Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir skuli hafa áhuga á frv. sem hér er til umræðu. Það er nú þannig til komið að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur verið mikill baráttumaður fyrir hagsmunum garðyrkjubænda og tekið forustu fyrir þeim málum og leitt að Sjálfstfl. skuli hafa misst af henni. Það sem við ræddum um í þessum efnum er það að mér finnst sanngjarnt og eðlilegt að sams konar reglur gildi um garðyrkjubændur og aðra bændur í landinu, framleiðsluvörur þeirra eins og annarra bænda, og samræming á þeim reglum sem gilda um garðyrkju sem atvinnugrein og búgrein eins og um aðra þætti landbúnaðar. Það er sú vinna sem ég er alveg reiðubúinn að eiga samvinnu við þingið um að verði unnin á grundvelli frv. sem hér hefur verið flutt. ( SalÞ: Má skjóta inn þessu með námsbækurnar og matarskattinn?) Ég er alveg reiðubúinn að ræða við hv. þm. Salome Þorkelsdóttur um matarskattinn, hef gert það oft, útskýrt það mjög rækilega fyrir hv. þm. og öðrum þingmönnum Sjálfstfl. Ég lýsti því yfir hér fyrr í vetur að það væri skoðun mín að sú breyting væri eðlilegust þegar virðisaukaskattur yrði tekinn hér upp í lok ársins í tveimur þrepum og hafa þá lægra þrep á algengum matvælum. Ég hef síðan tekið eftir því að það hefur nýlega orðið stefna Sjálfstfl. og ég fagna því að Sjálfstfl. skuli hafa tekið undir þessi stefnumál Alþb. núna á þessu þingi.