Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. sem hér hafa tjáð sig og tekið mjög undir þetta frv. Margir þeirra eru meðflm. en þó hafa fleiri bæst í hópinn og lýst yfir stuðningi. Það segir auðvitað talsvert meira en það sem frv. gerði þegar það var lagt fram.
    Út af því sem hæstv. ráðherra sagði, þá gat ég um það í framsögunni varðandi endurskoðunarnefndina að ég hef fullkomnar heimildir fyrir því að þar gangi verk hægt, í heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum. Þar var ekki haldinn fundur í níu mánuði á sl. ári. Ekki í níu mánuði. Og það mun lítið hafa verið gert þar það sem af er þessu ári. Þetta segir okkur það að við getum ekki beðið eftir þessari endurskoðun að því er þetta mál varðar, enda er þetta mál líka flutt með það í huga að þetta sé bara skref. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það, ef endurskoðunarfrumvarpið verður fyrir Alþingi að hausti, að þá geti þetta horfið og nýtt komið í staðinn.
    Ég held að hugarfarið skipti líka miklu hvernig á þessu máli er tekið. Mér er sem ég sæi viðhorf þeirra einstaklinga sem orðið hafa hart úti í svona tilvikum ef Alþingi hafnaði svona máli eða saltaði það. Hvernig halda þá hv. þm. að hugarfar hjá almenningi í landinu yrði til Alþingis?
    Ég lít svo á að það hafi allt of lengi gerst og kannski heldur það áfram að gerast að það séu einvörðungu stjfrv. sem eiga að samþykkjast hér á Alþingi. Slíkt er ekkert þingræði. Hér eiga auðvitað allir þingmenn sama rétt. Það eru ekki bara ráðherrar sem eiga að fá sín mál fram. Það á hver og einn þingmaður fullan rétt á því ef menn á annað borð vilja kalla þetta þingræði hér.
    Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það er augljóst að endurskoðunarmálið kemur ekki fram á þessu þingi. Það var mér líka ljóst þegar ég fór að vinna að þessu, ég var lengi búinn að velta þessu fyrir mér. Ég er kannski sá einstaklingur sem getur trútt um talað í þessum efnum, þó það sé fullt af einstaklingum sem eru miklu, miklu verr settir eftir svona heldur en ég. Ég veit það sjálfur hvað það tók á mig sem einstakling að ganga í gegnum kerfið til þess að reyna að ná réttarbót. Og ég fullyrði að það eru hreinar undantekningar sem halda það út að fara dómstólaleiðina til þess að ná sínum rétti í svona málum. Það getur Alþingi auðvitað ekkert unað við.
    Það var líka hvati að því að ég lagði þetta fram og legg jafnmikla áherslu á að málið verði afgreitt, að ég er ekkert viss um að að hausti verði jafnjákvæður ráðherra í stóli í heilbr.- og trmrn. eins og sá sem situr nú. (Gripið fram í.) Ég sagði ég er ekkert viss um. ( GHG: Íhaldið sér um það.) Það kann vel að vera að svo verði. En þá held ég að það væri enn þá meiri þörf á því að koma þessu til skila núna og ná því fram. ( Gripið fram í: Ef íhaldið verður ...?) Nei, ef hann verður horfinn úr stólnum. Það var það sem ég tók hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. (Gripið fram í.) ( GHG: Hv. þm. skildi mig alveg rétt.) Já er það ekki? ( GHG: Íhaldið mun sjá um það örugglega.) Að hann verði þarna? ( GHG: Að þetta mál, sem hv.

þm. er að fjalla um ...) Nú, það var svoleiðis já. Það var með þeim hætti, já, já. (Gripið fram í.) Það getur nú gert það núna. Það þarf ekki haustið til þess, þannig að við þurfum ekkert að bíða, enda veit ég að Sjálfstfl., vonandi allur, ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) þannig að ég tali virðulega um þann flokk, Sjálfstfl. allur hér á þingi mun styðja þetta mál. ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) En ég taldi þetta samt öruggara af því að menn eru farnir að vera með ýmsar hrakspár í garð hæstv. ríkisstjórnar, m.a.s. ráðherrarnir sjálfir. Ég taldi því tryggara, á meðan við höfum þó jákvæðan mann í stólnum í ráðuneytinu, að vera búinn að koma þessu í höfn. Verði einhverjir betri þá ganga þeir lengra að hausti þegar hitt málið kemur.
    Ég held, hæstv. ráðherra, að kannski ættu þingmenn, ég tala nú ekki um ríkisstjórnina, að venja sig meira á það að leggja fram einföld mál sem allir skilja og vita hvað þýða, í staðinn fyrir að flækja það allt í fleiri blaðsíðna bókum sem enginn botnar upp eða niður í. Ég held að þetta mál sé svo einfalt að það geti enginn verið í vafa um hvað það þarf að þýða og hvaða áhrif það geti haft.
    Varðandi það hvort örorkan á að vera 10% eða 15%, það er ekki meginmálið í mínum huga. Það kann vel að vera samræmingaratriði að hafa það 15% eins og vinnuslysatryggingin er. Ég skal ekkert fullyrða um það. Ég tel hins vegar, það er mín persónulega skoðun, að í þessum tilvikum sem ekki hefur verið tekið tillit til allt til þessa þá eigi menn kannski að hafa lægra örorkustigið heldur en hærra og fara með það niður í 10%. Ég held að þetta fólk eigi fullan rétt á því að það sé ekki endilega bundið við það að það sé eitthvert annað prósentustig í einhverju öðru tilviki. Hvort landlæknir á að vera þarna? Ég tel það mjög eðlilegt vegna þess að ýmsar kvartanir koma til landlæknis undir svona tilvikum. Þá á hann að vera betur inni í málinu heldur en einhver annar. Og hann á líka að bera ábyrgð á því. Ég tel því að þessir tveir embættismenn séu þarna í þessu tilviki á réttum stað, það séu þeir sem þetta eiga að annast og síðan sé hægt að skjóta þeim úrskurði, ef hann er ekki viðunandi að mati viðkomandi einstaklings, til tryggingaráðs.
    Það kann vel að vera að það megi fella burtu síðustu línuna í frvgr., þetta sé allt saman fyrir hendi þar. Ef svo er þá hef ég ekki á móti því. En ég held að landlæknir og tryggingayfirlæknir séu þeir embættismenn sem þarna eiga að vera. Ég er ekki viss um að það væri endilega rétt að hafa bara tryggingayfirlækni einan. Ég held að hitt sé miklu skikkanlegra að hafa það með þessum hætti.
    Ég vil minna hv. þm. á það, þó leiðinlegt sé nú að vera að tala um sjálfan sig í þessum efnum, að ég get tekið dæmi af sjálfum mér. Ég varð út af fyrir sig ekkert hart úti fjárhagslega. Það hefur margur, kannski flestir, orðið miklu verr úti fjárhagslega út úr svona málum heldur en ég. Mér finnst það of mikil tilætlunarsemi hjá samfélaginu að auk líkamlegu þjáninganna og hinna andlegu bætist líka við

fjárhagslegar áhyggjur. Nóg er nú um hitt að mínu viti og allt of margir sem fá ekkert út úr slíkum málum. Það má nánast segja að okkar kerfi, dómskerfið, geri þetta fólk öreiga auk hinna líkamlegu og sálarlegu þjáninga eins og málin hafa verið hér rekin á undanförnum árum.
    Ég hefði ekki viljað standa í því sjálfur að flytja svona frv. ef mitt mál hefði ekki verið komið í höfn þannig að ég hygg að mér verði ekki borið það á brýn að þarna sé verið að vinna fyrir mig. Þetta er fyrir þá sem koma á eftir, hafa verið vanræktir, en þarf að taka tillit til.
    Ég ítreka það mjög og bið menn að hugsa um það í alvöru hvaða hugarfar mundi ríkja til Alþingis hjá almenningi ef menn gerðu tilraun til þess að salta þetta mál, ég tala nú ekki um að drepa það. Nógu lágt hefur mér heyrst og fundist ris Alþingis vera þó að ekki verði gert frekar í þeim málum með því að slá þessu máli á frest.
    Ég heiti því á þingmenn og veit raunar að menn munu sameinast um það að gera þetta frv. að lögum. Þó einhverjar breytingar kunni á því að verða í meðferð hv. nefndar, þá er ég raunar viss um það að hjarta allra þingmanna kemur til með að slá með þeim sem kunna að verða fyrir þessu í framtíðinni.