Loftferðir
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 34/1964.
    Í frv. er lagt til að við loftferðalögin verði bætt nýjum kafla sem fjalli um vinnuumhverfi áhafna loftfara. Er tilgangurinn fyrst og fremst sá að tryggja bættan aðbúnað, hollustuhætti og öryggi áhafna um borð í loftförum og að skipulagt eftirlit verði haft með vinnuumhverfi þessara stétta eins og annarra í þjóðfélaginu.
    Að undanförnu hefur töluverð umræða farið fram um heilsufar og vinnuaðstöðu flugfreyja og flugþjóna. Eins og kunnugt er gilda almennu lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, frá 1980, ekki um störf áhafna loftfara. Er því hvergi til skipulagt samskiptanet milli þeirra og flugrekenda um bætt vinnuumhverfi né eftirlit með þessum málum. Lögin frá 1980 voru samin með hliðsjón af norrænum lögum. Flugmálayfirvöld og vinnueftirlit í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, sem áttu viðræður um samræmingu á löggjöf þessara landa um vinnuumhverfi áhafna loftfara, komust að þeirri niðurstöðu að ákvæði um þetta efni ættu heima í loftferðalögum frekar en almennum lögum. Að höfðu samráði við félmrh. er ég einnig þeirrar skoðunar. Kostir þess eru m.a. þeir að ákvæði um vinnuumhverfi eru sniðin að hinum sérstöku þörfum flugsins og að eftirlit með framkvæmd á málefnum áhafna verður á einni hendi.
    Í frv. þessu er höfð hliðsjón af almennu lögunum frá 1980, og almennum ákvæðum þeirra, um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustað. Einnig er höfð hliðsjón af norrænum lögum, einkum hinum dönsku, um sama efni. Frv. byggir á því meginsjónarmiði að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi áhafna um borð í loftförum verði sem mest innan vinnustaðanna sjálfra og áhafnir og flugrekendur skipuleggi sameiginlega úrbætur og ráðstafanir um borð í loftförum undir eftirliti loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar. Það gerir ráð fyrir sérstökum öryggistrúnaðarmanni starfsmanna í fyrirtækjum þar sem fimm starfsmenn eru í áhöfn eða fleiri og enn fremur öryggisnefnd sem skipuleggur aðgerðir varðandi bætt vinnuumhverfi um borð í loftförum og annast fræðslu starfsmanna um þessi efni.
    Í öryggisnefndinni eiga sæti fulltrúar starfsmanna og flugrekenda. Er það í samræmi við það meginsjónarmið frv. sem ég gat um áðan að mál sem varðar vinnuumhverfi verði best leyst innan vinnustaðanna sjálfra. Til að tryggja góð og varanlega tengsl ráðuneytis og Flugmálastjórnar við hagsmunaaðila er í frv. lagt til að stofnað verði vinnuverndarráð fyrir flugstarfsemi sem ráðherra skipar. Það er hliðstætt því ráði sem stofnað var með breytingum á dönsku loftferðalögunum frá 1983 og kallast ,,Arbejdsmiljörad for luftfart``. Ráðið er ráðgefandi fyrir ráðherra í vinnuumhverfismálum áhafna.
    Með samþykkt þessa frv. verður stigið stórt skref

í þá átt að bæta vinnuumhverfi áhafna og þeirra sem við flugið starfa. Og ég bind vonir við að með þessari skipan mála komist á eðlilegt eftirlit og eðlilegt skipulag á þessu sviði og þær stéttir sem við flugið starfa og einkum áhafnir flugvéla verði þá jafnsettar öðrum í þjóðfélaginu hvað þessi sjálfsögðu atriði snertir.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til hv. samgn.