Búfjárrækt
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þetta frv. er búið að vera til umfjöllunar í landbn. deildarinnar þó að ekki sé búið að vísa því þangað. Það hefur verið farið yfir frv. og við höfum fengið aðstoð landbrh. við að fara yfir frv. með okkur. Landbúnaðarnefndarmenn beggja deilda fóru síðan á búnaðarþing sem fjallaði um frv. í morgun og í framhaldi af því var fundur með búfjárræktarnefnd búnaðarþings og nefndarmönnum landbúnaðarnefndanna í hádeginu í dag úti í Þórshamri. Umfjöllun um þetta mál er því í mjög góðum gangi og notalegum gangi, vil ég segja. Það er mjög ánægjulegt að geta skoðað mál eins og þetta í tengslum við umfjöllun sem var á búnaðarþingi í morgun og fjalla síðan áfram um það eins og gert var á fundi með búfjárræktarnefnd og búnaðarmálastjóra í hádeginu í dag.
    Ég held og veit það reyndar að frv. er framfaraspor. Í því eru sjálfsagt einhverjir hlutir sem þarf að breyta eins og venjan er og oftast nær þarf að gera í nefndum þingsins. Ég held að farið hafi verið af stað með undirbúningsvinnu í nefndunum á réttan máta og málið skoðað á breiðum grundvelli, en ekki aðeins á þann veg að ráðuneytismenn upplýstu nefndarmenn um hvað verið væri að fjalla um heldur kom það beint úr grasrótinni, þ.e. bændurnir sjálfir hafa komið til umfjöllunar um málið.
    Ég ætla ekki að fara að fjalla um frv., en vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég get þó tekið undir einn þátt, sem bæði hv. 4. þm. Austurl. benti á og fram kom í umræðum á búnaðarþingi og í nefndarspjallinu, sem er að ég tel það óþarfa tilætlun ráðherra að hafa áhrif á félagaskipun landbúnaðarins, mér finnst það ekki af hinu góða. Ég hef tilfinningu fyrir því að þarna séu þættir sem mætti breyta á þann veg að ríkisábyrgðin á búfjárræktinni verði minni en ætlast er til í frv.