m.k., þessarar hæstv. ríkisstjórnar segir: Það þarf engar gengisfellingar vegna þess samnings sem gerður hefur verið við BSRB jafnvel þótt hann verði lagður til grundvallar í fiskvinnslunni og öðrum þáttum atvinnulífsins. Hins vegar kemur varaformaður Framsfl., hæstv. sjútvrh., talar þar sem starfandi forsrh. og segir: Auðvitað verður að svara þessum kjarasamningi með gengisfellingu ef þessi samningur, sem hann telur að sé leiðandi fyrir atvinnulífið, verður ráðandi við gerð frekari kjarasamninga. Það er lágmarkskrafa að þegar hæstv. forsrh. kemur upp í ræðustól síðar í kvöld og svarar þeim spurningum sem til hans er beint fari hann ekki eins og köttur í kringum heitan graut eins og hann gerði í sinni ræðu í dag heldur svari því skýrt og skilmerkilega hvorum ráðherranum hann er sammála. Hlýðir hann þeim sem telur sig vera yfirmann í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh., eða er hann sammála hæstv. sjútvrh. og varaformanni Framsfl.? Ef hann er sammála sínum eigin flokksmanni og samráðherra, hæstv. ráðherra Halldóri Ásgrímssyni, verður hæstv. forsrh. auðvitað að svara til viðbótar þeim spurningum sem til hans hefur verið beint hér í umræðunum í dag, en hann kom sér hjá að svara þeim í sinni ræðu. Það er ekki verjandi í sex mánuði í röð að hlusta á hæstv. forsrh. segja það í ræðustól að verið sé að leita ýmissa leiða. Það er kominn tími til þess að hann segi hvað hæstv. ríkisstjórn hyggist gera miðað við þær forsendur sem hæstv. ríkisstjórn hefur sjálf gefið sér í þessum málum, en það er sá samningur sem hæstv. ríkisstjórn gerði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.
    Hæstv. forsrh. sem er talinn með hugrakkari mönnum, meira að segja með hugrakkari þingmönnum og ráðherrum, hefur þann sið að þegar komið er að kjarna málsins og deilt er um þessi mál í þingsölum þá segir hann: ,,Þetta er allt frjálshyggjunni að kenna.``

Nú hefur það stundum vafist fyrir hæstv. forsrh. að svara því hvað sé frjálshyggja þegar hann er spurður þeirrar spurningar. Satt að segja, og það veit hæstv. ráðherra og man af fundum hér í bænum, finnst fólki afar kyndugt þegar hann er að reyna að svara spurningunni hvað sé frjálshyggja. Hann sagði á fundi sem ég sat að frjálshyggja væri það sama og stjórnleysi. Þegar reynt hefur verið að þröngva hæstv. forsrh. til að svara nákvæmar hefur hann gjarnan sagt: ,,Ja, sko frjálshyggjan, það er þessi óhefti markaður, þessir verðbréfasjóðir, verðbréfafyrirtæki og kaupleigufyrirtæki.`` Ég man ekki betur en að í stefnuræðu hæstv. forsrh. legði hann alveg sérstaka áherslu á það í haust að ná böndum á þennan markað. Hvaða bönd voru þetta? Jú, böndin voru þau að koma frumvarpi til laga um verðbréfasjóði í gegnum þingið.
    Nú væri gaman að spyrja: Ætli þetta hafi tekist? Já, hæstv. ríkisstjórn
lagði fram frumvarpið og fyrir nokkrum vikum var það samþykkt. Með öðrum orðum: þessi frjálshyggja sem hæstv. forsrh. hefur verið að tala um er ekki lengur til staðar einfaldlega vegna þess að nú hefur verið komið böndum á verðbréfamarkaðinn. Nú getur hæstv. forsrh. ekki skákað í því skjólinu að kenna einhverjum verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum, einhverjum ,,gráa markaði``, um það hve illa gengur að hemja vextina í landinu. Við skulum aðeins líta nánar á þetta. Kann að vera að það séu einhverjir fleiri sem séu frjálshyggjumenn í þessu þjóðfélagi? Jú, hæstv. ráðherra hefur ráðist á aðra. Hann hefur söðlað sinn hest eins og Don Kíkóti forðum og hefur valið sér vindmyllur. Það er Seðlabankinn og það eru bankarnir í landinu. Hæstv. forsrh., ásamt samráðherrum sínum, gekk meira að segja svo langt að biðja um fund með meiri hluta bankaráða ríkisbankanna til þess að koma böndum á ríkisbankana og koma þannig í veg fyrir óeðlilega vexti í landinu. Hvaða menn voru þetta? Voru það ekki frjálshyggjupostularnir? Hver skyldi vera formaður bankaráðs Búnaðarbankans, annars ríkisbankanna? Er það ekki aðalfrjálshyggjumaður þjóðarinnar? Maðurinn sem myndaði meiri hluta í bankaráði Búnaðarbankans. Hver skyldi vera formaður bankaráðs Búnaðarbankans? Jú, það er hv. þm. Stefán Valgeirsson. Þetta er nú frjálshyggjuliðið sem hæstv. forsrh. er að berjast við.
    Nei, ég held að hæstv. forsrh. ætti að átta sig á því að það er út í bláinn og það trúir því ekki nokkur maður lengur þegar hann heldur því fram að öll vandamál sem upp hafa komið að undanförnu séu frjálshyggjunni að kenna. Það er öðru nær. En hæstv. ráðherra sér sér leik á borði. Hann kallar til vitnis ýmsa menn úr atvinnulífinu og segir sem svo: Hvað segja iðnrekendur? Eru þeir ekki sammála mér? Hvað sagði formaður Félags ísl. iðnrekenda? Sagði hann ekki eins og ég að vextir væru allt of háir, fjármagnskostnaður væri allt of mikill? Jú, formaður iðnrekenda hafði tekið undir það með hæstv. forsrh. að fjármagnskostnaður væri mikill í landinu. Í raun hefur enginn neitað því. En af hverju sleppti hæstv. forsrh. að nefna að formaður Félags ísl. iðnrekenda

hafi sagt nýlega á aðalfundi þess félags að það þyrfti að fella gengið um u.þ.b. 10--12% þannig að eitthvert vit kæmist í rekstrarskilyrði iðnaðarins og útflutningsgreinanna? Af hverju sleppti hæstv. forsrh. þessu? Það er vegna þess að hann kýs að velja sumt af því sem menn segja til þess að leiða fram sem vitni fyrir því að hann hafi rétt fyrir sér en sleppir öðru sem er óþægilegra fyrir hans málstað. Í þessu býr kjarkur hæstv. ráðherra. Þetta er hugrekkið, þetta er krafturinn, mátturinn og dýrðin.
    Ég held nefnilega að það sé rétt, sem ýmsir hagfræðingar halda fram, meira að segja stjórnmálamenn og menn úr flokki hæstv. forsrh., að í raun og veru geti ríkisvaldið með allt öðrum hætti haft áhrif á vaxtastigið í landinu. Þar kem ég að ríkisskuldabréfunum. Af hverju lækkar ekki hæstv. ríkisstjórn vextina af ríkisskuldabréfunum? Nú hafa bankarnir lækkað sína raunvexti um *y1/2*y%. Það liggur fyrir að ,,grái markaðurinn``, verðbréfamarkaðurinn, hefur lækkað vexti hjá sér, þ.e. þar ríkir að sjálfsögðu lögmál framboðs og eftirspurnar. En af hverju dregur ríkisstjórnin lappirnar? Af hverju ákveður ekki hæstv. forsrh. að lækka vexti af ríkisskuldabréfunum niður í 5%? Það er aðeins eitt svar við því. Svarið er það að ríkisskuldabréfin seljast ekki í dag og mundu enn þá síður seljast ef vextirnir yrðu lækkaðir. En ég skal kenna hæstv. forsrh. mjög gott ráð og hann má nota það jafnvel þótt ég gauki því hér að honum, enda erum við frændur eins og komið hefur fram í umræðunni og miklir vinir og ég veit að hann þiggur gott ráð. Ráðið er að lækka vexti af ríkisskuldabréfunum niður í 5% og ef þau seljast ekki þá á bara að skera niður ríkisútgjöldin á móti. Ég er alveg sannfærður um að þá mundu vextir almennt lækka, verðbólgan hjaðna og ríkisstjórnin fengi verðugt verkefni og verkefni við sitt hæfi að skera niður ríkisútgjöldin á móti. Þá gæti hæstv. ráðherra sýnt hugrekki sitt og hugmyndaauðgi og slegist í för með hæstv. fjmrh. sem hefur haft þá hugmyndaauðgi að skera laun ríkisins niður um 4% án þess að það komi að nokkru niður á þjónustunni. Við vorum að hlusta á sjónvarpið áðan þar sem verið var að segja frá því að verið væri að loka deildum á sjúkrahúsinu á Húsavík og það er búið að loka í auknum mæli deildum á öllum sjúkrahúsum landsins. Nei, það er ekki samdráttur í þjónustu. Þessu ráði vil ég beina til hæstv. forsrh. því að þetta ráð er alveg óbrigðult. Það er dálítið erfitt að fara eftir því, ég skal viðurkenna það. En það er alveg ljóst að þetta er ráð sem dugir.
    Ég held samt sem áður, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. muni ekki þiggja þetta ráð. Hann mun halda áfram að berja höfðinu við steininn, hann mun halda áfram að ráðast á vindmyllurnar og kenna frjálshyggjunni um, ráðast á bankakerfið, Seðlabankann, finna andskota í þessu horni og hinu horninu og segja: Þetta er allt þeim að kenna. Ég vildi gera þetta vel, ég ætlaði mér að gera þetta vel, það voru bara hinir sem komu í veg fyrir það. Hann hefur nefnilega trú á því að það sé hægt að nota handafl

gegn markaðslögmálunum.
    Nú langar mig, virðulegur forseti, til þess aðeins að vitna til greinar í blaði sem ég las ekki alls fyrir löngu þar sem fjallað er um yfirlýsingu
hæstv. ríkisstjórnar frá 6. febr., en það er einmitt í þeirri yfirlýsingu sem kom fram það loforð hæstv. ríkisstjórnar að lækka vexti niður í 5%. Þetta er ekki nýtt loforð, þetta er loforð frá því 6. febr. og var reyndar það eina sem þá kom fram sem menn tóku eftir. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn sagt að þetta eigi að gerast í lok maí ef ég man rétt. Í þessari grein, sem ég ætla nú að vitna til, segir, með leyfi forseta, að það veki athygli hvað ekki var sagt í yfirlýsingu frá hæstv. ríkisstjórn frá 6. febr. Síðan segir:
,,1. Það er ekkert minnst á jafnvægi í þjóðarbúskapnum í heild, þ.e. framboð og eftirspurn á öðrum mörkuðum en peningamarkaðnum. Það skiptir sköpum hvað er að gerast á vinnumarkaðnum og vörumörkuðum því markmið um atvinnustig eða viðskiptahalla verður að skoða í samhengi við markmið í peningamálum.
    2. Hvergi er minnst á verðbólguna berum orðum. Þess er getið að veita verði sérstakt aðhald þegar verðstöðvun sleppir.
    3. Gengisstefnan hlýtur að skipta sköpum varðandi verðbreytingar, en ekki er minnst á samspil gengisþróunar og peningamagnsbreytinga. Hvað þá að þetta sé samningsatriði við ákvörðun fiskverðs.
    4. Treyst er á ýtrasta aðhald í ríkisrekstrinum þannig að ekki þurfi að hafa áhyggjur af ríkishalla. Hvort tveggja er að hann virðist alltaf vera vanmetinn og falin skekkja í fjárlögum auk þess sem kjarasamningar eru á næsta leiti sem ráða úrslitum um framvindu efnahagsmála á næstunni.``
    Síðan segir í beinu framhaldi í þessari grein:
    ,,Maður fær það á tilfinninguna að verið sé að villa um fyrir lesandanum á ýmsan hátt.`` --- Svo ég skjóti því hér inn þá er verið að vitna til lesenda frv. sem kom í kjölfar febrúaryfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar. --- ,,Látið er í veðri vaka að Seðlabankinn geti lækkað raunvexti með sölu á spariskírteinum ríkissjóðs gegn 5% raunvöxtum óháð verðbólgu og væntingum fólks. Ríkissjóður getur auðvitað náð þessu markmiði fyrir sitt leyti með því að gefa út skírteini sem seljast ekki. Raunvextir lækka hins vegar ekki fremur en verðbólgan með einfaldri ríkisstjórnarsamþykkt. Það er verið að ruglast á orsök og afleiðingu og finna sökudólga í lánastofnunum og Seðlabanka fyrir háum raunvöxtum. Til þess að raunvextir lækki þarf að snúa dæminu við. Það verður að byrja á því að ákveða fjárlög og áætla erlendar lántökur og peningaframboð í landinu í heild með tilliti til þess að heildareftirspurn í þjóðfélaginu sé í samræmi við heildarframboð þannig að ákveðnu markmiði í verðlagsmálum sé náð. Þetta gerist með því að breyta peningaframboði af hálfu Seðlabankans með reglum um bindiskyldu og lausafjárhlutfall og með sölu spariskírteina með þeim vöxtum sem með þarf til þess að ná tilteknu sölumarkmiði. Á venjulegum markaði getur fyrirtæki annaðhvort ákveðið verð vöru sinnar eða það magn

sem það vill selja á tilteknu verði. Þegar bæði verð og magn er ákveðið er nánast um tilboð að ræða fremur en markaðsstarfsemi. En það er einmitt þess vegna sem svo mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn, það er erfitt fyrir þá að ráða yfir honum eða ákveða með lögum að hann skuli láta að vilja þeirra.`` Hér lýkur lestrinum og ég vildi sérstaklega vitna til þessara síðustu orða: ,,En það er einmitt þess vegna sem svo mörgum stjórnmálamönnum er illa við markaðinn, það er erfitt fyrir þá að ráða yfir honum eða ákveða með lögum að hann skuli láta að vilja þeirra.``
    Þetta mundi maður nú kalla svívirðilega árás á hæstv. forsrh. Hér er, eins og allir lesendur sjá, verið að löðrunga þá hæstv. ráðherra sem halda því fram að hægt sé að stýra vöxtum með þeim ráðum sem hæstv. forsrh. hefur undir rifi hverju. Hvaða fjárans frjálshyggjumenn skyldu svo skrifa þetta? Hannes Hólmsteinn Gissurarson eða einhver þaðan af verri? Nei, þetta er úr blaði sem gefið er út af samvinnuhreyfingunni. Kannast hæstv. ráðherra við hana? Nei, hann hefur ekki heyrt á hana minnst, hann heldur bara áfram að lesa í sínum ljóðum. Vona ég það að þegar hann hefur lesið þau muni hann eitthvað af þessum ljóðum sem hann er að lesa og læri eitthvað af þeim. Kannski er þetta eins konar æfing. Ég man að þegar ég var í barnaskóla var mér sagt að maður gæti aukið á minni sitt með því að læra ljóð utanbókar og með því að fara með þau aftur og aftur. Hæstv. forsrh. er kannski að fara að slíkum ráðum og les síðan ljóð baki brotnu vegna þess að einhver hefur bent honum á að það væri gott ráð við minnisleysi. Og leyfi ég hæstv. ráðherra að halda áfram ljóðalestrinum því að margt óþarfara hefur hann gert um ævina en að lesa ljóð eftir góðskáld íslensku þjóðarinnar.
    Mig langar nú til þess að víkja að því hvort hæstv. forsrh. kannist við að það sé halli í viðskiptum við útlönd. Getur það verið að hæstv. ríkisstjórn afgreiði lög frá Alþingi og áætlanir sem geri ráð fyrir verulegum viðskiptahalla? Mig langar líka til þess að víkja að því og spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi heyrt þær kenningar að þegar mikill viðskiptahalli sé þá stafi það m.a. af því að gengi krónunnar sé rangt skráð? Hafi hann heyrt á þetta minnst og jafnvel áttað sig á þessum staðreyndum, sem sumir vilja kalla svo, þá langar mig að spyrja hæstv. forsrh. að því hvernig hann hefur hugsað sér að leysa úr þessum málum fyrir íslensku þjóðina. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. áttar sig á því að á hverjum einasta degi --- og þá tel ég sunnudaga
og laugardaga með, jóladag og páskadag og sumardaginn fyrsta og alla daga ársins --- munar u.þ.b. 30--40 millj. á því að endar nái saman í þessum búskap Íslendinga. Með öðrum orðum: við erum á hverjum degi að auka erlendar lántökur um 30--40 millj. kr. Hefur hæstv. forsrh. einhvern tímann hugsað út í þetta? Hefur hæstv. forsrh., þegar hann er að fjalla um þessi mál, gert sér í hugarlund hvernig hann ætlar að leysa þetta? Ef hann hefur gert það þætti mér

vænt um að hann segði frá því á hinu háa Alþingi vegna þess að þetta er hluti af því stóra máli sem við erum að ræða hér í dag. Þetta er hluti af því hvernig þessi þjóð á að framfleyta sér án þess að taka sífellt meiri erlend lán. Það er einmitt það sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert. Hún hefur leyst þannig til bráðabirgða úr sárustu vandræðum fyrirtækjanna með því að slá fjármagn erlendis til þess að borga með vörunum sem við flytjum til útlendinga. Ef hæstv. ráðherra trúir því að slíkt gangi upp legg ég til að við hv. þingmenn skrifum til akademíunnar úti á Norðurlöndum og förum fram á að hæstv. forsrh. fái Nóbelsverðlaunin í hagfræði ef hann heldur að þessi eilífðarvél geti gengið upp. En þar sem ég veit að hæstv. forsrh. þekkir þessi mál og kannast við þau óska ég eftir því að hann ræði um það við okkur hvernig hann hyggst í nafni ríkisstjórnarinnar, nú þegar ljóst er að ríkisstjórnin hefur tekið á sig ábyrgð af kjarasamningum, annars vegar leiðrétta rekstrargrundvöll útflutningsgreinanna og þar með íslensku þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum í kjölfar þeirra kjarasamninga sem hann ber ábyrgð á. Þetta er nú ekki flóknara en það.
    Hæstv. forsrh. hefur stundum í vetur, og ég hef nokkuð vikið að því í mínu máli, virðulegur forseti, sagt að það sé allar meinsemdir að finna í frjálsræðinu og frjálshyggjunni og hann lét að því liggja í sinni stefnuræðu í haust að nú yrði vikið frá þessum frjálshyggju- og frjálsræðisúrræðum sem hefðu verið notuð á Vesturlöndum. Það mátti skilja að við værum svo sérstakir Íslendingar að í raun og veru pössuðu engar hagfræðiformúlur hjá okkur.
    Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann telji að það sé lakari mold í jörðinni fyrir austan járntjald en fyrir vestan járntjald, hvort það sé munurinn á Austur- og Vestur-Þýskalandi, Póllandi og Frakklandi, Ungverjalandi og Austurríki, þ.e. að annars vegar sé allt miklu lakara, verra fólk, lakari mold og minni málmar? Eða getur það verið að þjóðirnar fyrir vestan járntjald hafi náð betri lífskjörum vegna þess að kerfið sem byggist upp á frjálsræðinu og frjálsa markaðinum hafi gefið betri raun vegna þess að almenningur fyrir vestan járntjald á þess kost að velja sér markmið og leið að þeim markmiðum? Því hefur það verið aðall allra ríkisstjórna sem hafa setið á Vesturlöndum á síðasta áratug, hvort sem það eru ríkisstjórnir íhaldsmanna, krata eða framsóknarmanna, svo ég nefni nú flokksbræður hæstv. forsrh. sem hann þingar stundum með og eiga aðild að ríkisstjórnum víðs vegar um Evrópu, að auka frjálsræðið. Þetta hefur einmitt gert það að verkum að ríkisstjórnirnar í Evrópubandalaginu treysta sér nú til þess sameiginlega að lýsa yfir að komið verði á sameiginlegum innri markaði þar sem frjálst flæði verði á fjármagni og mannafla á milli landa. Þetta byggist nákvæmlega á þeirri hugmynd að frjálsræðið geti gefið eitthvað í aðra hönd. Austur í Moskvu situr aðalvinur hæstv. forsrh., Gorbatsjov, og hann er farinn að skilja þetta --- hann er farinn að skilja þetta. Meira að segja í Póllandi eru menn farnir

að skilja hlutina. En á Íslandi situr ríkisstjórn undir forsæti hæstv. forsrh. en undir hugmyndafræðilegri stjórn hæstv. fjmrh. og þessi ríkisstjórn ætlar að fara einhverjar sérstakar leiðir, allt aðrar leiðir en allir aðrir fara. Heldur hæstv. ráðherra að hann viti miklu betur en allir aðrir í Vestur-Evrópu hvernig eigi að fara að? Heldur hann að það gildi einhver önnur lögmál hér á landi en þar? Trúir hann því virkilega að handaflsstjórn hans sé vitrænni en stjórn þeirra þjóðarleiðtoga sem hafa valið veg frelsisins á Vesturlöndum? Af orðum hæstv. forsrh., sem hann hefur sífellt endurtekið þegar hann er að bera frjálshyggjuna fyrir sig, má ráða og halda að hann vilji fara einhverja allt aðra leið. Ég spyr hæstv. forsrh.: Átti að skilja hann svona á sínum tíma í haust eða var þetta bara misskilningur? Þorir hann að koma í ræðustól og segja okkur að í raun og veru sé það besta sem við getum gert að haga okkar hagstjórn með sama hætti og aðrar vestrænar þjóðir, þ.e. að auka frjálsræðið en ekki draga úr því?
    Um þetta snýst í raun og veru allt þetta mál. Það snýst nákvæmlega um þetta. Það snýst um það hvort við ætlum að hafa stjórnarfar sem byggir á jafnvægi í þjóðarbúskapnum en lætur framboð og eftirspurn ráða, lætur ákvarðanir í hendur þeirra sem stunda kaupin á eyrinni, hvort sem það eru launþegaforingjar, atvinnurekendur eða menn í viðskiptum sín á milli, og lætur síðan þá sem eiga fjármagn og hina sem þurfa á því að halda um að taka ákvarðanirnar --- eða hvort hæstv. ráðherra Steingrímur Hermannsson heldur að hann hafi miklu meira vit á þessum málum en allir hinir. Svo einfalt er þetta mál. Við göngum ekki einu sinni svo langt í þessari umræðu að fjalla um þetta. Það sem við biðjum hann um að segja okkur er einfaldlega það, þar sem hann skrifaði með vinstri hendinni undir kjarasamninga og ber ábyrgð á þeim ásamt sinni ríkisstjórn:
Hvað ætlar hann að gera með þeirri hægri þegar að því kemur að bera ábyrgð á afleiðingum sinna eigin verka? Þetta er sáraeinföld spurning. Og svar eins og það að það sé verið að leita allra leiða og að hæstv. forsrh. vonist til þess að hallæri í Noregi leiði til hækkaðs verðs í Evrópu er ekki boðlegt á hinu háa Alþingi. Því skora ég á hæstv. forsrh. að hreinsa nú einu sinni til, skora ég á kjarkmanninn sjálfan að koma í ræðustól og segja skýrt og skorinort hvaða álit hann hefur á þessu öllu saman.
    Hæstv. fjmrh. er ekki hérna þannig að hæstv. forsrh. getur svarað þessu þess vegna. Hæstv. fjmrh. kom hér um daginn þegar hæstv. forsrh. var erlendis og þá þorði hann að gefa út hver væri stefna ríkisstjórnarinnar. Nú er komið að því að spyrja: Þorir hæstv. forsrh. að segja okkur frá því hvað eigi að gerast í þeim málum sem hér eru til umræðu eða ætlar hann að bíða eftir því að hæstv. fjmrh. segi það fyrir hann?