Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna orða hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur sem lét að því liggja að það stæði eitthvað á því að Alþb. léti verkin tala. Það er mikill misskilningur. Alþb. hefur í ágætri samvinnu við launafólk nýlega staðið hér fyrir kjarasamningum sem eru fyrst og fremst í þágu láglaunafólks og kvenna. Það eru verk sem tala skýru máli þó að Kvennalistinn hafi hins vegar kosið að horfa fram hjá þeirri staðreynd. Það hefur einnig komið fram í þeim skattamálum sem við höfum beitt okkur fyrir að það eru fyrst og fremst þeir sem betur geta borið byrðarnar sem hafa hlutfallslega verið látnir taka þær og þess vegna auðvitað hafa ýmis hagsmunasamtök þeirra sem auðugir eru í þessu þjóðfélagi ráðist gegn skattastefnu ríkisstjórnarinnar.
    Ég ber hins vegar þá von í brjósti að það komi sú tíð að Kvennalistinn hætti bara að tala og fari að verða reiðubúinn til þess að gera eitthvað í því að breyta þjóðfélaginu vegna þess að við sem stöndum nú í þessu eldhúsi gerum okkur grein fyrir því að það er ekki nóg að segja að það þurfi að vaska upp, menn þurfa að vera tilbúnir að gera það. Það sem hefur skort á með Kvennalistann er að hann hafi verið tilbúinn að vaska upp en ég vona að það fari nú að breytast og að hann ásamt okkur hinum verði tilbúinn að taka þátt í því að breyta þjóðfélaginu í verki í stað þess að tala bara um það að breyta þjóðfélaginu vegna þess að því miður breytist þjóðfélagið ekki bara við töluð orð heldur verður að aðhafast ýmislegt í þeim efnum og vonandi getum við þess vegna átt þá samleið einhvern tímann þó að því miður hafi ekki orðið mikið úr því á þessum vetri að Kvennalistinn hafi verið tilbúinn að taka þátt í því með okkur að gera róttækar breytingar á þessu þjóðfélagi en hafi frekar kosið að standa með Sjálfstfl.