Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er flutt vegna brýnnar nauðsynjar. Það mættu allir hér og reyndar allir landsmenn hafa fylgst með þeim umræðum sem átt hafa sér stað um mistök sem hafa gerst við læknisaðgerðir. Auðvitað er það svo að í heilbrigðisstétt gerast mistök sem annars staðar en í þessu tilviki er það þannig að einstaklingar verða fyrir þessu sem oft og tíðum eiga mjög um sárt að binda, fólk sem á því erfitt með að leita réttar síns en þetta frv. er flutt til að auðvelda fólki að ná rétti sínum. Auðvitað má finna að ýmsu í frv. en tónninn er réttur, hann er skýr. Hann segir það að örorka, sem verður vegna mistaka sem hafa átt sér stað, verði metin og fyrir hana fáist bætur líkt og gerist í öðrum slysatilvikum.
    Ég minnist þess oft að þegar hafa komið fram brtt. við almannatryggingalöginm, þá koma heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrar í ræðustól og segja að það sé ekki tímabært, það sé verið að endurskoða lögin. Þetta hef ég heyrt á hverju einasta þingi. En því miður hefur góðum málum verið vísað til svefns á þessum forsendum. Ég er ósáttur við slík vinnubrögð og tel að það megi samþykkja mál sem þetta. Þingmenn eiga ekki að láta segja sér svona hluti, ekki nema það séu mjög brýn rök fyrir því. Ég sé engin sérstök rök fyrir því að geyma þetta mál og legg því á það mikla áherslu að frv. verði samþykkt og ég skora á ráðherra að leggja sitt til þess að Nd. samþykki það líka þannig að þetta mál verði að lögum.
    Auðvitað má breyta til á næsta þingi og auka rétt þeirra sem verða fyrir mistökum enn meira. Það er nú einu sinni svo að hér á löggjafarþinginu setjum við lög ár eftir ár og breytum lögum ár eftir ár vegna þess að við viljum lagfæra þjóðfélagið og gera það manneskjulegra.