Almannatryggingar
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Það er aðeins út af því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykn. Það sem ég lét falla um það að ég teldi óheppilegt að gera einstakar breytingar á löggjöfinni á náttúrlega alls ekki við almennt um alla löggjöf og það á ekki heldur við um það óháð því hvernig stendur á í einstökum tilvikum. það sem ég var að vitna til núna var það sem ég hef látið falla hér á þingi í vetur út af því að við erum að endurskoða löggjöf um almannatryggingar, sem er mjög viðamikil og flókin löggjöf. Ég tek undir það með öðrum hv. þm. sem hér hafa talað að það er sannarlega tímabært að endurskoða löggjöfina. Það hefur verið oft í gangi áður en því miður dagað uppi. Og vegna ummæla hv. 9. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar, sem taldi að lítið væri að gerast í málinu, þá vil ég upplýsa hann um það og aðra hv. þm. að svo er ekki. Hins vegar lágu nefndarstörf nokkuð niðri seinni hluta síðasta árs. Þetta geta sjálfsagt þingmenn sem hér eiga sæti í hv. deild og eiga sæti í þessari endurskoðunarnefnd borið um líka. Það stafaði auðvitað af ýmsu. Það voru stjórnarskipti og það var kannski ekki hægt við því að segja þó að nokkurt uppihald yrði á nefndarstörfum. En eftir áramót hefur nefndin unnið af nokkrum krafti og auk þess hefur formaður og starfsmaður nefndarinnar verið að vinna þó að ekki væru títt haldnir fundir. Og það ég best veit, samkvæmt upplýsingum frá formanni nefndarinnar, er lífeyristryggingakaflinn nú nánast fullbúinn, þannig að það hefur miðað verulega. Ég vona að það verði hægt að standa við það markmið að klára þessa endurskoðun í sumar, eins og ég hef lýst yfir áður, og það markmið sem er í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar að endurskoða löggjöfina og ljúka þeirri endurskoðun í sumar. En þetta kemur auðvitað allt saman fram í svari mínu við fyrirspurn sem búið er að minna á að liggur fyrir þinginu og kemur sjálfsagt fyrir í næsta fyrirspurnatíma þingsins og ég reyni þá að gera nánar grein fyrir því án þess að eyða tíma í það hér og nú.
    En það var aðeins þess vegna sem ég taldi og hef haft það á orði að það mætti vísa svona breytingum á þessa heildarendurskoðun, m.a. til þess að eitt stangaðist ekki á við annað í löggjöfinni. Það sem ég lét falla hér í umræðunum áðan var fyrst og fremst nokkrar tæknilegar ábendingar, en síður en svo að ég legðist nokkuð gegn því að þetta frv. yrði afgreitt ef deildin væri sammála um það og nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri hægt að koma þessu í gegn nú, þá ætla ég síður en svo að leggjast gegn því máli. Ég hef lýst því yfir áður í umræðum við hv. 1. flm., eins og kom hér fram áðan líka, að við höfum verið að vinna að hliðstæðu máli, þessum svokallaða tryggingasjóði sjúklinga. En það mál er miklu stærra og viðameira og bíður a.m.k. um sinn. Ég get vel fallist á það að menn skoði þetta í fullri alvöru og reyni að fá málið afgreitt.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að skoða nokkur

tæknileg atriði, sem ég hef þegar nefnt og ætla ekki að endurtaka, en jafnframt að minna á það að þessar breytingar sem frv. gerir ráð fyrir eru við slysatryggingakafla almannatryggingalöggjafarinnar. Ég held reyndar að það sé ekkert athugavert við að það sé einmitt þar. En það þarf þá hins vegar að taka tillit til þess hvað varðar aðra þætti.