Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Við eyðum nú orðið nánast hverjum mánudegi í það að ræða um efnahagsmál og hið bágborna ástand sem ríkir í atvinnumálum þjóðarinnar. Fyrir okkur sem erum nýir þingmenn er næsta broslegt að heyra fyrrverandi stjórnarþingmenn skora á hæstv. forsrh. að bjarga málum og koma með leið út úr þeim ógöngum sem hv. þm. Sjálfstfl. ásamt fleirum sáu um að koma atvinnulífinu og efnahagsmálum þjóðarinnar í í tíð stjórnar Þorsteins Pálssonar. Það er mjög broslegt að verða vitni að þessum umræðum og ég verð alltaf meira og meira undrandi, sem tiltölulega nýr þingmaður, að fylgjast með þessum deilumálum þingmanna í gömlu flokkunum. Þetta gerir ekkert annað en að skýra enn betur fyrir mér þá staðreynd sem blasir við að gömlu flokkarnir fjórir, Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., ég undanskil engan, hafa sameiginlega komið þjóðinni út í þær ógöngur sem hún er í þessa stundina. Rót hins illa er komin til vegna þeirrar óstjórnar sem þessir fjórir flokkar hafa leitt yfir okkur með alls kyns samsteypustjórnum sem þeir hafa myndað. Ég get ítrekað það einu sinni enn að ég sé ekki hvað hefur gerst við það þótt nokkrum ráðherrum Sjálfstfl. hafi verið skipt út fyrir nokkra ráðherra Alþb., það hefur nánast ekki gerst neitt því ástandið hefur ekki skánað, svo mikið er víst. Þar get ég tekið undir með þeim hv. þm. Sjálfstfl. að ástandið hefur ekki skánað við að skipta út nokkrum hæstv. ráðherrum Sjálfstfl. fyrir nokkra hæstv. ráðherra Alþb. Hins vegar held ég að við sem hér höfum setið síðan þing kom saman eftir kosningarnar 1987 munum vel eftir því að ástandið var ekki björgulegt þá 14 mánuði sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var við völd, svo mikið er víst.
    Hins vegar er það aðalvandamálið, og það er áhyggjuefni mitt og vonandi allra þingmanna sem starfa á hinu háa Alþingi, hvernig komið er fyrir okkur, hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu, hvernig komið er fyrir fólkinu sem býr hér í landinu og hvernig komið er fyrir atvinnulífinu. Ég fæ ekki betur séð en að við séum á einhvers konar sjálfsmorðsbraut sem leiðir okkur til glötunar, sem leiðir okkur til þess þjóðargjaldþrots sem hæstv. forsrh. hefur oft minnst á. Að vísu er það þannig að mjög margir fara þessa sjálfsmorðsferð á fyrsta farrými í miklum lúxus, það er önnur saga. Það er nefnilega mjög athyglisvert að hjá blessuðum ráðuneytunum ríkir lúxus, enda minnist ég þess í tíð fyrri ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar við áramótin 1987--1988 að þar máttum við stjórnarandstöðuþingmennirnir verða vitni að því að útgjöld á vegum ráðuneytanna voru aukin allt frá 70% upp í ríflega 100%. Það er því engin launung á því að á þessari sjálfsmorðsferð okkar fara a.m.k. ráðherrarnir hæstv. og allt liðið í kringum þá, þ.e. hjarðirnar inni í ráðuneytunum, þessa ferð á fyrsta farrými.
    Það eru mjög margir aðilar í þessu þjóðfélagi sem fylgja með í ferðinni á fyrsta farrými. Það er eins og að stór hluti þjóðarinnar virðist hafa borið ágætlega björg úr býtum miðað við þetta ástand en svo eru

aðrir hópar þjóðfélagsins sem bera minna úr býtum og búa nánast við sult og seyru. Því miður er það að verða staðreynd að það búa tvær þjóðir í þessu landi. Því er kannski ekki alveg fráleitt að velta fyrir sér hverjir það eru sem lifa hér sultarlífi. Það er að sjálfsögðu fiskvinnslufólkið, lágtekjufólkið og ekki má gleyma öllu fólkinu sem vinnur lágtekjustörf á höfuðborgarsvæðinu. Það er nefnilega mikill misskilningur að lágtekjuhóparnir séu allir utan höfuðborgarsvæðisins. Ég vildi bara minna hv. þingmenn á það að e.t.v. eiga lágtekjuhóparnir erfiðustu kjörin á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Svo vildi ég bæta við einum hópi enn, það er að vísu ekki fólk, og það eru fyrirtækin í útflutningsframleiðslunni sem lifa sultarlífi.
    Hvað ætlar þessi þjóð að gera? Þessi þjóð er búin að koma sér upp alls kyns lúxuskerfum sem hún stendur engan veginn undir. Það skal ekki agnúast út í það að við höfum byggt upp mjög öflugt og gott velferðarkerfi og við höfum byggt upp mjög gott skóla- og menntakerfi. Skal síst lastað að það skuli hafa tekist. Það verð ég að viðurkenna að þar hafa gömlu flokkarnir sameiginlega staðið að og það er kannski eitt af því besta sem þeir hafa komið um kring. Hins vegar vaknar spurningin hvort þetta fámenna þjóðfélag hér á norðurhjara veraldar hafi efni á þessum lúxuskerfum sem gömlu flokkarnir hafa komið á. Það mun vera stutt í land að hér verði kominn háskóli á svona einum tíu, tuttugu stöðum á landinu og það er væntanlega gert ráð fyrir því að við komum upp óperuhúsum á einum tíu, tuttugu stöðum. Allir vita hvernig heilsugæslukerfið hefur verið, það eru kannski ekki nema 10 km á milli fullkominna heilsugæslustöðva í litlum fámennum sveitarfélögum þar sem sveitarfélögin hafa ekki einu sinni efni á því að borga ræstingarkostnaðinn í þessum lúxusheilsugæslustöðvum. Óráðsían í þessum kerfum er svo yfirgengileg að það skal engan undra þótt þjóðfélagið í heild sinni eigi erfitt með að láta enda ná saman. Þannig væri e.t.v. best að við færum að taka okkur tak á hinu háa Alþingi og reyna sameiginlega að finna leiðir til þess að ráðast að höfuðmeinsemdinni sem er sú, að þjóðin öll, hæstv. ráðherrarnir eru í broddi fylkingar og að mörgu leyti atvinnuvegirnir og atvinnufyrirtækin, er á þessari sjálfsmorðsbraut á lúxusfarrými óráðsíunnar.
    Svo ég víki að efni þessarar utandagskrárumræðu. Það eru fyrst og fremst ummæli hæstv. forsrh. á svokölluðum Kópavogsfundi, en það er nú eins og öllum er kunnugt sem hafa kynnt sér Íslandssöguna að Kópavogsfundir hafa verið mjög afdrifaríkir í sögu þjóðarinnar. Svo virðist sem hæstv. forsrh. sé kominn í sama ham og hann var í um miðbik árs 1988 þegar hann var nánast kominn í stjórnarandstöðu í þeirri stjórn þar sem hann sat sem virðulegur utanrrh. Það er að vísu orðið hálfraunalegt að horfa upp á það ef þetta ætlar að enda á sama hátt, þ.e. að hæstv. forsrh. er nánast í bullandi stjórnarandstöðu á fundum utan hins háa Alþingis og talar gegn þeirri stjórn sem hann sjálfur leiðir. Það er raunaleg saga ef það ætlar að

endurtaka sig.
    Ég get ekki látið hjá líða að rifja upp aðdragandann að stjórnarslitunum í september 1988, en ástandið nú og atburðarásin er óneitanlega farin að minna allverulega á þá atburði er þá gerðust. Eins og virðist vera orðin föst regla í öllum þeim samsteypustjórnum sem gömlu flokkarnir mynda þá endar þetta á einn veg, allt er komið í kalda kol og hefst þá upp mikið missætti og hæstv. ráðherrarnir koma sér ekki saman um eitt eða neitt og finna engar leiðir út úr ógöngunum. Ég minnist þess að sumarið 1988 var gripið til þess ráðs af fyrrv. hæstv. forsrh., Þorsteini Pálssyni, að kalla saman svokallaða forstjóranefnd og formaður hennar, bjargvætturinn, varð að þjóðhetju um skeið því að fólkið í landinu gerði sér grein fyrir að það væri ekki hjá hæstv. ráðherrum sem hægt væri að líta eftir leiðum fyrir þjóðina út úr ógöngunum heldur væri meiri von til þess að einhverjir menn úti í bæ, þ.e. menn úr atvinnulífinu, kynnu kannski að koma með leiðina. Ég man vel að sú leið sem þá var lögð til, svokölluð niðurfærsluleið, var mjög umdeild og ég og mínir flokksfélagar vorum sannfærðir um að hún væri ekki fær. Það er hins vegar margt sem á milli má sjá að farin sé sú leið sem nú er verið að fara, þ.e. að ríkisvaldið gangi á undan í því að gera verðbólgusamninga og ætla síðan atvinnulífinu að apa þá eftir. Vitandi að það atvinnulíf, sem er ætlað að gera slíka verðbólgusamninga, er voru gerðir við opinbera starfsmenn, er að meginhluta til rekið með bullandi tapi. Samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar hefur komið fram að muni atvinnulífið þurfa að gera svipaða samninga og gerðir voru við opinbera starfsmenn verði t.d. veiðar og fiskvinnsla reknar með um 10% tapi. Ég vildi því gjarnan spyrja hæstv. forsrh.: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að treysta rekstrargrundvöll fiskvinnslufyrirtækja, útgerðarfyrirtækja og útflutningsframleiðslunnar yfirleitt, og þar vil ég síst af öllu undanskilja iðnaðarfyrirtækin, ef þessum atvinnurekstri er ætlað að gera álíka samninga og gerðir voru nú við opinbera starfsmenn?
    Þá langar mig til að rifja upp það sem við lögðum til þegar við gengum til viðræðna við núverandi stjórnarflokka í janúar sl. Við bentum á að ef hægt væri að finna einhverja leið til að bjarga þessu þjóðfélagi, þ.e. bjarga atvinnulífinu frá því þjóðargjaldþroti sem virðist blasa við, yrði að finna einhverjar leiðir til þess að koma á kjarasátt í landinu. Við lögðum til að inn í viðræðurnar yrðu dregnir forsvarsmenn launþegasamtakanna og það yrði reynt til þrautar að sjá hvort ekki mætti ná þó ekki væri nema hálfri niðurfærsluleið, þ.e. að engar krónutöluhækkanir mundu eiga sér stað á árinu en í stað þess yrðu skattar lækkaðir á móti þannig að það kaupmáttarstig sem hægt væri að semja um mundi nást með þeim hætti. Þar settum við efstan á blað sjálfan matarskattinn. Við lögðum til að matarskatturinn yrði að verulegu leyti felldur niður en vorum reiðubúnir til þess að sætta okkur við að

söluskattur á hefðbundnum innlendum matvælum og innfluttu grænmeti og ávöxtum yrði færður niður úr 25% í 12%, sem þýddi að kaupmáttur mundi aukast sem næmi 2*y1/2*y%. Þá bentum við á að sú leið væri vel fær að hækka skattleysismörk og hugsanlega auka skattbyrði á hærri tekjum. Eins mætti skoða fleiri möguleika til þess að koma til móts við launþegana í landinu, einkum þó lágtekjufólkið, til að gera eina allsherjar kjarasátt um það að engar krónutöluhækkanir á launum yrðu á þessu ári. Með þessu móti hefði verið hægt að ná niður raungengi krónunnar. Við gerðum okkur líka grein fyrir því í janúar að það yrði ekki komist hjá því að fella gengi krónunnar. Þess vegna hlaut að þurfa að koma ein allsherjarlausn, þ.e. það þurfti að reikna dæmið í heild sinni, hvernig væri hægt að lækka skatta til þess að ná því kaupmáttarstigi sem hægt væri að sættast á við fulltrúa og forsvarsmenn launþegahreyfingarinnar, að því gefnu að það yrði að fella gengið um hugsanlega 10--15% til að koma útflutningsframleiðslunni í gang. Á þetta var ekkert hlustað og því endaði þetta að sjálfsögðu með því að við slitum þessum viðræðum, enda höfum við engan áhuga á því og ég lýsi því hér yfir, fyrir hönd míns flokks, að við höfum engan áhuga á því að taka þátt í ríkisstjórn sem ekkert vill gera, sem ætlar bara að halda áfram þeirri moðsuðu sem nú er við lýði, þ.e. láta bara reka á reiðanum og svo getur þetta allt farið einhvern veginn til fjandans. Við höfum engan áhuga á því að vera tengdir slíkri ríkisstjórn.
    Ég held að við ættum kannski að tala eilítið minna og reyna að vinna meira að því hvernig hægt er að finna einhverja leið út úr þessum ógöngum. Svo mikið er víst að þetta gengur einfaldlega ekki lengur, að vera á þessari
sjálfsmorðsbraut sem við höfum verið á undanfarið, ég mundi segja allar götur frá kosningum 1987.
    Það er að verða þannig að ungt fólk er farið að hugsa sér til hreyfings. Það er farið að flýja þetta land því að það spyr: Hvernig í ósköpunum er ætlast til að við höfum áhuga á því að búa í slíku þjóðfélagi sem þessu? Enda hefur mér verið tjáð að nú séu langar biðraðir hjá öllum sendiráðum norrænna þjóða í Reykjavík þar sem ungt fólk er með fyrirspurnir um atvinnumöguleika í nágrannalöndunum okkar á Norðurlöndunum. Því miður er margt sem bendir til þess að við séum að sigla inn í ekki ósvipað ástand og ríkti á krepputímabilinu 1967--1969 þegar mjög stór hluti vinnufærra manna yfirgaf landið og leitaði eftir vinnu á hinum Norðurlöndunum og það væri sorglegt ef það ætti eftir að endurtaka sig. Því miður veit ég ekki hvort búast má við að nokkurra lausna sé að vænta hjá hæstv. ríkisstjórn og jafnvel þó svo að hún yrði stokkuð upp og einhverjir aðrir flokkar kæmu þar inn er því miður sú sorglega staðreynd ljós að það eru allar líkur á því að ekkert frekar jákvætt mundi gerast við það. Ég veit ekki einu sinni hvort nýjar alþingiskosningar mundu skila nokkrum árangri í þessa veru. Það virðist því miður vera svo að stjórnmálamenn úr gömlu flokkunum hafa gjörsamlega

misst stjórn á hlutunum. Þeir ráða í raun og veru ekkert við það verkefni sem er að stjórna þesari 250 þúsund manna þjóð í Norður-Atlantshafinu.