Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að taka aftur til máls vegna þess að hæstv. fjmrh. er hér mættur og ég vildi gjarnan aðeins hinkra við ef ég mætti ... ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að biðja hæstv. ráðherra að koma í salinn.) Hann er eitthvað upptekinn í símanum, sá ágæti hæstv. ráðherra. --- Það er svolítið erfitt, hæstv. forseti, að ná hæstv. fjmrh. hér inn. ( Forseti: Það hafa verið sendir tveir þm. til þess að ná í hæstv. ráðherra. Hann hlýtur að fara að koma og er að ljúka símtali.) --- Þetta fer að verða ræða á við þá sem var haldin hér á sínum tíma í hv. Nd. mig minnir að hún hafi verið í 20 mínútur. ( Forseti: Forseti vill biðja hv. þm. að sýna biðlund. Ráðherra hlýtur að fara að koma og e.t.v. gæti hv. þm. gert fyrirspurn til ráðherra sem hann gæti svarað þegar hann kæmi inn.)
    Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég kom hér aftur í ræðustól var sú að ég hafði hér fyrr á fundinum gert athugasemdir við það að hæstv. fjmrh. gekk út úr þessari hv. deild akkúrat um leið og farið var að mæla hér fyrir söluskattsfrv. sem hv. 6. þm. Vesturl. flutti. Síðan hefur það gerst að hér hefur verið mælt fyrir öðru frv. um breytingu á lögunum um söluskatt sem hv. 4. þm. Suðurl. flytur en hann er jafnframt formaður þingflokks Alþb. Þess vegna þótti mér áhugavert að fá að heyra viðhorf hæstv. fjmrh. til þeirra frv. sem hér hafa verið flutt varðandi söluskattsmálin, um að fella niður söluskatt af tilteknum vörutegundum.
    Það kom fram hér í máli hv. 4. þm. Vesturl. áðan að nú væri líklega kominn í stól fjmrh. ráðherra sem teldi það ekki eftir sér eða þætti það af hinu góða að fjölga þessum undantekningum varðandi söluskattinn. (Gripið fram í.) Ja, mér fannst mega skilja á hans orðum að hann teldi að núv. hæstv. fjmrh. hefði góðan skilning á því að það væri ekkert athugavert við það að fella niður söluskatt á ýmsum góðum málum. Og þess vegna þótti mér forvitnilegt að fá að heyra viðhorf hæstv. fjmrh. til frv. sem hér er flutt því að ég tel að það sé ekki nóg að skipa einhverja nefnd til að skoða þetta, heldur væri mjög æskilegt að fá að heyra hvort hann er sammála því að felldur verði niður söluskattur á þeim tilteknu vörum sem hér er verið að ræða um og þá væri líka gott að heyra um leið hvort það sé þá nokkurt mál að lækka matarskattinn svonefnda.