Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Hér lauk máli sínu rétt í þessu annar af tveimur talsmönnum ríkisstjórnarinnar hér í kvöld. Það var aðeins eitt sem var athyglivert í ræðu hv. þm. sem raunar var líka áberandi í ræðu hæstv. forsrh. og það var þessi dæmalausa háværa æpandi þögn um þau meginatriði sem spurt var um hér í kvöld og hafa gengið sem rauður þráður í gegnum umræðu allra annarra hv. þm. sem talað hafa í þessari umræðu.
    Kjarni málsins er sá að málsvörn ríkisstjórnarinnar í þessum umræðum hefur verið þögnin og tilraun til þess að breiða yfir veikan málstað með því að fara sem köttur í kringum heitan graut í hvert sinn sem komið var að kjarna málsins eða tilraun til þess að drepa málinu á dreif og komast hjá því að ræða kjarna þess. Þetta er gömul aðferð í málflutningi, þetta er gömul aðferð þegar menn skiptast á skoðunum og stundum áhrifarík aðferð. En ég held að þessi þögn talsmanna ríkisstjórnarinnar hér í kvöld hafi verið svo hávær að hún hafi ekki gert annað en það að vekja athygli á þeim rýra málstað, því rýra haldreipi sem stjórnarstefna ríkisstjórnarinnar er í efnahags- og atvinnumálum.
    Hv. 2. þm. Vestf. Ólafur Þórðarson nefndi það að hér hefði fyrr í vetur verið komist að samkomulagi um fiskverð sem fól í sér meðaltalshækkun upp á um 8*y1/2*y%. Ég vil benda á það að næstliðið 1--1*y1/2*y ár hafði fiskverð í landinu nær ekkert hækkað. Fiskverðsákvörðunin í vetur var tilraun við ákaflega þröng skilyrði til þess að reyna að komast að sátt, sátt sem vissulega kostaði fiskvinnsluna útgjöld en fól jafnframt í sér ákveðin fyrirheit og ákveðnar aðgerðir til þess að mæta þessu og var mat manna á þessum tíma að væri hin skynsamlegasta ákvörðun miðað við allar forsendur sem menn höfðu fyrir sér. Þess vegna er aldeilis fráleitt að halda því fram að fiskverðsákvörðunin í vetur sé á einhvern hátt vísbending eða stefnumörkun um kaupgjaldsmál síðar á árinu. Öðru nær var fiskverðshækkunin aðeins veikburða tilraun til þess að mæta þeim verðlags- og kaupgjaldshækkunum sem orðið höfðu í þjóðfélaginu almennt. Þetta er það sem máli skiptir.
    Hitt er það að það var á margan hátt fróðlegt að hlýða á upplestur hv. 2. þm. Vestf. úr ræðum formanna Sjálfstfl. og vonandi er þetta vísbending um það sem koma skal að hv. þm. lesi með velþóknun úr ræðum formanna Sjálfstfl. þegar fram í sækir. Ég saknaði bara eins í þessum annars ágæta upplestri og það var upplestur úr hans eigin ræðum, ræðunum frá því í fyrra, lýsingunum á vandamálum atvinnulífsins, lýsingunum á viðskiptahallanum, lýsingunum á gegndarlausum erlendum lántökum, lýsingunum á ríkissjóðshallanum sem allir sjá að er fyrirsjáanlegur á þessu ári o.s.frv. Það skorti vissulega í ræðu hv. 2. þm. Vestf.
    Ræða hæstv. forsrh. var eins og allir heyrðu að mestu leyti endursögn úr ræðu sem hann flutti í Kópavogi. Ég býst við því að þessi endursögn hafi verið tilraun til þess að útskýra blaða- og

fjölmiðlafréttir um síðustu helgi af þessari ræðu sem vissulega vakti töluverða athygli. Þrátt fyrir að upplesturinn hafi verið æðilangur og endursögnin töluvert ítarleg, þá var ekki hægt að segja það að endursögnin hafi í einhverju skýrt málflutning ríkisstjórnarinnar. Öðru nær. Ég hygg að þessi endursögn hafi verið álíka góð tilraun til þess eins og að fá véfréttina í Delfí til slíkrar endursagnar. Sannleikurinn er sá að þrátt fyrir þessa löngu umræðu í dag og kvöld og þrátt fyrir að umræða af svipuðu tilefni hafi átt sér stað fyrr í síðustu viku, þá er alveg jafnóljóst hver stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er gagnvart höfuðatvinnuvegum þjóðarinnar. Menn eru alveg jafnnær eða jafnfjær því að vita svör hæstv. ríkisstjórnar við áleitnum spurningum fólks og forráðamanna fyrirtækja við því hvað muni gerast á næstu dögum, vikum og mánuðum.
    Á að skapa grundvöll til þess að atvinnulífið í landinu geti greitt sambærilegar kauphækkanir og BSRB samdi um við ríkisvaldið? Er kannski forsrh. sammála þeim orðum fjmrh. sem birtust í Morgunblaðinu laugardaginn 8. apríl, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þessi kjarasamningur er í samræmi við þau markmið sem við settum okkur í búskap íslenska ríkisins. Hann er þess vegna fullkomlega ábyrgur út frá því fyrirtæki, ef ég má nota það orð, sem mér og ríkisstjórninni er ætlað að reka. Nú er það verkefni hinna, sem eru á hinum frjálsa vinnumarkaði, að gera frjálsa kjarasamninga sem eru í sams konar samræmi við þá ábyrgð sem þeir eiga að gæta í sínum fyrirtækjum,,, sagði Ólafur Ragnar Grímsson.
    Er forsrh. sammála þessari skoðun fjmrh.? Er forsrh. reiðubúinn til þess að endurtaka þessi orð hæstv. fjmrh. og gera þau að sínum, beina líka þessum skilaboðum eða frýjunarorðum til fólksins í atvinnulífinu í landinu, til forráðamanna þeirra fyrirtækja sem nú eru að birta ársreikninga sína með jafnvel tugum prósenta tapi? Bara þessa helgi voru birtar fréttir í útvarpinu af uppgjöri tveggja mjög vel rekinna sjávarútvegsfyrirtækja sem hvort um sig sýndi á annað hundrað millj. kr. tap. Þó ber að játa að annað þessara fyrirtækja er fyrirtæki sem hefur verkað töluvert mikinn saltfisk og ætti þess vegna miðað við allar þær rekstrarlegu forsendur sem hafa ríkt í þeirri grein að skila örlítið betri afkomu. En þarna held ég að sé einfaldlega komin í
hnotskurn staða dreifbýlisatvinnuveganna, sjávarútvegsins, dreifbýlisverslunarinnr og landbúnaðarins, komin þarna í ljós í hnotskurn í uppgjöri þessara tveggja ágætu og vel reknu fyrirtækja.
    Það fer ekkert á milli mála að þegar núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð gerðu ýmsir menn sér miklar vonir. Menn höfðu gert sér það í hugarlund í framhaldi af stóryrtum yfirlýsingum margra fylgismanna ríkisstjórnarinnar að nú yrðu á alger stakkaskipti í rekstrarskilyrðum sjávarútvegsins, útflutningsgreinanna og samkeppnisiðnaðarins í landinu. Það var ástæða til þess að ætla að það yrðu þarna stakkaskipti og mér er mætavel kunnugt um það

að mjög margir, hvar í stjórnmálaflokki sem þeir stóðu, bjuggust við því að menn yrðu varir við það að ný stjórnarstefna hefði verið leidd til öndvegis í landinu. Menn voru þolinmóðir í byrjun, bjuggust við einhverjum tíma sem núv. ríkisstjórn þyrfti til að skapa þessi skilyrði. En árangurinn hefur látið á sér standa. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem gert hefur verið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það hafi haft að segja að fella gengið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að skuldbreytingar og sumir kalla skuldskeytingar, þar á meðal sumir góðir vinir hæstv. forsrh. skuldskeytingaráform, og verk ríkisstjórnarinnar hafi ekki haft eitthvað að segja. Vitaskuld hefur það haft að segja og vitaskuld er þetta ákveðinn grunnur, skuldbreytingin, ef mönnum síðan þóknast að byggja ofan á hann. En skuldbreytingin ein og sér nægir ekki. Hún nægir til þess að gefa fyrirtækjunum ákveðið andrými, en ef rekstrarskilyrðin sjálf breytast síðan ekki, þá sækir óðara í sama farið. Skuldbreytingin getur verið nokkur grundvöllur, en hún er ákaflega þýðingarlítil ef tapreksturinn heldur áfram. Því hafa menn kynnst í gegnum árin í sjávarútvegi að skuldbreytingarnar eru ótrúlega fljótar að étast upp í taprekstri nokkurra ára.
    Það er einmitt þetta, þessi vonbrigði út af því hve ráðstafanirnar hafa reynst rýrar í roðinu og ótrúlega seinar að skila árangri, það eru þessi vonbrigði sem eru nú að koma fram hjá æðimörgum fyrrverandi stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar.
    Og það er ekki tilviljun að sá kurr fer vaxandi sem hefur verið að myndast meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Og það er athyglivert að þegar eru farin að sjást þess dæmi að hollir og dyggir framsóknarmenn treysta sér ekki lengur til þess að starfa undir merkjum Framsfl. vegna þess að þeir sjá ekki að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem Framsfl. veitir pólitíska forustu, að sú efnahagsstefna komi heim og saman við hagsmuni þeirra og þeirra byggðarlaga. Það eru því miður til dæmi af mönnum með þessar brostnu vonir sem trúðu einlæglega þessari einfölduðu heimsmynd sem dregin var upp við starfslok síðustu ríkisstjórnar, sem sé þeirri að Sjálfstfl. væri þröskuldur í vegi þess að tekið væri með ábyrgð og festu á vanda útflutningsgreinanna og samkeppnisiðnaðarins. Þeir voru til sem trúðu þessari einfölduðu heimsmynd.
    En nú er reynslan einfaldlega að leiða annað í ljós. Það hefur ekki komið fram sannfærandi efnahagsstefna sem gæti gefið þessum mönnum vonir. Því hefur farið svo að jafnvel einlægustu framsóknarmenn treysta sér ekki lengur til þess að veita þessari ríkisstjórn lið né jafnvel flokki sínum sem þeir þó hafa ævinlega fylgt.
    Ég verð að segja það eins og er að það er ákaflega lítil huggun í því fólgin fyrir fólkið sem starfar í framleiðsluatvinnuvegunum að hlýða á vonir hæstv. forsrh. um það að fiskverð í Bretlandi og í Evrópu kunni að hækka. Menn gera ekki út á vonirnar lengi. Menn greiða ekki launin út á vonirnar lengi og menn geta ekki lifað endalaust í voninni. Ekki síst vegna þess að við vitum að nú þegar eru ýmsar blikur á

lofti á öðrum mjög stórum fiskmörkuðum okkar. Ég leyfi mér að vitna til ummæla ekki ómerkari manns en Magnúsar Friðgeirssonar, framkvæmdastjóra Iceland Seafood Corporation í Bandaríkjunum, sem er sölufyrirtæki Sambandsins, en hann segir svo orðrétt í Tímanum laugardaginn 15. apríl 1989, með leyfi forseta:
    ,,,,Það er heldur dauft hljóðið í sjávarafurðamönnum almennt í landinu. Menn eru að koma út úr mjög erfiðu ári, sem 1988 var og menn sjá ekki verulega uppsveiflu á árinu 1989 neyslulega séð enn sem komið er,,, sagði Magnús Friðgeirsson. Hann sagði að ótrúlega mikil neikvæð umræða hefði verið um sjávarafurðir upp á síðkastið þar sem umræða um mengunarmál hefði átt stóran hluta að. Bæði vegna olíuslyssins við Alaska og einnig vegna þess að kastað hefur verið notuðum áhöldum og umbúðum frá sjúkrahúsum í hafið sem væri sums staðar farið að reka upp á strendur. ,,Þetta hefur haft gífurlega mikil áhrif á fiskneysluna í Bandaríkjunum,,, sagði Magnús.``
    Og enn er vitnað til hans og þar segir enn fremur orðrétt í Tímanum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Magnús sagði aðspurður að út af fyrir sig væri hægt að selja meira af þorskflökum en þá væri það spurningin um verðlag. Það verðlag sem við þurfum að fá fyrir okkar íslensku framleiðendur er ekki fáanlegt á markaðnum, nema kannski í það litlu magni að það leysir ekki okkar þörf fyrir að selja.``
    Þetta er sá veruleiki sem blasir við okkar fisksölumönnum á erfiðasta
markaði í heimi, þeim markaði sem við í gegnum tíðina höfum reitt okkur á og hefur ævinlega, þegar til lengri tíma er litið, skilað okkur mestum árangri. Þetta er sá markaður sem við megum síst við að tapa niður, enda sýnir reynslan okkur það að ef halda á uppi skynsamlegu markaðsstarfi í sjávarútvegi þá þýðir ekki að leggja öll sín egg í eina körfu. Það er þess vegna ekki neitt svar til íslensks sjávarútvegs að segja sem svo: Nú skuluð þið bara fara að beina ykkar framleiðslu inn á Evrópumarkað því þar er einhverrar fiskverðshækkunar von. Fyrir nú utan það að reynslan hlýtur náttúrlega að kenna okkur það að ef við dengjum stórauknu framboði af fiski inn á Evrópumarkað þá getur afleiðingin ekki orðið nema ein, þ.e. fiskverðslækkun. Ég held að við ættum að hafa í fersku minni dæmið frá 1981 þegar illa stóð á í íslenskum sjávarútvegi, íslenskum frystiiðnaði. Ég held að menn muni ekki gleyma því á Vestfjörðum ráðleggingunum sem þeir fengu þá um það að verka nú bara í skreið. Þar væri afraksturinn að finna. Skömmu síðar hrundi skreiðarmarkaðurinn og skreiðarframleiðendur í landinu stóðu uppi með óleystan vandann og þrátt fyrir endalaus fyrirheit, endalaus fyrirheit um að sá vandi yrði leystur þá stendur hann jafnóleystur enn. Fyrirtækin í landinu hafa orðið að bera skaðann af því og það er einn hluti þess vanda sem við er að glíma í dag.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að við ættum að gjalda varhug við þeim málflutningi að treysta um of á verðhækkanir á einum markaði. Það er ekki góð

sölumennska þegar til lengdar lætur.
    Það mætti hafa ákaflega mörg orð um þá stöðu sem við erum nú í, þá stöðu sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og þá greinilegu sundrungu sem fram kemur í málflutningi einstakra ráðherra og einstakra talsmanna hennar. Ég skil það í sjálfu sér vel að talsmenn Alþb. hafi kosið að vera sem fjærstir þessari umræðu. Þeirra sneypa er svo algjör eftir að hafa talað með þjósti í garð íslensks launafólks, talað í þeim dúr að íslenskir launamenn á almennum vinnumarkaði mættu éta það sem úti frysi. Ég veit að út um allar byggðir landsins er þessum ummælum mætt með viðeigandi hætti og verður mætt með viðeigandi hætti. Ummæli hæstv. fjmrh. lýsa afstöðu hans og verða lengi í minnum höfð. Og vonandi berast þau sem víðast sem varnaðarorð fyrir íslenska þjóð um þann hugsunarhátt sem ríkir nú í Alþb., flokki Lúðvíks Jósepssonar.
    Ég vil að lokum sérstaklega vara við þeirri tilheigingu sem mér hefur fundist koma fram og hefur raunverulega komið fram hjá hæstv. forsrh., þegar hann hefur sagt sem svo að það sé ástæða til þess að bregðast nú með sérstökum hætti, með sérstakri aukningu ríkisútgjalda, með sérstakri þensluaukningu við þeim vanda sem upp er kominn í atvinnumálum til að mynda hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil minna á það að umræðan allt fram á þetta ár í efnahags- og atvinnumálum okkar hefur snúist um það hvernig leysa bæri þann vanda sem skapaðist í útflutnings- og samkeppnisgreinum vegna þenslunnar í landinu. Vegna þess að einstakar atvinnugreinar gætu í krafti þenslunnar yfirboðið kaupgjald og verðlag, velt kostnaðaraukningu sinni út í verðlagið og yfirboðið þessar atvinnugreinar.
    Ég óttast það að ef nú á að fara að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana til þess að hleypa af stað þenslu á ný þá verði afleiðingin sú að við stöndum aftur frammi fyrir þeim vanda sem við töldum verstan í fyrra, sem er sá að hér fari af stað fölsk þensla sem komi fyrr eða síðar efnahags- og atvinnulífinu í koll. Auðvitað þarf að taka á því vandamáli sem er atvinnuleysið sem nú þegar er farið að skjóta upp kollinum í landinu og er orðið miklu meira og alvarlegra en við höfum séð í langan tíma. Það verður hins vegar ekki gert með neinum þensluaðgerðum. Það verður gert með almennum efnahagsaðgerðum sem fela það í sér að skapa hér jákvætt rekstrarumhverfi, þannig að hér verði jafnvægi á atvinnumarkaðnum og jafnvægi milli atvinnugreina. Það er engin lausn á vanda þess fólks sem nú gengur atvinnulaust að skapa á ný eitthvert misvægi á milli atvinnugreina og misvægi á milli landshluta. Það er ekki nein lausn. En ég óttast að sú lausn, sem svo er kölluð, mundi geta af sér fleiri vandamál og yrði til þess að við stæðum frammi fyrir sömu erfiðleikum og við vorum að glíma við á síðasta ári og olli svo alvarlegum búsifjum í rekstri undirstöðuatvinnugreinanna.
    Virðulegi forseti. Ég og fleiri höfðum vænst þess að umræðan hér í kvöld gæti greitt úr spurningum

sem hafa verið ofarlega á baugi síðustu daga, ekki bara meðal stjórnmálamanna heldur meðal alls almennings. Þeirri spurningu hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggist bregðast við aðsteðjandi vanda. Í fyrsta lagi þeim vanda sem við er að glíma nú þegar og er óleystur. Í öðru lagi þeim vanda sem fyrirsjáanlegt er að skapist þegar lýkur greiðslu úr Verðjöfnunarsjóðnum og þeim tímabundna uppsafnaða söluskatti sem nú er verið að greiða út. Enn fremur höfðum við vænst þess að í þessari umræðu kæmi fram með hvaða hætti ríkisstjórnin hygðist bregðast við þeirri nýju stöðu sem komin er upp í kjaramálum og með hvaða hætti ríkisstjórnin, ef hún þá á annað borð hygðist grípa til þess að auðvelda atvinnulífinu í landinu að bjóða fram sambærilegar kjarabætur og opinberir starfsmenn eru nú að fá.
    Ég vænti þess að þegar hæstv. forsrh. tekur til máls hér á eftir þá mæti
hann ekki til leiks með þá háværu þögn sem einkenndi allt of mikið ræðu hans hér áðan, heldur komi fram skýr svör við þessum áleitnu spurningum sem þjóðin bíður í ofvæni eftir svörum við.