Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Eiginlega svaraði nú hv. 4. þm. Suðurl. því sem ég ætlaði að spyrja hér um. Þar sem það er formaður þingflokks Alþb. sem flytur þetta frv. og fjmrh. gekk hér út úr salnum akkúrat þegar hér var flutt fyrra söluskattsfrv. sem hv. 6. þm. Vesturl. mælti hér fyrir áðan, um að fella niður söluskatt af námsbókum, þótti mér ástæða til að vekja athygli á þessu og ætlaði að spyrja um það hvort hæstv. fjmrh. væri samþykkur því að fella niður söluskatt sem þessi tvö frumvörp fjalla um sem ég í raun og veru vil taka undir og er vissulega sammála að eru þörf, bæði tvö. Þó að ég hafi ekki tekið hér til máls varðandi frv. hv. 6. þm. Vesturl. vil ég við þetta tækifæri lýsa stuðningi við það.
    En kannski er full ástæða til þess að fá hæstv. fjmrh. hér inn í deildina til þess að upplýsa okkur um hans viðhorf til þessara mála. Það er ekki það sama að skipa nefnd til þess að athuga þessi mál eða að vera sammála þessu frv. sem ég tel vera af hinu góða og í raun og veru réttlætismál.