Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Flm. (Margrét Frímannsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 10 frá 1960, um söluskatt, með síðari breytingum. Hljóða breytingarnar þannig, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. Við A-lið 1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 1/1988, bætist nýr töluliður er orðist svo:
    23. Sérhæfðar vélar og tæki til garðyrkju eftir nánari ákvörðun fjmrh.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Greinargerðin sem er stutt hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir mikla aukningu á framleiðslu á afurðum úr gróðrarstöðvum stendur sú framleiðslugrein frammi fyrir vanda vegna aukinnar samkeppni frá innfluttri vöru. Má nefna að á árinu 1988 lækkuðu tollar verulega á innfluttu grænmeti, blómum, pottaplöntum og annarri sambærilegri vöru.
    Með frv. þessu er stefnt að því að styrkja stöðu búgreinarinnar með því að lækka gjöld af aðföngum og fjárfestingarvörum, jafnframt því að veita garðyrkju sem búgrein sambærilega fyrirgreiðslu og aðrar greinar landbúnaðar njóta.``
    Virðulegi forseti. Það þarf í sjálfu sér ekki að bæta miklu við þessa grg. þó að hún sé stutt, en við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um söluskatt á síðasta þingi var gert ráð fyrir að söluskattur á sérhæfðum vélum og tækjum fyrir landbúnað væri felldur niður eða lækkaður. Greinargóð upptalning á þessum tækjum er í lögum um söluskatt og ætla mætti að sú upptalning næði til allra greina innan landbúnaðarins en því er þó ekki þannig varið.
    Tæki sem notuð eru í sama tilgangi, t.d. til áburðardreifingar, bera ekki sama nafn innan hinna ýmsu búgreina, nefnast öðru nafni t.d. í hefðbundnum búskap en hjá garðyrkjubændum. Af þeim ástæðum njóta þeir bændur ekki sömu kjara og aðrir bændur innan landbúnaðarins og hefur það komið fyrir æ ofan í æ að þar sem um niðurfellingu á söluskatti á vélum og tækjum innan hefðbundnu búgreinanna er að ræða nær hún ekki yfir þau tæki sem notuð eru í svipuðum tilgangi í garðyrkjubúskap vegna þess að tækin heita ekki sömu nöfnum og falla því ekki undir þá upptalningu sem er í lögum um söluskatt.
    Frv. er flutt sem tilraun til þess að leiðrétta kjör þeirra sem vinna við garðyrkju og felur í sér að felldur verði niður söluskattur á vélum og tækjum samkvæmt nánari ákvörðun fjmrh. Um upptalningu í frv. er ekki að ræða og er það vegna þess að stuttur tími er til þingloka og erfitt að vinna úr þeim gögnum sem fyrir liggja og bera saman við gildandi lög, en ráðherra hefur hins vegar fallist á að það verði skipuð nefnd strax að loknu þingi, ef frv. fæst samþykkt hér, til að ráða bót á þessu og færa í átt til réttlætis.
    Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.