Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það er rétt að ég hef þegar talað tvisvar en ég ætla að gera meira en örstutta athugasemd því að hv. 14. þm. Reykv. hafði þegar talað tvisvar þegar hann hélt langa ræðu í þriðja sinn, svo að ég ætla að leyfa mér að brjóta þingsköpin svolítið, eins og fleiri hv. þm. hafa gert hér í kvöld, enda hefur umræðan hér farið út um víðan völl og langt út fyrir það frv. sem hér er í raun og veru til umræðu sem er á þskj. 816.
    En tilefni þess að ég kom nú hér í ræðustólinn í þriðja sinn voru athugasemdir eða ummæli hæstv. fjmrh. líklega fyrir svona fimm ræðum síðan eða eitthvað svo, en mér þykir ég þurfa að gera smáathugasemd. Þó vil ég skjóta því inn áður að það furðar mig hversu oft hæstv. fjmrh. telur sig hafa þörf fyrir það að þakka og vekja athygli á því að þeir kjarasamningar, sem nú nýlega hafa verið gerðir, séu einhverjir sérstakir kvennalaunasamningar. Þetta er svo sjálfsagður hutur að það er ekki nokkur ástæða til þess að vera að þakka sér þetta sí og æ. Það var tímabært að lagfæra launakjör hinna lægst launuðu sem eru fyrst og fremst konur eins og allir vita. ( Fjmrh.: Alveg sammála því.)
    Hér hefur komið fram, m.a. í máli hv. 6. þm. Reykv., en hún sagði í upphafi sinnar ræðu ef ég man rétt, að e.t.v. væri þessi grein, þ.e. garðyrkjan, að verða hefðbundin búgrein á Íslandi. Ég tel mig þekkja nokkuð vel til þessarar búgreinar og ég verð því miður að hryggja hana og fleiri hér sem hafa e.t.v. haft þá hugmynd, að því miður er þessi búgrein hreint ekki að verða hefðbundin búgrein nema síður væri vegna þess að hún á undir högg að sækja.
    Hæstv. fjmrh. sagði í sinni ræðu að hann væri í sjálfu sér ekkert hissa á því að ég hefði áhuga á þessu frv. Hann sagði það ekki en meinti að mér væri málið skylt og það er hárrétt. Þess vegna hef ég m.a. lýst stuðningi við þetta frv. vegna þess að ég þekki til þessara mála eins og hann veit og var að ýja hér að.
    En þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég styð hv. 4. þm. Suðurl. þegar hún flytur mál sem varða þessa búgrein sem hér er verið að fjalla um eða þessa stétt innan landbúnaðarins sem eru garðyrkjubændur. Ég hef ætíð stutt hana heils hugar í slíkum málum og tekið undir þau mál sem hún hefur flutt í þeim efnum.
    Það er ekki skrýtið þó að hv. 4. þm. Suðurl. hafi áhuga á og þekkingu á málefnum garðyrkjubænda. Sú stétt er einmitt fjölmennust í kjördæmi hv. þm., Suðurlandskjördæmi. Það er í raun og veru garðyrkjubændastéttarkjördæmið. Þeir eru fáir annars staðar á landinu, einmitt kannski vegna þeirra erfiðleika sem þessi stétt á við að etja. Þess vegna þótti mér það eiginlega tímamótayfirlýsing hjá hæstv. fjmrh., sem mig langar til þess að þakka honum fyrir, þegar hann lýsti því yfir að hann teldi að garðyrkjubændur ættu að njóta sömu fyrirgreiðslu og annar landbúnaður. Ég vona svo sannarlega að hann viti hvað hann er að tala um. Þetta er nefnilega sú búgrein innan landbúnaðarins sem nýtur yfirleitt engrar

fyrirgreiðslu frá því opinbera. Það er ekki um að ræða niðurgreiðslur eða annað slíkt þegar garðyrkjubændur eru annars vegar og þá er ég að tala um gróðurhúsabændur eða ylhúsarækt eins og það var stundum kallað.
    Þetta vildi ég nú aðeins leggja hér áherslu á og jafnframt að segja honum það að það er nefnilega þannig að sumir, jafnvel sjálfstæðismenn, geta unnt öðrum þingmönnum að flytja góð mál og stutt þá í því og það hafa ekki orðið mér nein vonbrigði eða að ég telji mig hafa misst af einhverju frumkvæði varðandi það að flytja hér mál fyrir garðyrkjubændur eins og hann var að ýja hér að í sínu máli í þessari ræðu sem ég var að vitna til. Það er mikill misskilningur. Sjálfstfl. hefur ekkert verið að harma neitt slíkt. En ég styð svo sannarlega öll slík góð mál sem flutt eru hvaðan sem þau koma.
    Þetta fannst mér nauðsynlegt einu sinni enn að leggja áherslu á. Það hvarflaði að mér: Margur heldur mig sig, að geta aldrei tekið undir það sem gott kemur frá öðrum en sjálfum sér.