Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég er meðflm. að þessu frv. og segi það sama og hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan að ég er með því vegna þess að ég lít á þetta sem sanngirnismál. Þetta er nokkuð sérstakt mál hér í deildinni. Það eru tólf flm. að því. Þetta er mál sem kemur hér inn og er lagt fram af almennum þingmönnum, ekki af ríkisstjórn eða ráðherrum. Og það er tilætlun okkar allra sem flytjum þetta frv. og ég vænti þess jafnvel fleiri hv. þingdeildarmanna, enda er það komið í ljós, að þetta frv. verði afgreitt sem lög frá þessu þingi.
    Mér finnst sú yfirlýsing sem hæstv. heilbr.- og trmrh. gaf hér áðan líka vera á þann veg að ráðherrann væri fyrst og fremst að benda á ákveðnar breytingar á frv. á þann veg að það félli betur að þeim lögum sem fyrir eru, allt á jákvæðan hátt. Og ég tek engan veginn ræðu hans á þann veg að hann hafi verið að leggja það til að þetta mál yrði ekki afgreitt sem lög á þessu þingi.
    Ég skora á þá ráðherra sem hér eru staddir að standa að því að þetta mál verði afgreitt. Það mundi án efa setja skemmtilegri svip á þetta þing að það væri svona gott þingmannamál til afgreiðslu innan um öll ráðherra- og ríkisstjórnarmálin.