Ástandið í efnahags- og kjaramálum
Mánudaginn 17. apríl 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Miklir mælskumenn eru það sem hér hafa talað í dag og kvöld og þykir mér mikil synd að alþjóð skuli ekki hafa fengið að hlusta á þessar ræður eða þéttsetinn salur Alþingis og ég get jafnframt sagt að mikil er gæfa mín að hafa fengið að hlusta á þetta í nokkuð marga klukkutíma. Að vísu er það svo að ég hef heyrt þessar ræður líklega 10 sinnum ef ekki oftar á þessu Alþingi. Ég varð ekki var við að nokkur skapaður hlutur nýr kæmi fram. Þess er krafist að ég lýsi hér yfir úr ræðustól að gengið skuli fellt. Menn hafa rakið það hér að engar aðgerðir komi að nokkru gagni, hvað sem gert er og svo er þessu venjulega lokið með því að segja: Við krefjumst þess að forsrh. lýsi því yfir hvað skuli gert eða með öðrum orðum að gengið skuli fellt.
    Ég mun hvorki lýsa hér yfir gengisfellingu né óhreyfanlegu gengi. Hv. síðasti ræðumaður hélt að vísu genginu föstu hátt í ár og sumir hafa sagt að þá hafi nú fyrst keyrt um þverbak í 20% verðbólgu. Ég mun hvorki lýsa þessu yfir hér né við formann BSRB. Gengi er hlutur sem hver ríkisstjórn hlýtur að meta á hverri stund eftir því sem staðan er og ég held að hv. þm. sem hafa nú stundum borið ábyrgð hljóti að skilja það mætavel að yfirlýsing um gengisfellingu á ekki við á þessari stundu.
    Ég get upplýst hv. þm. um það að ég hef átt og á enn í ágætum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, bæði vinnuveitenda megin og launþega megin. Sömuleiðis hafa verið fundir með fulltrúum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa lagt fram sín gögn og sínar hugmyndir um þá hluti sem mætti gera til að stuðla að kjarasamningum. Og ég geri fastlega ráð fyrir að þær viðræður haldi áfram. Það hefur verið hlé á þeim núna í nokkra daga en ég átti viðræður sl. laugardag við nokkra fulltrúa vinnuveitenda og tjáði þeim að að sjálfsögðu væri ríkisstjórnin reiðubúin til að fjalla um þau mál þegar dregur að því að þeir geri kjarasamninga. Ríkisstjórnin gerir að sjálfsögðu ekki kjarasamninga fyrir aðila vinnumarkaðarins. Það gera þeir sjálfir. Þeir gera sína kjarasamninga. Það hafa þeir sem betur fer gert lengi. Þeir hafa hins vegar iðulega komið til ríkisvaldsins, bæði þessarar ríkisstjórnar og margra fyrri, lagt þar spilin á borðið og farið fram á vissa hluti og það má vel vera að þeir geri það nú. Þeir hafa ekki gert það enn, en það má vel vera að þeir geri það. Við eigum því eitt sameiginlegt, ég og hv. síðasti ræðumaður, við höfum báðir orðið fyrir miklum vonbrigðum. Ég varð ekki var við neitt nýtt sem kom fram í þessum snjöllu ræðum. Ég varð ekki var við neinar spurningar sem slíkar nema þessa: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? eftir formála sem hefur falið í sér að ekkert kæmi til greina nema gengisfelling. Nú þykir mér það dálítið einkennilegt þegar búið er að fella gengið um 13,3% þegar hvað er reiknað ofan á annað frá því í september og það þykir nú töluverð gengisfelling. Engu að síður skilst mér á hv. þm. Kristni Péturssyni, sem hér talaði áðan, að staða útflutningsatvinnuveganna væri engu betri nú en hún

var þegar þessi ríkisstjórn tók við. Hefur þá yfir 13% gengisfelling engin áhrif haft til bóta? Fróðlegt væri út af fyrir sig að vita það.
    Hér er að vísu viðurkennt að skuldbreytingin hafi verið þörf þó að hv. þm. sem hér talaði áðan, og hefur kannski okkar mesta reynslu í þessari grein, leyfði sér að kalla þá skuldbreytingu, sem hann sjálfur sótti um og fékk fyrir sitt fyrirtæki, skuldskeytingu. Ég kann heldur illa við slíka uppnefningu á því sem er verið að gera. Hv. 1. þm. Suðurl. viðurkenndi að hér hefði verið um nauðsynlega aðgerð að ræða þótt öðruvísi mætti að henni standa. En sem betur fer hefur þetta lagfært stöðu frystihúsanna mjög.
    Hv. þm. hér áðan, ég man ekki hver það var, minntist á tvö frystihús sem nýlega hefðu verið í fréttum og hefðu sýnt mikinn halla á síðasta ári. Ef þarna er um að ræða þau tvö frystihús sem ég heyrði skýrt frá í fréttum, þá kom fram í viðtali við forstöðumenn þessara frystihúsa að hallinn var nokkurn veginn upp á krónu sá sami og fjármagnskostnaður var meiri á síðasta ári en á árinu áður. Þ.e. gengisuppfærsla og vextir höfðu hækkað svona gífurlega mikið og miklu meira heldur en tekjufærslan. Maður spyr sjálfan sig þegar maður heyrir þær lýsingar í raun hvað er að marka slíkan efnahagsreikning? Ég er ekki að gera lítið úr rekstrarerfiðleika þessara fyrirtækja. Langt frá því. Mér er ljóst að hann var mjög mikill á síðasta ári. Ég veit að hv. þm. veit það að framlegð hjá fyrirtækjum í ár t.d. er stórum betri en hún var á síðasta ári og ber það vitanlega merki um nokkurn bata vegna þeirra gengisbreytinga m.a. og fleiri aðgerða sem til hefur verið gripið.
    Ég held að menn eigi að fara varlega í það að krefjast eingöngu gengisbreytinga, meiri gengisuppfærslu, meiri vaxta. Ég held að það þurfi miklu fleiri og víðtækari aðgerðir með ef gengisbreytingar eiga að koma að notum fyrir þau fyrirtæki sem eru með svona miklar skuldir og þar sem skuldirnar færast upp á þennan máta.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson tók upp sína gömlu plötu að verja frjálshyggjuna. Ég vil aðeins segja við hv. þm. að það er mikill munur á frjálshyggju og frjálsræði, mjög mikill munur. ( FrS: Hver er munurinn?) Og hv. þm. hefur aftur og aftur krafist þess að fá að vita hvers vegna frjálshyggjan sé ekki jafngóð
hér og í Evrópulöndunum. Ég skal aðeins nefna eitt atriði --- eða reyndar væri fróðlegt að vita það frá hv. þm.: Getur hv. þm. nefnt mér nokkurt land þar sem frjálshyggjan er og þar sem verðtryggt er fjármagn? Getur hv. þm. nefnt mér nokkurt einasta land þar sem það er gert? Ég held að það út af fyrir sig eyðileggi það frjálsræði sem hér ríkir á fjármagnsmarkaðnum. Öll lönd sem ég hef kynnst eru með strangar reglur um t.d. meðferð greiðslukorta. Hér eru engar reglur til um slíkt og fjölmargt fleira af þessu tagi mætti nefna. Í öllum þeim löndum sem ég hef fengið tölur frá kemur t.d. fram að vaxtamunur í bankakerfinu er miklu, miklu meiri hér en nokkurs staðar annars

staðar, eða með öðrum orðum meira óhagræði í bankakerfinu en annars staðar tíðkast. Allt er þetta til þess að draga mjög úr styrk og hæfni í raun og veru bankakerfisins til þess að standa undir þeim skyldum sem því er ætlað.
    Hv. þm. Kristinn Pétursson spurði m.a. um tillögu Seðlabankans í efnahagsmálum. Þær eru ekki til sem ég hef séð --- hann er nú víst ekki hér inni, hv. þm. --- Því miður. Þær hef ég ekki séð. Ég skal ekki fara lengra út í það. Eins og ég sagði áðan voru ekki neinar slíkar markvissar spurningar heldur fyrst og fremst endurtekning á því sem hér hefur verið talað um í allan vetur: Fellið gengið, fellið gengið. Hvað ætlar ríkisstjórnin að fella gengið mikið?
    Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir kom hins vegar með nokkrar skriflegar spurningar sem ég skal leitast við að svara eins og ég get með nokkuð litlum fyrirvara. En spurningarnar eru m.a. þessar: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að ná tökum á fjármagnsmarkaðnum? Hv. Alþingi hefur aðstoðað ríkisstjórnina við það og m.a. styrkt verulega 9. gr. seðlabankalaganna sem heimilar að ákveða hóflega raunvexti. Þingið hefur líka breytt 8. gr. seðlabankalaganna ef ég man rétt, ég held að það hafi verið 8. gr. sem gerir fært að koma miklu fremur böndum á verðbréfamarkaðinn heldur en áður var o.s.frv., eins og rætt hefur verið hér á mörgum fundum á hinu háa Alþingi. Þetta gerir ríkisstjórninni auðveldara, þó aldrei skuli ég segja að það sé auðvelt, að ná tökum á fjármagnsmarkaðnum. Ríkisstjórnin mun einnig beita ríkisskuldabréfum og ríkislántökum til þess að fá lækkun vaxta. Og ríkisstjórnin á í viðræðum við lífeyrissjóðina sem hafa satt að segja tekið því allvel að standa að lækkun raunvaxta.
    Hv. þm. spyr einnig: Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin ná fram hagræðingu í bankakerfinu? Þetta hélt ég að væri nú öllum kunnugt. Það er margsinnis tilkynnt að ríkisstjórnin eða viðskrh. vinnur að því að ná sameiningu Útvegsbankans og einkabankanna og hefur sérstaklega í því sambandi verið rætt um sameiningu Útvegsbankans, Verslunarbankans og Alþýðubankans. Viðskrh. hefur tjáð ríkisstjórninni að hann telji að úrslit muni fást í þessu máli í þessum mánuði.
    Eru fyrirhugaðar fleiri aðgerðir en lækkun vaxta af hagræðingu bankakerfisins og hvers konar hagræðingu á hann við? Svo kemur áfram: Hvaða áform um aðrar hagræðingar eru uppi? Ef þar er átt við bankakerfið, þá vil ég vekja athygli á því að bankarnir eru undir sjálfstæðri stjórn og með því að lækka útlánsvexti hljóta bankarnir að leita leiða til að draga úr sínum vaxtamun auk þess sem innlánsvextir fara væntanlega einnig lækkandi eins og ég reyndar kom aðeins inn á í ræðu minni hér í dag. Og ég vek athygli á því að a.m.k. einn banki, þ.e. Landsbankanum, hefur valið þá leið að fá erlenda ráðgjafa til þess að ráðleggja um hagræðingu í bankanum. Þetta hefur af sumum verið gagnrýnt. Það geri ég alls ekki. Ég tel þetta mjög virðingarverða viðleitni til þess að lagfæra rekstur þess banka og ég held að þetta geti orðið afar mikilvægt.

Ég hygg að það kunni að sannast að glöggt er gests augað og vitanlega hljóta þannig bæði bankaráð og bankastjórnir sem eru ábyrgar fyrir daglegum rekstri viðkomandi banka að leita leiða til hagræðingar.
    Hve mikið fé hefur verið fært frá skattborgurum til fyrirtækja frá Atvinnutryggingarsjóði, Verðjöfnunarsjóði og öðrum opinberum farvegum? Ja, hvernig sem þetta er nú, þá hefur ekkert fé enn þá verið fært frá skattborgurunum og kannski gætu menn spurt sig að því, hve mikið fé hefur verið fært til skattborgaranna frá þessum atvinnuvegum eða til bankanna o.s.frv. Ég er reyndar að láta skoða það hvernig tilfærslur hafa orðið á fjármagni í þjóðfélaginu nú og hef þegar fengið það upplýst að hagnaður viðskiptabanka og helstu sjóða á árinu 1988 var 1 milljarður 460 millj. kr. eftir skatta. Skattar eru á áttunda hundrað milljóna þannig að fyrir skatta var hagnaður bankakerfisins og sjóðanna um 2,2 milljarðar kr. Það telst nú álitleg upphæð og þegar þess er til viðbótar gætt að bankarnir hafa lagt í afskriftareikninga á áttunda hundrað millj. kr. þá er að þessu öllu saman lögðu um 3 milljarða að ræða í viðskiptabönkunum og hjá helstu sjóðum landsmanna. Hvaðan skyldi þetta fjármagn vera komið? Að sjálfsögðu frá lántakendum, það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, m.a. frá þeim atvinnuvegum sem hér hafa einkum verið til umræðu í dag, þ.e. frá útflutningsatvinnuvegunum áreiðanlega að töluverðu leyti. Í þessum upplýsingum eru ekki þær upphæðir sem hafa verið greiddar sparifjáreigendum sem vitanlega
hafa átt að fá arð af sínu sparifé, en ég tel ekki ólíklegt að það sé um einhverjar upphæðir af svipuðum stærðargráðum að ræða svo að það hefur æðimikið fjármagn verið flutt frá þessum fyrirtækjum til banka og sjóða og sparifjáreigenda.
    En spurningin er ekki um það, það skiptir víst ekki máli, heldur hvað sé flutt í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og Verðjöfnunarsjóð. Atvinnutryggingarsjóður skuldbreytir og hv. þm. er þá að gera ráð fyrir því að þær skuldbreytingar verði ekki greiddar og hljóti að greiðast af öðrum. Við höfum ekki gert ráð fyrir því. Við höfum gert ráð fyrir því að þeim atvinnufyrirtækjum sem skuldbreytinguna fá verði skapaður rekstrargrundvöllur og þau geti endurgreitt þessi lán, m.a. vegna þess að þau eru til miklu lengri tíma en þau lán eru sem skuldbreytt er. En þann 15. þ.m. hafði Atvinnutryggingarsjóður skuldbreytt 2 milljörðum 558 millj. kr. og af því var borgað út í reiðufé 648 millj. kr., þ.e. hluti af þeim tveimur milljörðum sem Atvinnutryggingarsjóður hefur til ráðstöfunar að þessu leyti. Til viðbótar þessu hefur Atvinnutryggingarsjóður veitt lán, hagræðingarlán upp á 342 millj. kr. Það eru lán sem veitt eru iðulega t.d. þar sem fyrirtækin --- og þau eru sem betur fer nokkuð mörg --- eru að sameinast, eru að vinna að hagræðingu sjálf því að í þessari atvinnugrein eru margir mjög dugandi menn sem svo sannarlega líta ekki bara til ríkisvaldsins og biðja um gengisfellingar, heldur eru a.m.k. einnig að

vinna að umtalsverðri hagræðingu í sínum greinum. Það má nefna staði eins og Þorlákshöfn, Ólafsfjörð og ýmsa fleiri. Í slíkum tilfellum hefur fyrirtæki fengið hagræðingarlán til að stuðla að aukningu hlutafjár eða annarri hagræðingu í viðkomandi fyrirtæki.
    Hv. þm. spurði, ef ég man rétt, einnig að því hvað umsóknirnar væru margar. Ég hef ekki alveg síðustu tölur, en ég hygg að það séu mjög nálægt 217 umsóknir sem hafa borist til Atvinnutryggingarsjóðs. Fyrir um það bil 10 dögum hafði 71 umsókn verið afgreidd jákvætt, þetta er að vísu eftir minni, en ég held að það fari nokkuð nálægt, og rúmlega 40 verið neitað. Ég hygg að núna sé þetta hlutfall að rúmlega 80 hafi fengið jákvæða afgreiðslu en um það bil 50 hafi fengið neitun og ekki talin fullnægja þeim kröfum sem Atvinnutryggingarsjóður gerir um rekstrarskilyrði o.s.frv.
    Frá Hlutafjársjóði sem einnig var spurt um hafa engar afgreiðslur orðið enn, en þar var auglýst eftir umsóknum. 31 sótti um. Allmikið af þeim umsóknum munu ekki fullnægja þeim skilyrðum sem lög setja Hlutafjársjóði og skal ég ekki segja hvernig endanleg greining á þessum umsóknum verður eða hve mörg fyrirtæki bíða afgreiðslu. Það er auðvelt að reikna það út af því sem ég hef nú sagt. Ég óttast að æðimörg þeirra fyrirtækja sem bíða hjá Atvinnutryggingarsjóði fullnægi ekki þeim reglum sem þar eru settar. Þó skal ég ekkert um það segja á þessari stundu.
    Er ætlað að flytja meira fé til fyrirtækjanna? Ef svo er, hvaðan á að taka það? Enn er talað um að flytja fé. Í skuldbreytingunni eru 5 milljarðar heimilir, en það er ekki nema helmingurinn af því sem hefur verið notaður enn, og þar að auki tveir milljarðar í reiðufé og þar hefur tæplega helming verið ráðstafað. Í Hlutafjársjóði er um það að ræða að færa fé frá bönkum og sjóðum sem kjósa að breyta skuldum í hlutafé og enn vil ég mótmæla því að þar sé um fjármagn skattborgaranna að ræða eins og orðað er í spurningunni. Þarna hljóta að fara fram samningar við viðkomandi skuldheimtumenn og um það get ég ekki sagt á þessari stundu. Þær viðræður munu aðeins vera að hefjast.
    Hvaða fyrirætlun hefur ríkisstjórnin um að treysta rekstrargrundvöll atvinnufyrirtækjanna? Með hvaða hætti er ætlunin að búa fyrirtækjunum þá starfsaðstöðu sem þau þarfnast? Þetta er nú það sem við höfum verið að ræða hér í nokkra daga og menn telja sig ekki fá glögg svör við og ég efa ekki að hv. þm. tekur undir í þeim kór. Ríkisstjórnin hefur fellt gengið um 13,3% frá því að hún tók við. Hún hefur hins vegar skuldbreytt eða stuðlað að þeirri skuldbreytingu sem ég las upp áðan upp á 2,5 milljarða, svo að ég endurtaki þá tölu, og gert er ráð fyrir að skuldbreyta um annað eins til viðbótar. Hlutafjársjóðnum er samkvæmt lögunum a.m.k. ætlað að breyta í hlutafé með ríkisábyrgð 600 millj. kr. og von okkar er að breyting í hlutafé geti orðið töluvert meiri en það. Skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta.
    Hvað á hæstv. forsrh. við þegar hann líkir kröfugerð þeirra BHMR-félaga sem nú eru í verkfalli

við vitfirringu? Ég á við það að hvort sem þessi krafa er upp á 70% hækkun eins og samningsmenn ríkisins halda fram eða 50% eða 30% eins og samningsmenn BHMR halda fram, þá er hún út úr öllu korti og víðs fjarri því sem þetta þjóðfélag getur staðið að í minnkandi afla og minnkandi þjóðartekjum og á sama tíma og þeir sem lægst hafa launin í þjóðfélaginu, sem ég veit að hv. þm. ber mjög fyrir brjósti, láta sér nægja þá launahækkun sem hér hefur verið talað um og meira að segja ýmsir stjórnarandstæðingar hafa kallað mjög hóflega og var kallað áðan af formanni Sjálfstfl. ótrúlega hógværa samninga sem þar hafa verið gerðir. Og ég trúi varla öðru en hv. þm. sé sammála mér um það að engin ríkisstjórn gæti samið við þá sem eru þó í hærri hluta launaskalans um launahækkanir á þessu stigi eins og nú er ástatt. Það gæti
ekki nokkur ríkisstjórn.
    Sjöunda spurning: Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa í því skyni að draga úr atvinnuleysi? Ríkisstjórnin er ekki búin að taka þær ákvarðanir. Ég nefndi 15 milljónir sem hefði verið veitt til þess að stuðla að atvinnu unglinga í skógrækt og landgræðslu nú í sumar. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki tekið ákvarðanir um hitt. Ég hef upplýst fyrr á fundinum að um það mun verða rætt á næstu fundum og núna er enn ein ítarleg úttekt hafin á því hvar þetta atvinnuleysi er. Það hefur aukist fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu, sums staðar dregist saman á landsbyggðinni, sums staðar staðið í stað á milli mánaða, en aukningin hefur fyrst og fremst verið hér á höfuðborgarsvæðinu. Ríkisstjórnin mun, ef svo heldur fram sem horfir að þessu leyti, hafa samráð t.d. við fjvn. ef ráðstafa þarf fjármagni til þess að draga úr atvinnuleysi.
    Hvaða reglum verður beitt til að skipta þeim 15 millj. sem samið var um í BSRB-samningunum í landgræðslu? Því miður, hv. þm., ég hef ekki svar við þeirri spurningu, hef satt að segja ekki hugmynd um það, en treysti mjög vel þeim sem með landgræðslu- og skógræktarmál fara til þess að skipta þessu þannig að sem jafnast komi niður á landshluta.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki eyða meiri tíma þessarar hv. deildar. Ég veit að hv. sjálfstæðismönnum þykir ég ekki hafa svarað sínum markvissu og ágætu spurningum, en það verður þá að hafa það.