Jarðræktarlög
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið. Hv. 4. þm. Austurl. var nú í nokkrum ham og sá ekki á honum, eins og reyndar var kallað hér fram í af ýmsum, að hann væri kvefaður. Þvert á móti mætti ætla að hann hefði sjaldan verið við betri heilsu.
    Umfjöllun hv. þm. var að mestu leyti almenns eðlis og kom ekki með beinum hætti inn á einstök efnisatriði frv. þannig að ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að svara því mjög mörgum orðum. Ég hygg að þessi minni háttar endurskoðun á jarðræktarlögum geti naumast talist þau gríðarlegu tímamót og straumhvörf í íslenskum landbúnaði sem hv. þm. lét nú að liggja í ræðu sinni. Það er hins vegar ljóst og er hv. 4. þm. Austurl. auðvitað mun betur kunnugt en ræðumanni að það hefur mikið breyst á Íslandi og í íslenskum landbúnaði síðan 1923 og það hefur reyndar heilmikið breyst í þessum efnum á ekki lengri tíma en frá síðasta áratug. Og ég hygg að fyrst og fremst sé um það að ræða hér að verið sé í áföngum að aðlaga löggjöf landbúnaðarins að þeim breytingum sem við því miður óhjákvæmilega stöndum frammi fyrir í þessum efnum og ekki verða umflúnar og ekki hverfa þó að hér séu haldnar ágætar ræður á Alþingi, jafnvel hér í hv. Ed.
    Einu verð ég þó að andmæla og þykir mér miður að hv. 4. þm. Austurl. skyldi leggja þann þunga í skoðun sína að álit búnaðarþings hefði að engu verið haft í þessum efnum og jafnvel öðrum að svo miklu leyti sem það var sett fram á þinginu sem haldið var hér fyrr í vetur. Það er ekki rétt hjá hv. 4. þm. Austurl. Frv. eins og það var lagt fyrir búnaðarþing var síðan breytt til að koma til móts við þau sjónarmið sem hv. búnaðarþing setti fram. Menn geta um það deilt hvort þar hafi verið gengið nógu langt í átt til þeirra sjónarmiða og auðvitað er hægt að halda því fram og eðlilegt að búnaðarþingsfulltrúi eins og hv. 4. þm. Austurl. ku vera, sem nýtur þess víðtæka trausts í sínu heimabyggðarlagi að vera ekki einungis kosinn á Alþingi heldur og á búnaðarþing, hafi vonað að álit búnaðarþings væri í einu og öllu tekið upp í frv. Hér liggur hins vegar fyrir í formi stjórnarfrv. sú málefnalega niðurstaða, sú málamiðlun sem aðilar að þessu ríkisstjórnarsamstarfi gátu orðið sammála um, og mikið fleira þarf ekki um þau orð að segja.
    Ég ætla ekki að fara að lýsa einu eða öðru yfir um það hvort hér sé á ferðinni sú óskaniðurstaða sem landbrh., bóndasonur að norðan eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. --- ( EgJ: Af góðum ættum.) Já, af ágætum ættum þar á ofan. Það er nú skoðun hv. 4. þm. Austurl. Ég ætla ekki að fara að gerast dómari í þeirri sök, en ég held að þær séu nú misjafnar eins og víðar, ættir mínar. --- eða hvernig ég hefði endilega viljað hafa þetta. Staðreynd málsins er sú að um þetta náðist samkomulag, þessar breytingar. Það var tekið tillit til sjónarmiða búnaðarþings. Þannig var sett inn heimildarákvæði, liður III, sem hv. 4. þm. Austurl.

gerði nú reyndar að umtalsefni, og var til að koma til móts við þau sjónarmið að það væri óheppilegt að með öllu féllu út úr lögunum heimildir til að styrkja nýrækt og nýjan skurðgröft og á það get ég að sjálfsögðu fallist að þannig getur hagað til að það sé eðlilegt og það sé hagkvæmara en að reyna að nýta áður ræktað land í vissum tilvikum og þá sé rétt að hafa heimildir í lögum til þess. Sú aðferð var valin að hafa þetta almennt heimildarákvæði en ekki setja inn fasta upphæð sem heimilt væri að ráðstafa í þetta verkefni á hverju ári eins og búnaðarþing lagði til. Sá er munur á þessari afgreiðslu og hinni.
    Hinu þoka ég ekki frá og held því fram hvar og hvenær sem er og ef ég man rétt hef ég grun um að ég hafi eitthvað látið að því liggja í ræðu minni á einmitt þessu nefnda búnaðarþingi. Ég tel auðvitað að menn verði að horfast í augu við breyttar aðstæður og það eru breyttar aðstæður í hinum hefðbundna búskap hvað það snertir að það horfir ekki til framleiðsluaukningar. Þvert á móti hefur þar orðið samdráttur og e.t.v. stöndum við frammi fyrir jafnvel áframhaldandi samdrætti þar, til að mynda í sauðfjárrækt. Þess vegna eru ekki sömu rök og áður voru fyrir því að brjóta nýtt land og grafa nýja skurði, þurrka nýtt votlendi á Íslandi, a.m.k. ekki til kjöt- og mjólkurframleiðslu, hinna hefðbundnu greina. Og þá verða menn að taka því og laga sig að því.
    Ég held líka að megi segja að þær aðstæður sem við búum við þarna séu að ýmsu leyti sambærilegar við það sem sjávarútvegurinn hefur mátt mæta nú á hinum síðari árum þegar ýmsir helstu fiskstofnar okkar hafa orðið fullnýttir. Þá hefur einmitt skapast þar mikil umræða um að þá beri að reyna að nýta betur þá fjárfestingu sem fyrir er en ekki auka á hana, ekki kaupa ný skip, ekki stækka flotann. Hér má segja að að verulegu leyti sé um sambærilegar aðlögunaraðstæður að ræða. Það er mikill misskilningur hjá hv. 4. þm. Austurl. að með því sé boðuð stöðnun eða afturför í íslenskum landbúnaði þó að áherslan færist frá því að brjóta nýtt land og þurrka nýtt votlendi yfir í það að nýta betur það land sem fyrir er, færa áhersluna yfir í endurræktun. Ég er einmitt þeirrar skoðunar, og því hef ég heyrt marga fagmenn í þessari grein halda fram, að á undanförnum árum og jafnvel áratugum hafi menn einmitt gert of lítið af því að betrumbæta sína ræktun, endurnýja hana og endurnýja stofna á
túnum o.s.frv. vegna þess að áherslan hafi kannski legið um of á því að rækta nýtt og brjóta nýtt land og þess vegna kann þetta einmitt að vera af skynsamlegum ástæðum góð þróun.
    Ég endurtek það að það var sjálfsögðu farið yfir álit búnaðarþings hvað þetta frv. snerti sem og þau önnur sem þar var fjallað um og ég fullyrði að það var eftir því sem samstaða tókst um reynt að taka tillit til þeirrar afstöðu sem þar kom fram, bæði varðandi jarðræktarfrv., skógræktarfrv. og þau mál önnur sem búnaðarþing lét til sín taka og liggja nú hér fyrir hinu háa Alþingi. Má þá líka nefna mál sem hér er á dagskránni og verður rætt síðar,

búfjárræktarlög sem að stofni til voru samin af starfsnefnd sem búnaðarþing setti niður.
    Hv. landbn. mun svo að sjálfsögðu fá þessi frumvörp til umfjöllunar og að sjálfsögðu fjalla um m.a. álit búnaðarþings og það er auðvitað Alþingis að segja síðasta orðið í þessum efnum. Það vitum við báðir, ég og hv. 4. þm. Austurl. Hér liggur hins vegar fyrir sú málefnalega niðurstaða sem samstaða tókst um að leggja fram í formi stjórnarfrumvarps.
    Það er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Austurl. að opinber framlög til þessa málaflokks, jarðræktarframlög, hafa lækkað að raungildi mikið á undanförnum árum, en aðstæður hafa líka breyst verulega í landbúnaðinum eins og ég hef þegar rakið og fjármunum er nú frekar varið til annarra hluta, þeirra að laga framleiðsluna að markaðsaðstæðum og jafnvel draga þar saman. Landbrh. er ágætlega að sér um það hvert stefnir í þessum efnum, en það væri e.t.v. ástæða til að spyrja hv. 4. þm. Austurl., vegna orða sem hann lét hér falla, hversu vel hv. 4. þm. Austurl. er að sér um það til að mynda hvert stefnir í sauðfjárbúskapnum um þessar mundir, því að ég verð þá því miður að upplýsa hv. þm. um það að það er ekki rétt, sem kom fram í hans máli, að það horfi til þess að jafnvægi náist milli hins innlenda markaðar og framleiðslunnar hér í þeirri búgrein. Því miður er það ekki svo. Og það kann vel að fara svo að ég upplýsi hv. Alþingi innan tíðar um þá að ýmsu leyti alvarlegu þróun sem þar hefur verið og er að eiga sér stað. Þar eru hin stóru og alvarlegu mál íslenskrar bændastéttar og íslensks strjálbýlis á ferðinni að mínu mati. Það eru hin stóru mál, hv. 4. þm. Austurl. Og þar vona ég að ég eigi liðstyrk þinn vísan þegar að því kemur að taka á þeim hlutum.
    Ég held að ég þurfi þá ekki að hafa þetta mikið fleiri orð en ég vil þá koma að því sem hv. 4. þm. Suðurl. vék hér að og taka það fram að ég tel það þarfa ábendingu og rétt að skoða hvort ekki sé einmitt nauðsynlegt að breyta ákvæðum liðar IX í frv., um framlög til skjólbelta, þannig að hægt sé að styrkja þessa starfsemi miðað við nýjustu tækni og framfarir á því sviði. Þessi nýjasta tækni á þessu sviði er mun stórtækari en áður var og gerbreytir í raun og veru og nánast byltir möguleikum manna til skjólbeltaræktunar í stórum stíl. Að sjálfsögðu er það rétt og ég mun beita mér fyrir því að hv. landbn. taki þetta atriði sérstaklega til skoðunar.
    Hv. 4. þm. Austurl. gerði nokkuð úr áhrifamætti Alþfl. í þessu máli. Ég vil þá bara upplýsa hv. 4. þm. Austurl. um það að Alþfl. á í sjálfu sér ekki sérstaklega aðild að þessu að öðru leyti en því að þingflokkur Alþfl. samþykkti að frv. í þessari mynd yrði lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Meira er ekki um það að segja.
    Síðan var ákveðinn kafli ræðu hv. þm. mér með öllu óskiljanlegur og hv. þm. er e.t.v. tilbúinn til að útskýra hann fyrir mér nánar. ( Gripið fram í: Ég skal gera það.) Það var Póllandskaflinn. Aftur og aftur kom Pólland upp í máli hv. þm. Það getur vel verið að honum sé Pólland sérstaklega kært og hugleikið og

hann sofni út frá því á kvöldin og vakni til þess á morgnana að hugsa um Pólland. Það er ekki svo með mig. Mér fannst orðræður hv. þm. um þetta svona heldur víxlaðar og í raun óskiljanlegar og málinu óviðkomandi með öllu, og hef ég ekki meira um það að segja.
    En ákveðnar staðreyndir fáum við ekki umflúnar og þessar eru helstar ástæður þessa frv., ef hv. þm. vill fá að heyra það einu sinni enn sem reyndar hefur verið margoft sagt, bæði hér við þessa umræðu og fyrr í vetur, annars vegar þær breytingar sem eru og hafa verið að eiga sér stað í íslenskum landbúnaði og gera það að sjálfsögðu að verkum að rétt er og nauðsynlegt að endurskoða ýmislegt í sambandi við ráðstöfun opinberra fjármuna til stuðnings þessari atvinnugrein eins og annars staðar þar sem breytingar af þessu tagi eru að eiga sér stað, í sjávarútvegi, iðnaði o.s.frv. Þetta er önnur meginástæðan. Frammi fyrir hinni meginástæðunni stöndum við báðir, ég og hv. 4. þm. Austurl., að síðustu ríkisstjórnir sem við höfum nú stutt á víxl hafa ekki og fjárveitingavaldið hefur ekki haft vilja til þess að setja í fjárlög nægjanlegar fjárhæðir til þess að standa undir framkvæmd jarðræktarlaganna að óbreyttu. Það eru staðreyndir, heldur kuldalegar en staðreyndir samt, sem við stöndum frammi fyrir. Og ég er þeirrar gerðar, hv. 4. þm. Austurl., að ég nenni ekki að reyna að fela vandann fyrir mér eða velta honum á undan mér óleystum til handa þeim sem kannski eiga að taka við mínum verkum síðar. Ég vil þá frekar standa frammi fyrir hlutunum eins og þeir eru. Ég er tilbúinn að
axla þær óvinsældir sem það kann að hafa í för með sér. Og að sjálfsögðu ætlast ég ekki til þess að bændastéttin, eða búnaðarþing eða aðrir aðilar séu sérlega hamingjusamir með það að lagafrv. af þessu tagi er komið hér fram. En það byggir á þeim staðreyndum sem ekki verða umflúnar. Þær eru meginástæður þess að frv. er flutt. Og ég vil halda mig við raunveruleikann og vinna samkvæmt honum en gera enga tilraun til að fela hann sjónum né velta vandanum yfir á einhverja aðra sem eiga að taka við verkum mínum í framtíðinni.