Söluskattur
Þriðjudaginn 18. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Ég má til með að segja hér nokkur orð. Ég hef í fyrri ræðum mínum lagt áherslu á það að sjávarútvegurinn er mjög illa staddur og þyrfti á samræmingu og leiðréttingum að halda í sínum erfiðu málum. Ég sagði hér áðan að stjórnarandstaðan hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að spár hennar um að atvinnuleysi 10--20 þúsund manns hefðu ekki orðið að veruleika. Ég endurtek það að það hafi verið átakanleg vonbrigði hjá foringjum stjórnarandstöðunnar og þykir það miður ef hv. 14. þm. Reykv. ætlar að halda því fram að ég eða aðrir vilji á nokkurn hátt gera lítið úr því atvinnuleysi sem þó varð, en ég hef lagt áherslu á það að það var svo langtum minna en stefndi í þegar Sjálfstfl. fór frá. Ég tel að það hafi náðst mjög verulegur árangur og þar sem ég þekki gerst til vantar alls staðar fólk í vinnu í dag.
    Hins vegar hefur komið hér fram að nú hefur verið vísað af stjórnarandstöðunni í ástandið á Bretlandi hjá frú Thatcher þar sem atvinnuleysi er upp í 15% og það ríki tekið sem dýrðarríkið sem koma skal í flestum málum, a.m.k. skattamálum. En síðan var vikið að því að stjórnarandstaðan, sem nú er og var í ríkisstjórn fyrir nokkrum vikum síðan, hafi ekki vitað neitt um það hvernig fjármálum ríkisins var komið. Ég verð að lýsa því yfir að umkomuleysi þeirra ráðherra sem þurftu að fara frá hefur verið afskaplega mikið að hafa ekki fylgst með, hafa ekkert haft um það að gera hvort þeir greiddu atkvæði með sköttum.
    En ég trúi því, svo að ég vitni aftur í Biblíuna, að það sé ástæða til að fyrirgefa þeim því þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gjöra.