Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Til að forða misskilningi, þá ætla ég að endurtaka það sem ég sagði hér áðan. Ég tel eðlilegt að það sé ákveðið samræmi í skattlagningu á búgreinum. Ég tel garðyrkju vera búgrein eins og sauðfjárbúskap, nautgriparækt og aðrar þær atvinnugreinar þar sem menn yrkja jörðina og fá af því ávöxt með ýmsum hætti. Hér er eingöngu verið að tala um samræmingu á þeim reglum sem gilda um hinar ýmsu búgreinar. (Gripið fram í.) Ég tjáði mig ekkert um það, sagði ekki orð um það og vænti þess að hv. þm. hafi skilið það. Ég sagði ekki orð um það.
    Varðandi sjávarútveginn vil ég vekja athygli hv. þm. á því að það er endurgreiddur söluskattur til sjávarútvegs sem nemur ærið hárri upphæð og er með hærri upphæðum í ríkisfjármálunum á hverju ári, endurgreiðsla á söluskatti til sjávarútvegs.